Lífið

Þerna bar fimm lömbum í Bakkakoti: „Bara tveir spenar og ekki komast allir að í einu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristín ásamt lömbunum fimm og Þernu.
Kristín ásamt lömbunum fimm og Þernu.
„Þetta var mjög gaman en á sama tíma frekar óvænt,“ segir Kristín Kristjánsdóttir, bóndi í Bakkakoti í Stafholtstungu í Borgarbyggð, en hún Þerna Þorstadóttir bar fimm lömb á dögunum. Þerna hefur núna borið 17 lömb á fimm árum sem telst heldur betur til tíðinda.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna og eiginmaður Kristínar, birti mynd af Þernu og lömbunum á Facebook á dögunum.

„Mamma hennar átti fimm og líka fjögur svo þetta er ekki svo óalgengt í hennar kyni. Systur hennar hafa verið að eiga fjögur svo þetta er alveg þekkt hjá þeim. Þetta gekk rosalega vel fyrir sig allt saman, því lömbin voru ekki ýkja stór. Henni gekk bara vel að koma þessu frá sér.“

Allt gekk þetta eins og í sögu.
Kristín sá um að taka á móti lömbunum og gekk það vel. 

„Svo þegar þær eru bornar þá setjum við þær allar í einstaklingsstíur. Þar fá þær að vera í friði. Þerna hefur það mjög gott. Við ætlum eitthvað að taka undan henni af þessum lömbum, því það er auðvitað allt of mikið að fóstra svona mörg lömb. Bara tveir spenar og ekki komast allir að í einu,“ segir Kristín en lömbin braggast öll vel.

„Oftast er um að ræða kannski 2-3 lömb á ári. Ef það fer mikið ofar en það telst það nokkuð óalgengt, en þekkist í raun alveg.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.