Lífið

Auða sætið var ekki handa Díönu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Auða sætið á kirkjubekknum sést hér á mynd. Elísabet Bretadrottning sést grænklædd að aftan.
Auða sætið á kirkjubekknum sést hér á mynd. Elísabet Bretadrottning sést grænklædd að aftan. Vísir/Getty

Autt sæti við hlið Vilhjálms Bretaprins, bróður brúðgumans Harrys, vakti mikla athygli í brúðkaupi hins síðarnefnda og bandarísku leikkonunnar Meghan Markle í gær. Orðrómur um að auða sætið væri tileinkað Díönu prinsessu heitinni, móður prinsanna, fór á flug eftir að myndir úr athöfninni voru birtar. Orðrómurinn reyndist þó ekki á rökum reistur.

Sætið var skilið eftir autt fyrir Elísabetu Bretadrottningu sjálfa svo hún sæi örugglega allt sem fram fór í brúðkaupinu, að því er fram kemur í frétt tímaritsins People. Á myndum úr athöfninni sést að Elísbet situr fyrir aftan auða sætið.



Ekki þurfti að gera sambærilegar ráðstafanir fyrir brúðkaup Vilhjálms Bretaprins árið 2011 er hann gekk að eiga Katrínu hertogaynju af Cambridge, eiginkonu sína. Þá sat drottningin nefnilega í fremstu röð og útsýnið því eins og best var á kosið.



Andi Díönu sveif þó yfir vötnum í brúðkaupi gærdagsins. Blómaskreytingar í kapellunni og brúðarvöndur Meghan Markle voru sérstaklega sniðin eftir smekk hennar og þá gaf Harry nýbakaðri eiginkonu sinni hring úr eigu móður sinnar sem Meghan bar í veislunni að athöfn lokinni.

Hertogahjónin af Sussex. Hringurinn er hér greinilegur á fingri Meghan Markle.Vísir/Getty

Þá virðast veisluhöldin almennt hafa heppnast vel. Harry og Meghan, sem nú eru orðin hertogahjónin af Sussex, héldu strax til hádegisverðar í boði Bretadrottningar eftir athöfnina í kirkjunni. Um kvöldið var svo veisla fyrir nánustu vini og ættingja í Frogmore House en til hennar bauð Karl Bretaprins. Harry og Meghan keyrðu þangað í glæsilegum bláum blæjubíl. Þá höfðu þau einnig skipt um föt, Meghan klæddist hvítum, ermalausum síðkjól úr smiðju Stellu McCartney og Harry skellti sér í smóking.

Meghan hélt sjálf ræðu í veislunni, sem hingað til hefur ekki tíðkast innan raða bresku konungsfjölskyldunnar, og í frétt breska dagblaðsins Mirror segir að gestum hafi verið boðið upp á hamborgara og candyfloss undir veislustjórn breska spjallþáttstjórnandans James Corden. Hertogahjónin vörðu svo brúðkaupsnóttinni í Windsor en brúðkaupsferðin mun bíða betri tíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×