Hnignun? Nei, niðurrif Þorvaldur Gylfason skrifar 25. janúar 2018 07:00 Flestir Íslendingar hafa mann fram af manni treyst því að geta gengið út frá lýðræði sem gefnum hlut. Samt á lýðræði nú víða undir högg að sækja, jafnvel í Bandaríkjunum og Evrópu. Bandaríkin og Sviss voru einu lýðræðisríki heimsins þegar Jón Sigurðsson forseti og félagar hans áttu í höggi við Trampe greifa á þjóðfundinum í Lærða skólanum við Lækjargötu 1851. Lýðræði er brothætt, líkt og óharðnaður unglingur.Aðeins fimm lönd, og varla það Skoðum tölurnar. Árin milli stríða 1918-1939 voru lýðræðisríki heimsins aðeins 25 að tölu. Í síðari heimsstyrjöldinni miðri 1943 voru lýðræðisríki Evrópu aðeins fimm: Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð og Sviss skv. flokkun stjórnmálafræðinga. Áhöld eru um hvort Sviss eigi heima í hópnum þar eð svissneskar konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 1971. Finnland telst ekki hafa tekið upp lýðræði fyrr en 1944. Lýðræðisríkin voru orðin 35 að tölu 1960 og 90 um aldamótin 2000. Þá fyllti því tæpur helmingur allra ríkja heimsins flokk lýðræðisríkja. Eftir það tók að halla undan fæti. Frá aldamótum hefur lítil sem engin fjölgun átt sér stað í hópi lýðræðisríkja. Lýðræði á í vök að verjast. Þess sjást merki jafnvel innan Evrópusambandsins þar sem Pólland og Ungverjaland daðra við frávik frá óskoruðu lýðræði, frávik sem samrýmast varla áframhaldandi veru þeirra í ESB og leggja því mikinn vanda á sambandið. Bandaríkin, fyrrum forusturíki hins frjálsa heims, eru nú í frjálsu falli ef lýðræðisvísitölur stjórnmálafræðinga eru hafðar til marks.Eftirbátur annarra Norðurlanda Freedom House er bandarísk stofnun sem hefur kortlagt lýðræði um heiminn frá 1972. Bandaríkin og Norðurlönd voru meðal fárra landa sem Freedom House veitti fullt hús stiga fyrir lýðræði ár fram af ári allar götur frá 1972. Finnland, Noregur og Svíþjóð búa enn við fullt hús stiga, 100 stig af 100 mögulegum, en Danmörk hefur síðustu tvö ár sigið niður í 97 stig vegna óblíðrar meðferðar á innflytjendum. Lýðræðisvísitalan tekur mið af mörgum þáttum þar eð lýðræði snýst ekki bara um frjálsar kosningar o.þ.h. heldur hangir margt annað á spýtunni, t.d. veldi hagsmunahópa, fjármögnun stjórnmálastarfsemi, misvægi atkvæða, meðferð minnihlutahópa, aðgangur að upplýsingum o.m.fl. Ísland bjó við fullt hús stiga frá 1972 þar til í hittiðfyrra að Freedom House lækkaði lýðræðiseinkunn Íslands fyrst í 97 stig og síðan í 95 stig skv. glænýrri skýrslu. Hnignun lýðræðis hér heima sem margir hafa varað við undangengin ár mælist nú í alþjóðlegum samanburðartölum. Hnignandi lýðræði skv. viðurkenndum mælingum stjórnmálafræðinga er alvarlegur álitshnekkir fyrir landið. Líklegt virðist að lýðræðiseinkunnin sem Freedom House gefur Íslandi haldi áfram að lækka ef Alþingi heldur áfram að vanvirða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá.Hnignun lýðræðis í Bandaríkjunum Freedom House lækkaði lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna niður fyrir 100 árið 2010. Það var árið sem Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að engar hömlur mætti lengur leggja á fjárframlög til stjórnmálamanna og -flokka. Peningar tóku völdin í boði Hæstaréttar. Síðan hefur lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna lækkað smám saman