Tónlist

Birgir Hákon: „Ég er ekki fyrirmynd, foreldar eru fyrirmynd “

Bergþór Másson skrifar
Birgir Hákon er nýjasta viðbótin við íslensku rappsenuna.
Birgir Hákon er nýjasta viðbótin við íslensku rappsenuna. YouTube

Rapparinn Birgir Hákon gaf út nýtt lag og myndband í gær. Þetta er það fyrsta sem Birgir Hákon sendir frá sér og hefur lagið vakið mikla athygli fyrir óheflað málfar og umdeilt umfjöllunarefni. Þórsteinn Sigurðsson, einnig þekktur sem Xdeathrow, leikstýrir myndbandinu, og Marteinn Hjartarson útsetti lagið.

Tíu þúsund á sólarhring

Horft hefur verið á myndbandið oftar en 10.000 sinnum á einum sólarhring. Birgir hafði mikla trú á laginu og segir í samtali við Vísi tilfinninguna góða að hafa gefið lagið út. Aðspurður hvort að tölurnar hafi komið honum á óvart svarar hann því neitandi og segist hafa búist við einhverju svipuðu.

Í myndbandinu, sem er gefið út á YouTube síðunni „hundraðogellefu,“ sést Birgir meðal annars klæðast skotheldu vesti og munda hafnaboltakylfu á ógnandi hátt.

Texti lagsins fjallar meðal annars um eiturlyfjasölu, eiturlyfjaneyslu, hótanir, handrukkanir og daglegt líf í undirheimum Reykjavíkur. Birgir Hákon segir textann endurspegla sinn eigin raunveruleika.

Ég lifi lífi fíkniefna og ofbeldisbrota

Í laginu lýsir Birgir Hákon sinni eigin eiturlyfjasölu á nokkuð nákvæman hátt. Hann segist sjálfur hafa komist í kast við lögin þó nokkuð oft en hefur þó ekki áhyggjur af því að löggan noti textana hans gegn honum.

„Ég lifi lífi fíkniefna og ofbeldisbrota,“ segir Birgir Hákon skýrt í texta lagsins. Hann segir lögregluna nú þegar vera að rannsaka sig en tekur þó fram að þetta sé ekkert endilega nútíminn sem hann er að fjalla um í textum sínum.

Upp á síðkastið hefur upphafning íslenskra rappara á eiturlyfjum verið mikið í umræðunni og sætt gagnrýni á meðal almennings.

Birgir Hákon segir það ekki koma sér við.

„Ég er ekki fyrirmynd, foreldrar eru fyrirmynd“ segir hann ákveðinn

KBE-meðlimirnir Herra Hnetusmjör, Birnir, og Huginn koma allir fram í myndbandinu. Birgir Hákon hafði einmitt áður vakið athygli á tónleikum Herra Hnetusmjörs þar sem hann hefur stigið á svið í gegnum tíðina.

Helsta fyrirmynd Birgis í rappinu er 50 Cent. Óhætt er að segja að umfjöllunarefni og óritskoðaður stíll Birgis minni töluvert á rapparann Gísla Pálma, enda segir hann Gísla Pálma hafi veitt sér mikinn innblástur. Að hans sögn eru þeir mjög góðir vinir.

Birgir Hákon kemur fram á Secret Solstice á laugardaginn klukkan 18:35. 


Tengdar fréttir

Lofar töfrandi og góðu partíi

Logi Pedro verður á persónulegum nótum á Secret Solstice í ár og segir stærstan sigur og draum tónlistarfólks að áheyrendur þekki lögin og taki undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×