Viðskipti innlent

Grímur semur um starfslok

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grímur Atlason, fráfarandi framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.
Grímur Atlason, fráfarandi framkvæmdastjóri Iceland Airwaves. Vísir/stefán
Grímur Atlason geinir frá því á Facebook að hann hafi komist að samkomulagi um starfslok. Vísir greindi frá því fyrr í dag að viðræður Icelandair við Senu þess efnis að Sena taki við rekstri hátíðarinnar væru langt á veg komnar. 

„Þetta hefur verið magnaður tími og það eru algjör forréttindi að hafa fengið að starfa við það sem ég elska mest í lífinu fyrir utan fjölskylduna: tónlist,“ segir Grímur sem tók við sem framkvæmdastjóri árið 2010.

Hann lýsti því á dögunum að reksturinn hefði verið erfiður undanfarin tvö ár og var hátíðin á síðasta ári minni í sniðum fyrir vikið. Fór enginn viðburður fram í Hörpu svo dæmi sé tekið.

„Ég er stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið að stýra stórkostlegri tónlistarhátíð sem er langbesta tónlistarhátíðin á Íslandi og þó víðar væri leitað. Ég kveð samstarfsfólk mitt með söknuði og ekki síst allt það frábæra tónlistarfólk sem ég hef fengið að starfa með.“

Iceland Airwaves 2018 fer fram 7. til 10. nóvember samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu hátíðarinnar.

Uppfært 18:52:

Í fyrirsögn fréttarinnar stóð upprunalega að Grímur hefði samið um starfsflok við Icelandair. Það reyndist ekki rétt en Icelandair kemur ekki beint að starfsemi tónlistarhátíðarinnar. Þetta hefur nú verið lagfært.





Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×