Vonbrigðin héldu áfram í lokaleik Real í deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ronaldo og félagar hafa ekki riðið feitum hesti heima fyrir í vetur
Ronaldo og félagar hafa ekki riðið feitum hesti heima fyrir í vetur vísir/getty
Vonbrigðatímabil heima fyrir hjá Real Madrid var kórónað með jafntefli gegn Villareal á útivelli í síðasta deildarleiknum. Real getur þó bjargað tímabilinu með sigri á Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu um næstu helgi.

Ólíkt því sem tíðkast í flestum öðrum deildum Evrópu er lokaumferð La Liga ekki öll leikin á sama tíma og eiga bæði Barcelona og Atletico Madrid leik á morgun. Real var á tímabili búið að jafna grannana í Atletico að stigum og komið upp fyrir þá í annað sætið á markatölu þar til Samu Castillejo skorað jöfnunarmark á 85. mínútu sem sá Real falla aftur niður í þriðja sætið.

Walesverjinn Gareth Bale hafði komið Real yfir á 11. mínútu og Cristiano Ronaldo bætti öðru markinu við á þeirri 32. Staðan 2-0 í hálfleik og allt stefndi í nokkuð þægilegan sigur Real. Zinedine Zidane, þjálfari Real, tók Ronaldo af velli fyrir Karem Benzema á 62. mínútu, líklega með úrslitaleikinn í næstu viku við hugann.

Aðeins átta mínútum seinna var Roger Martinez búinn að minnka muninn fyrir heimamenn í Villareal áður en Castillejo jafnaði leikinn undir lokin. Real lýkur því leik í La Liga þetta tímabilið í þriðja sæti, að minnsta kosti fjórtán stigum á eftir toppliði og Spánarmeisturum Barcelona.

Úrslitaleikur Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu fer fram í Kænugarði næstkomandi laugardag og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira