Tónlist

Gleyma seint fyrstu Ís­lands­heim­sókninni

Guðný Hrönn skrifar
Karl Hyde heillaðist af Íslandi þegar hann kom hingað árið 1994 og er spenntur fyrir helginni.
Karl Hyde heillaðist af Íslandi þegar hann kom hingað árið 1994 og er spenntur fyrir helginni. Vísir/Getty
Breska hljómsveitin Underworld, ein fremsta og þekktasta hljómsveit á sviði danstónlistar, mun spila á Íslandi um helgina á hátíðinni Sónar Reykjavík. Meðlimir sveitarinnar, Karl Hyde og Rick Smith, lofa flottu „sjói“ á tónleikunum en þeir eru þekktir fyrir magnaða sviðsframkomu.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Underworld spilar á Íslandi því þeir félagar komu fram á tónleikum með Björk sumarið 1994 í Laugardalshöll. Beðinn um að rifja það upp segir Karl:

„Þetta var svo snemma á ferli okkar, við vorum ekki einu sinni búnir að gera Born Slippy. Þannig að Born Slippy hefur aldrei verið spilað „live“ á Íslandi.“

Þess má geta að Born Slippy er þekktasta lag sveitarinnar og kom úr árið 1996.

„Þegar við vorum hérna þá spiluðum við á tónleikum ásamt Björk. Björk fór fyrst á svið og svo við. Og forsetinn var þarna klædd í hvítt, hún var svo almennileg við okkur,“ segir Karl.

Eftir tónleikana fóru þeir á djammið. „Við kynntumst mörgu fólki og það sýndi okkur Reykjavík. Við sáum fólk þrífa bílana sína klukkan fjögur um nóttina og sáum fólk labba heim af djamminu á sama tíma! Að sjá það var alveg ný lífsreynsla,“ segir Karl og hefur orð á því hvað birtan á þessum tíma hafi verið undarleg en falleg. Þeir fylgdust með sólinni lækka á lofti og hækka aftur, án þess að setjast alveg. 

„Við höfðum aldrei séð þetta áður. Þetta var súrrealískt og dásamlegt.“ Karl tekur fram að þeir hafi rifjað þessa nótt upp reglulega síðan árið 1994.

Rick Smith og Karl Hyde.

Semja og taka upp á hótelherbergjum

Það er óhætt að segja að Underworld sé langlíf en sveitin hefur verið starfandi frá árinu 1980 og spilað víða um heim á þeim tíma. Karl viðurkennir að það geti verið krefjandi að ferðast um heiminn og spila.

„Stundum, þegar klukkan er kannski 3.30 um nótt og við þurfum að fara á svið þá kvarta líkamar okkar og heimta svefn. En svo, þegar Rick „droppar“ bassanum þá flæðir adrenalínið og maður byrjar að dansa ósjálfrátt. Svo þegar maður yfirgefur sviðið einhverjum 90 mínútum seinna þá er maður glaðvakandi, mun meira heldur en þegar maður fór á svið.“

Karl og Rick hafa komist upp á lagið með að semja og taka upp tónlist á meðan þeir ferðast.

„Við semjum og tökum að mestu leyti upp í hótelherbergjum. Það að ferðast með hópi vina sem við höfum þekkt lengi og þykir vænt um, hæfileikaríkum listamönnum, gerir tónleikaferðalög að hálfgerðum ævintýrum,“ útskýrir Karl. Hann segir tónleikaferðalögin vera eitthvað sem þeir fá aldrei leiða á. „Þetta er það sem gefur okkur orku.“

Spennandi helgi fram undan

Karl er spenntur fyrir helginni enda er hann mikill aðdáandi Íslands. „Ég var svo snortinn eftir þessa heimsókn til Íslands árið 1994 að ég sneri til baka um leið og ég gat. Einu sinni til að fagna fertugsafmælinu mínu því mig dreymi um að fagna því uppi á jökli, og ég gerði það! Og svo kom ég aftur til að sjá norðurljósin.“

Spurður út í hvort þeir félagar séu með einhver plön fyrir Íslandsdvölina í þetta sinn segir Karl: „Núna munum við hitta gamla vini og byggja skúlptúra ef tími gefst.“

Karl Hyde tekur að lokum dæmi um það sem tónleikagestir mega búast við á laugardaginn: „Laserum, samtölum á milli okkar og ykkar, takti, ljósum, dansi, svita og gleði.“



Nokkrir punktar um Underworld

  • meðlimir eru Karl Hyde og Rick Smith l frá Englandi
  • starfandi frá árinu 1980
  • þekktir fyrir mikilfenglega sviðsframkomu
  • hafa gefið út níu hljóðversplötur
  • þekktasta lag þeirra er Born Slippy
  • hafa átt lög í fjölmörgum kvikmyndum, svo sem Trainspotting, The Beach, Biutiful og Vanilla Sky





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.