Viðskipti innlent

Borga 8 milljarða króna fyrir að fá að baða sig í Bláa lóninu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Starfsmenn Bláa lónsins voru 627 talsins um síðustu áramót og á síðasta ári var tekið á móti 1,3 milljónum gesta,  samkvæmt ársreikningi. Launakostnaður er stærstur hluti rekstrarkostnaðar fyrirtækisins.
Starfsmenn Bláa lónsins voru 627 talsins um síðustu áramót og á síðasta ári var tekið á móti 1,3 milljónum gesta, samkvæmt ársreikningi. Launakostnaður er stærstur hluti rekstrarkostnaðar fyrirtækisins. Fréttablaðið/GVA
„Við vorum að fjölga gestum og gera betur á öllum sviðum,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

Tekjur Bláa lónsins af sölu á aðgangi að lóninu jukust um tæplega 41 prósent í fyrra. Þær fóru úr 44,5 milljónum evra upp í 62,6 milljónir evra (7,9 milljarða króna). Samkvæmt ársreikningi fyrir síðasta ár jukust heildartekjur af starfsemi fyrirtækisins úr 77,2 milljónum evra (9,7 milljörðum króna) í 102,3 milljónir evra (12,9 milljarða króna).

Hagnaður félagsins jókst um tæpar átta milljónir evra, fór úr 23,5 (2,96 milljörðum króna) í rúmlega 31 milljón evra (3,9 milljarða króna). Fyrirtækið greiðir hluthöfum 16 milljónir evra í arð vegna síðasta árs, eða um tvo milljarða króna.

Grímur segir að á tíu ára tímabili hafi ekki verið greiddur arður. „En við höfum verið að greiða út arð undanfarin ár og við borguðum út 13 milljónir evra í fyrra í arð,“ segir hann.

Grímur segir að reksturinn á yfirstandandi ári hafi gengið samkvæmt áætlunum sem höfðu verið gerðar. „Tekjurnar eru vel á pari við það sem þær voru í fyrra. Að vísu er rekstrarkostnaðurinn okkar meiri vegna þess að við vorum að opna nýju hótelbygginguna okkar og nýja upplifunarsvæðið. Þannig að kostnaður hefur líka aukist,“ segir Grímur.

Í tilkynningu sem send var fjölmiðlum vegna ársreikningsins kemur fram að í upphafi síðasta árs voru gerðar umbætur á baðsvæði Bláa lónsins, unnið var að stækkun skrifstofuhúsnæðis og mötuneytis starfsmanna og lokahnykkurinn var settur á byggingaframkvæmdir á nýju hóteli og upplifunarsvæði, The Retreat at Blue Lagoon Iceland. Þar kemur líka fram að starfsmenn fyrirtækisins voru 627 í lok síðasta árs,

Grímur segir að nú að lokinni þessari uppbyggingu sé ekki útilokað að stjórnendur Bláa lónsins fari að huga að skráningu fyrirtækisins á markað. „Við erum eins og önnur fyrirtæki alltaf með auga á því og það er ekkert útilokað að við förum að huga frekar að því núna,“ segir hann.

Grímur útilokar ekki að fyrirtækið yrði þá skráð á markað erlendis. „Það hefur ekki verið tekin nein formleg ákvörðun um það en það er eitt af þeim verkefnum sem við höfum með höndum sem stjórnendur félagsins, að velta því fyrir okkur á hverjum tíma hvað er best fyrir hluthafa félagsins.“

vísir/pjetur





Fleiri fréttir

Sjá meira


×