og féll í fyrra úr 89 í 86 sem er næsti bær við Pólland (85). Öll Vestur-Evrópulönd og m.a.s. nokkur fv. kommúnistalönd, þ. á m. Eistland og Lettland, státa nú af hærri lýðræðiseinkunn en Bandaríkin og það gera einnig tvö Afríkulönd, Grænhöfðaeyjar og Máritíus. Vandinn hefur ágerzt í forsetatíð Donalds Trump sem hefur nú staðið í eitt ár. Vandanum er lýst í nýrri bók eftir tvo stjórnmálafræðiprófessora í Harvard-háskóla, Steven Levitsky og Daniel Ziblatt. Bók þeirra heitir How Democracies Die (Hvernig lýðræðisríki líða undir lok). Þar lýsa höfundarnir fjórum andlýðræðislegum einkennum stjórnmálaleiðtoga sem þeir telja að lýðræði geti stafað ógn af. Hættumerkin eru sem sagt fjögur: 1) Andlýðræðislegir leiðtogar gera lítið úr leikreglum lýðræðisins. 2) Þeir draga lögmæti andstæðinga sinna í efa og hóta jafnvel að láta fangelsa þá. 3) Þeir umbera ofbeldi og hvetja jafnvel til þess. 4) Þeir ráðast gegn málfrelsi og fjölmiðlum. Levitsky og Ziblatt lýsa þeirri skoðun að forustumenn lýðræðisríkja þurfi að standast öll prófin fjögur, hvert og eitt. Þeir telja að aðeins einn forsetaframbjóðandi stóru flokkanna tveggja í Bandaríkjunum sl. 100 ár hafi fallið á einu þessara prófa. Það var Richard Nixon sem féll á 4. prófinu því hann átti í ítrekuðum útistöðum við fjölmiðla. Nú er öldin önnur, segja þeir Levitsky og Ziblatt, því Donald Trump fellur á öllum prófunum fjórum. Þeir taka í sama streng og Timothy Snyder prófessor í Yale-háskóla gerir í bók sinni On Tyranny (Um harðstjórn) þar sem hann lýsir hrollvekjandi hliðstæðum nútímans við árin milli stríða, 1918-1939. Við lifum áhugaverða og hættulega tíma. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Skoðun Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Flestir Íslendingar hafa mann fram af manni treyst því að geta gengið út frá lýðræði sem gefnum hlut. Samt á lýðræði nú víða undir högg að sækja, jafnvel í Bandaríkjunum og Evrópu. Bandaríkin og Sviss voru einu lýðræðisríki heimsins þegar Jón Sigurðsson forseti og félagar hans áttu í höggi við Trampe greifa á þjóðfundinum í Lærða skólanum við Lækjargötu 1851. Lýðræði er brothætt, líkt og óharðnaður unglingur.Aðeins fimm lönd, og varla það Skoðum tölurnar. Árin milli stríða 1918-1939 voru lýðræðisríki heimsins aðeins 25 að tölu. Í síðari heimsstyrjöldinni miðri 1943 voru lýðræðisríki Evrópu aðeins fimm: Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð og Sviss skv. flokkun stjórnmálafræðinga. Áhöld eru um hvort Sviss eigi heima í hópnum þar eð svissneskar konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 1971. Finnland telst ekki hafa tekið upp lýðræði fyrr en 1944. Lýðræðisríkin voru orðin 35 að tölu 1960 og 90 um aldamótin 2000. Þá fyllti því tæpur helmingur allra ríkja heimsins flokk lýðræðisríkja. Eftir það tók að halla undan fæti. Frá aldamótum hefur lítil sem engin fjölgun átt sér stað í hópi lýðræðisríkja. Lýðræði á í vök að verjast. Þess sjást merki jafnvel innan Evrópusambandsins þar sem Pólland og Ungverjaland daðra við frávik frá óskoruðu lýðræði, frávik sem samrýmast varla áframhaldandi veru þeirra í ESB og leggja því mikinn vanda á sambandið. Bandaríkin, fyrrum forusturíki hins frjálsa heims, eru nú í frjálsu falli ef lýðræðisvísitölur stjórnmálafræðinga eru hafðar til marks.Eftirbátur annarra Norðurlanda