Bílar

Arctic Trucks fór endilangan Grænlandsjökul á þremur Hilux

Finnur Thorlacius skrifar
Þrír sérútbúnir Toyota Hilux bílar voru með í för.
Þrír sérútbúnir Toyota Hilux bílar voru með í för. Emil Grímsson
Árið 1999 stóð Arctic Trucks á bak við leiðangur sem fetaði í fótspor norska landkönnuðarins Fridthjof Nansen og þveraði Grænland á þremur bílum frá Nuuk til Isortoq og aftur til baka, kom niður hjá Kangerlussuaq og fór alls um 1.200 km leið.

Nú, 19 árum seinna, stóð Arctic Trucks fyrir öðrum leiðangri á Grænlandsjökul með Expedition 7 og fór þetta skiptið yfir 5.000 km leið. Leiðangurinn hófst hjá hreindýrabóndanum Stefáni Magnússyni, hjá hreindýrastöðinni Isortoq þann 19. apríl og og var ekið í um 800 km norður og síðan um 750 km yfir að austurströndinni til að ná í eldsneyti. Þá var farið alla leiðina norður og niður af jöklinum á skaga sem heitir Wulff Land.

Eftir stutta dvöl þar hélt leiðangurinn til baka og kom niður hjá Kangerslussuaq með viðkomu á Summit Station. Að lokum keyrði leiðangurinn „The Arctic Circle Trail“, sem er 4.000 ára þjóðleið milli Kangerlussuaq og Sisimiut, þar sem leiðangrinum lauk.

Vel klyfjaður bíll fyrir 5.000 kílómetra leiðangur.Emil Grímsson

Vísinda- og könnunarferð

Hvatinn að þessum leiðangri var að takast á við stóra áskorun fyrir menn, bíla og útbúnað, nokkuð sem aldrei hafði verið gert áður, fræðast um þetta magnaða land, kanna og upplifa. Auk þessa safnaði leiðangurinn snjósýnum fyrir University of Utah, safnaði veðurupplýsingum og tók nákvæmar hæðarmælingar á jökli fyrir Danmarks Tekniske Universitet. Undirbúningur stóð yfir lengi, stór hluti af þessu svæði var lítt þekktur af leiðangursmönnum. 

Arctic Trucks hefur aflað sér gríðarmikillar reynslu í þróun bíla og skipulagningu heimskautaleiðangra og E7 hefur staðið að leiðangri í öllum heimsálfum. Fyrir Arctic Trucks er þátttaka í leiðöngrum mikilvæg til að byggja upp vörumerkið og eins í vöruþróun og er gaman að segja frá því að verkfræðingar Toyota ráðfærðu sig við Arctic Trucks við hönnun og þróun nýjustu kynslóðar Toyota Hilux.

Eldsneytisblöðrur voru dregnar eftir endilöngum jöklinum.Emil Grímsson

Drógu eldsneytisblöðrur á bílunum

Jökulröndin í upphafi ferðar var bæði skorin og sprungin og því þurfti að þræða hárfína leið þar til komið var vel upp á jökul. Þegar upp var komið voru sleðarnir með eldsneytisblöðrunum tengdir bílunum og er þetta sennilega í fyrsta skipti sem slíkar eru notaðar í svona leiðangri með bílum en þessir sleðar hafa verið notaðir aftan í snjósleða. Leiðangursmenn höfðu trú á þessu og treystu á að þetta myndi virka. 

Ýmis vandamál komu þó upp, erfiðlega gekk að festa tankana almennilega niður, sleðarnir þoldu illa hið mjög harða og óslétta yfirborð á austurströndinni og festingar við bílinn átust upp. En með ýmsum lagfæringum var hægt að láta þetta ganga upp.

Það urðu margar hindranir á vegi leiðangursmanna en úr öllu var leyst.Emil Grímsson

Ferðin markar tímamót

Leiðangurinn í heild telst til tímamóta í ferðum á bílum um Grænlandsjökul og í fyrsta skipti sem þetta er gert. Farið var fimm sinnum lengra en nokkur annar bílaleiðangur hefur farið á Grænlandsjökli og enn ein fjöðrin í hatt Íslendinga. Sjö manna leiðangursteymið lagði hart að sér og skilaði sínu hlutverki frábærlega, líkt og Íslendinga er von og vísa. Mætti teymið afar fjölbreyttum vandamálum á leiðinni en leysti þau öll, sem í fyrri leiðöngrum Arctic Trucks.

Gríðalega mikill farangur er nauðsynlegur í svona langferðir.Emil Grímsson





×