Roma sló út Barcelona með lygilegri endurkomu

Það var ósvikinn fögnuðurinn á Ítalíu í kvöld.
Það var ósvikinn fögnuðurinn á Ítalíu í kvöld. Vísir/afp
Ein af lygilegri úrslitum síðari ára litu dagsins ljós á Ítalíu í kvöld er Roma vann upp þriggja marka forskot gegn Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Roma tapaði fyrri leiknum í Barcelona 4-1 og það voru fáir sem höfðu trú á Roma í kvöld. Þeir höfðu hins vegar sjálfir trú á verkefninu og gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-0 sigur.

Edin Dzeko kom Roma yfir strax á sjöttu mínútu sem gaf góð fyrirheit fyrir leikinn en Roma var 1-0 yfir í hálfleik. Á 58. mínútu tvöfaldaði Daniele De Rossi metin af vítapunktinum og Roma þurfti bara eitt mark í viðbót.

Það var svo átta mínútum fyrir leikslok sem Konstantinos Manolas stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu Cengiz Under og skaut Roma áfram. Allt ætlaði um koll að keyra á Ólympíuleikvanginum enda Roma að slá út risann frá Spáni.

Roma og Liverpool eru því komin áfram í undanúrslitin en á morgun ræðst það svo hvort það verður Real Madrid eða Juventus annars vegar og hins vegar Bayern Munchen og Sevilla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira