Lífið

Heita betri umgengni á Secret Solstice með sérhæfðu tiltektarfyrirtæki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum í fyrra.
Frá Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum í fyrra. Secret Solstice/Solovov
„Undirbúningurinn hefur gengið vel. Við erum „on track“ og það er allt að rísa í dalnum. Það hjálpar til að þetta er í fyrsta skipti sem við breytum ekki svæðinu milli hátíða þannig að svæðið er eins og í fyrra. Þetta er þannig séð búið að vera stresslausasta vikan fyrir hátíð sem ég hef upplifað,“ segir Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice, sem hefst formlega í Laugardalnum á morgun.

„Þetta er allt eins og það á að vera.“

Jói Pje og Króli fluttir til í dagskránni

Um 500 manns, þar af 50-100 sjálfboðaliðar, koma að undirbúningi hátíðarinnar með einum eða öðrum hætti, að sögn Jóns. Mikil spenna ríkir í undirbúningshópnum og þá má ætla að gestir hátíðarinnar séu einnig spenntir, nú þegar herlegheitin eru rétt handan við hornið.

„Hliðið opnar klukkan fimm á morgun og fyrsta dagskráratriðið byrjar klukkan hálf sex, það er Sylvía Erla sem opnar,“ segir Jón.

Ein breyting hefur orðið á dagskránni sem aðgengileg er á netinu en dúóið JóiPé og Króli munu ekki koma fram á morgun, fimmtudag, heldur stíga þeir í staðinn á stokk á laugardaginn. Önnur atriði standa og munu gestir geta hlýtt á heimsfræga plötusnúðurinn Steve Aoki, Jet Black Joe og goðsögnina Bonnie Tyler.

Þá segir Jón enn til miða á opnunarkvöldið á morgun. Stakir miðar á laugardagskvöldið eru hins vegar uppseldir og ekki er í boði að fjárfesta í miðum á önnur stök kvöld á hátíðinni.

Frá tónleikum Prodigy á Secret Solstice í fyrra.Secret Solstice/Damien Gilbert

Sérhæft breskt fyrirtæki ráðið til að ganga frá

Undanfarin ár hafa íbúar í Laugardalnum, þar sem Secret Solstice-hátíðin hefur verið haldin ár hvert síðan árið 2014, gagnrýnt umgengni og frágang í kringum hátíðina. Aðspurður segir Jón að skipuleggjendur hafi gert sérstakar ráðstafanir í umgengnismálum í ár.

„Í fyrsta lagi gerðum við samning við Reykjavíkurborg um að þau myndu halda hreinu fyrir utan hátíðarsvæðið og við höldum hreinu inni á hátíðarsvæðinu. Í öðru lagi réðum við breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í því að hreinsa til á hátíðum. Þau munu sjá um að ganga frá og flokka rusl og halda hreinu.“

Jón segir að grindverk í kringum hátíðarsvæðið hafi verið tekin niður of snemma í fyrra, auk þess sem brast á með roki skömmu síðar, og því hafi frágangi verið ábótavant. Hann segir undirbúningsaðila ekki hyggjast leika sama leik í ár.

Eins og áður segir hefst Secret Solstice-tónlistarhátíðin í Laugardalnum á morgun. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru áðurnefnd Bonnie Tyler, Gucci Mane, Slayer, Stormzy og Clean Bandit. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Milljón dollara miðinn kominn í sölu

Dýrasti tónleikamiði heims, gullni miðinn á tónlistarhátíðina Secret Solstice, er kominn í sölu. Aðeins eitt stykki er í boði en kaupandinn verður sóttur á einkaþotu, fær endalaust kampavín í fyrsta partíinu, hár og make up alla daga og endalausar pylsur á Bæjarins beztu.

Bonnie Tyler kemur fram á Secret Solstice

Söngkonan fræga Bonnie Tyler mun koma frá á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í sumar en hátíðin fer fram í Laugardalnum 21.-24. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.