Fastir pennar

Lýðræði lifir á ljósi

Þorvaldur Gylfason skrifar
Washington Post breyttist úr hóglátu staðarblaði í heimsblað árin eftir 1970 þegar uppljóstranir blaðsins fyrst um gang stríðsins í Víetnam og síðan um lögbrot Nixons forseta og manna hans leiddu til afsagnar forsetans. Blaðið á sér merka sögu síðan þá eins og Hollywood-leikstjórinn Steven Spielberg lýsir í nýrri kvikmynd, The Post.

Nýr eigandi tók við blaðinu 2013. Hann er bóksali og heitir Jeff Bezos, stofnandi Amazon.com. Hann er nú einn ríkasti maður heims. Blaðið birtir ný einkunnarorð undir blaðhausnum á forsíðunni: Lýðræði deyr í dimmu. Upptökin að einkunnarorðunum átti blaðamaðurinn Carl Bernstein sem ásamt félaga sínum Bob Woodward átti mestan þátt í að leiða fram sannleikann um lögbrot Nixons og manna hans á sinni tíð. Bernstein sótti hugmyndina til Louis Brandeis hæstaréttardómara 1916-1939. Brandeis orðaði sömu hugsun svo: „Birta … er bezta sótthreinsunarlyfið“. Hann sagði einnig: „Við getum búið við lýðræði í þessu landi eða við samþjöppun mikils auðs á fárra hendur, en við getum ekki búið við hvort tveggja í senn“. Báðar tilvitnanirnar hitta beint í mark.

Misskipting veikir lýðræði

Ég lýsti því á þessum stað fyrir viku að Freedom House hefur lækkað lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna smám saman frá 2010 þegar Hæstiréttur landsins létti öllum hömlum af fjárframlögum til stjórnmálastarfs með þeim rökum að það skerði mannréttindi auðmanna að setja skorður við getu þeirra til að kaupa hylli stjórnmálamanna. Með þessum úrskurði lagði Hæstiréttur stóran stein í götu lýðræðis og kallaði smán yfir landið, smán sem hefur hlaðið utan á sig. Þar haldast í hendur aukin misskipting og ófyrirleitni þeirra sem þrífast á leynd, misrétti og misskiptingu. Einu Evrópulöndin sem hafa nú lægri lýðræðiseinkunn en Bandaríkin skv. Freedom House eru Grikkland, Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland, Albanía, Svartfjallaland, Georgía, Úkraína, Moldavía, Makedónía, Kosóvó, Armenía, Rússland og Aserbaídjan.

Niðurrif innan frá

Hættan sem steðjar að lýðræðinu á okkar dögum er ekki blóðugar byltingar með gamla laginu heldur hnignun eða réttar sagt niðurrif innan frá af völdum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda. Nýleg dæmi um þetta skv. skýrslum Freedom House eru Ekvador, Filippseyjar, Níkaragva, Perú, Pólland, Rússland, Sri Lanka, Tyrkland, Ungverjaland, Úkraína og Venesúela auk Bandaríkjanna.

Tökum Venesúelu sem var velmegandi lýðræðisríki frá 1958 fram undir aldamót. Herforinginn Hugo Chávez var kjörinn forseti landsins 1998 og sat í embætti til dauðadags 2013. Forsetinn sölsaði undir sig æ meiri völd, veikti dómskerfið og aðrar stofnanir samfélagsins og þjarmaði að stjórnarandstæðingum. Þetta gerðist í óþökk kjósenda í þeim skilningi að skoðanakannanir sýndu 1998 að 75% kjósenda töldu lýðræði ævinlega vera bezta stjórnskipulagið; aðeins 25% töldu fáræði eða einræði stundum geta átt rétt á sér. Samt þurfti lýðræðið að láta í minni pokann. Landið glímir nú við miklar þrengingar.

Tvær hliðar á sömu mynt

Öll vitum við um hvað lýðræði snýst enda má segja að lýðræði hafi ekki lagt leið sína til Íslands fyrr en með heimastjórninni 1904. Mín kynslóð átti afa og ömmur sem þekktu Ísland án lýðræðis af eigin raun og tóku þátt í sjálfstæðisbaráttunni. Danmörk og þá um leið Ísland þokaðist frá einræði til lýðræðis frá 1901 þegar frjálslyndir menn náðu völdum í danska þinginu til 1915 þegar Danmörk varð fullburða lýðræðisríki skv. viðmiðum stjórnmálafræðinga nútímans.

Aukið lýðræði snýst um að brjótast undan ofurvaldi fárra á stjórnmálavettvangi, undan einræði eða fáræði. Með líku lagi snýst aukin fjölhæfni í efnahagslífinu um að brjótast undan ofurvaldi fárra á vettvangi efnahagsmálanna. Máritíus, eyríkið í Indlandshafi sem er nú ríkasta land Afríku, er dæmi um þetta. Þar til fyrir einum mannsaldri réðu sykurplantekrueigendur lögum og lofum í landinu í skjóli eignarhalds á náttúruauðlindinni sem var helzta gjaldeyristekjulind landsmanna. Þegar Máritíus breyttist í ferðamannaparadís varð ferðaútvegurinn mikilvægasta gjaldeyrisuppsprettan og plantekrueigendurnir misstu takið sem þeir höfðu áður haft á landinu. Ferðaútvegurinn er dreifður á Máritíus eins og víðast hvar, hann stunda mörg frekar lítil fyrirtæki sem seilast yfirleitt ekki til mikilla áhrifa í stjórnmálum. Upprisa ferðaþjónustunnar sem höfuðatvinnuvegs á Máritíus reyndist því lyftistöng undir lýðræði.

Grugg eða gegnsæi?

Gegnsæi er sótthreinsunarlyf, sagði Louis Brandeis. Gegnsæi dregur úr spillingu því hún þrífst helzt í skjóli leyndar. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði nýlega (2016) að rétt almennings til upplýsinga á netinu beri að skoða sem mannréttindi með þeim rökum að frjáls aðgangur að upplýsingum efli virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði og dragi úr misrétti og ranglæti. Einmitt þetta er hugsunin á bak við upplýsingafrelsisákvæðin í nýju stjórnarskránni frá 2011 sem enn er geymd í frystigámi Alþingis.

Gegnsæi er áfátt á Íslandi. Upplýsingum sem eiga brýnt erindi við almenning er leynt í stórum stíl. Nýtt dæmi er lögbannið sem lagt var á Stundina fyrir kosningar í haust og nú er tekizt á um fyrir dómstólum. Lögbannið er sömu ættar og bannið sem Nixon forseti lét leggja á birtingu leyniskjala (Pentagon Papers) um stríðið í Víetnam. Nixon og menn hans hótuðu að leggja bæði New York Times og Washington Post í rúst. Þeim tókst það ekki þar eð Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi bannið úr gildi.

 

Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.






×