Freedom House er bandarísk stofnun sem hefur kortlagt lýðræði um heiminn frá 1972. Bandaríkin og Norðurlönd voru meðal fárra landa sem Freedom House veitti fullt hús stiga fyrir lýðræði ár fram af ári allar götur frá 1972. Finnland, Noregur og Svíþjóð búa enn við fullt hús stiga, 100 stig af 100 mögulegum, en Danmörk hefur síðustu tvö ár sigið niður í 97 stig vegna óblíðrar meðferðar á innflytjendum. Lýðræðisvísitalan tekur mið af mörgum þáttum þar eð lýðræði snýst ekki bara um frjálsar kosningar o.þ.h. heldur hangir margt annað á spýtunni, t.d. veldi hagsmunahópa, fjármögnun stjórnmálastarfsemi, misvægi atkvæða, meðferð minnihlutahópa, aðgangur að upplýsingum o.m.fl. Ísland bjó við fullt hús stiga frá 1972 þar til í hittiðfyrra að Freedom House lækkaði lýðræðiseinkunn Íslands fyrst í 97 stig og síðan í 95 stig skv. glænýrri skýrslu. Hnignun lýðræðis hér heima sem margir hafa varað við undangengin ár mælist nú í alþjóðlegum samanburðartölum. Hnignandi lýðræði skv. viðurkenndum mælingum stjórnmálafræðinga er alvarlegur álitshnekkir fyrir landið. Líklegt virðist að lýðræðiseinkunnin sem Freedom House gefur Íslandi haldi áfram að lækka ef Alþingi heldur áfram að vanvirða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá.Hnignun lýðræðis í Bandaríkjunum Freedom House lækkaði lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna niður fyrir 100 árið 2010. Það var árið sem Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að engar hömlur mætti lengur leggja á fjárframlög til stjórnmálamanna og -flokka. Peningar tóku völdin í boði Hæstaréttar. Síðan hefur lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna lækkað smám saman og féll í fyrra úr 89 í 86 sem er næsti bær við Pólland (85). Öll Vestur-Evrópulönd og m.a.s. nokkur fv. kommúnistalönd, þ. á m. Eistland og Lettland, státa nú af hærri lýðræðiseinkunn en Bandaríkin og það gera einnig tvö Afríkulönd, Grænhöfðaeyjar og Máritíus. Vandinn hefur ágerzt í forsetatíð Donalds Trump sem hefur nú staðið í eitt ár. Vandanum er lýst í nýrri bók eftir tvo stjórnmálafræðiprófessora í Harvard-háskóla, Steven Levitsky og Daniel Ziblatt. Bók þeirra heitir How Democracies Die (Hvernig lýðræðisríki líða undir lok). Þar lýsa höfundarnir fjórum andlýðræðislegum einkennum stjórnmálaleiðtoga sem þeir telja að lýðræði geti stafað ógn af. Hættumerkin eru sem sagt fjögur: 1) Andlýðræðislegir leiðtogar gera lítið úr leikreglum lýðræðisins. 2) Þeir draga lögmæti andstæðinga sinna í efa og hóta jafnvel að láta fangelsa þá. 3) Þeir umbera ofbeldi og hvetja jafnvel til þess. 4) Þeir ráðast gegn málfrelsi og fjölmiðlum. Levitsky og Ziblatt lýsa þeirri skoðun að forustumenn lýðræðisríkja þurfi að standast öll prófin fjögur, hvert og eitt. Þeir telja að aðeins einn forsetaframbjóðandi stóru flokkanna tveggja í Bandaríkjunum sl. 100 ár hafi fallið á einu þessara prófa. Það var Richard Nixon sem féll á 4. prófinu því hann átti í ítrekuðum útistöðum við fjölmiðla. Nú er öldin önnur, segja þeir Levitsky og Ziblatt, því Donald Trump fellur á öllum prófunum fjórum. Þeir taka í sama streng og Timothy Snyder prófessor í Yale-háskóla gerir í bók sinni On Tyranny (Um harðstjórn) þar sem hann lýsir hrollvekjandi hliðstæðum nútímans við árin milli stríða, 1918-1939. Við lifum áhugaverða og hættulega tíma.