Lífið

Gagnrýna Terry Gilliam fyrir #MeToo-ummælin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sarah Silverman, Judd Apatow og Ellen Barkin.
Sarah Silverman, Judd Apatow og Ellen Barkin. Vísir/Getty

Leikstjórinn Terry Gilliam hefur verið gagnrýndur nokkuð harðlega fyrir ummæli sín um #MeToo-hreyfinguna. Margar athugasemdirnar koma úr herbúðum leikara og leikstjóra í Hollywood.

Gilliam vakti athygli í vikunni fyrir að segja #MeToo-byltinguna hafa farið úr böndunum og að með hanni hafi skapast „óreiðukennt ástand.“

„Þetta er eins og þegar múgurinn tekur stjórnina, múgurinn er þarna úti, hann heldur á kyndlum og ætlar að brenna kastala Frankensteins til kaldra kola. Það er klikkað hvað þetta hefur verið einfaldað,“ sagði Gilliam. Þá vildi Gilliam meina að kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein væri vissulega „skrímsli“ en að hann hefði aðeins verið afhjúpaður sem ofbeldismaður vegna þess að hann er „fáviti.“

Gilliam hélt því einnig fram að Weinstein hefði „opnaði dyr fyrir nokkra,“ og að „nótt með Harvey hafi verið gjaldið.“ Sumir hafi greitt það gjald og enn aðrir hafi þurft að þjást vegna þess.

Leikstjórinn Judd Apatow, sem hefur leikstýrt kvikmyndum á borð við The 40-Year-Old-Virgin og Trainwreck, sagði ummæli Gilliam „hálfvitaleg og hættuleg.“

„Hann var ekki í þessum herbergjum. Hann veit ekki hversu árásargjarn og ofbeldisfullur og hryllilegur hann [Weinstein] var. Hvernig getur hann leyft sér að segja að þetta hafi verið einhvers konar „tilboð“? Hann ætti að skammast sín,“ skrifaði Apatow í færslu á Twitter-reikningi sínum. Leikkonan Roseanne Arquette endurtísti þessari færslu Apatow.

Þá lagði grínistinn Sarah Silverman til að Gilliam reyndi að finna til samkenndar með þolendum #MeToo-byltingarinnar.

„Mér verður óglatt við að hlusta á þetta viðtal,“ sagði leikkonan Ellen Barkin um ummæli Gilliam. Þá gaf hún fylgjendum sínum ráð, „af fenginni reynslu.“

„Aldrei fara ein inn í lyftu með Terry Gilliam,“ skrifaði Barkin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.