Gagnrýni

Svanurinn svífur á sálina í firnasterku látleysi sínu

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Gríma Valsdóttir sýnir efirminnilegan stórleik sem stúlkan sem kynnist fegurð og ljótleika lífsins í sveitinni.
Gríma Valsdóttir sýnir efirminnilegan stórleik sem stúlkan sem kynnist fegurð og ljótleika lífsins í sveitinni.
Ása Hjörleifsdóttir sýnir ákveðna dirfsku með því að gera sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd eftir skáldsögunni Svanurinn eftir Guðberg Bergsson. Góðu heilli tekst henni frábærlega upp og flýgur á vængjum Svansins beinustu leið í hóp áhugaverðustu kvikmyndaleikstjóra landsins.

Bók Guðbergs er áleitin, eftirminnileg og falleg en um leið óvægin. Hún er ekki sú einfaldasta til þess að laga að kvikmyndaforminu en þegar Ásu tekst best upp fangar hún þann galdur sem fólginn er í texta Guðbergs af stakri snilld.

Eini raunverulegi gallinn við þessa heillandi kvikmynd liggur í vali á frásagnarhætti. Í sögu Guðbergs vomaði fjarlægur og alvitur sögumaðurinn hátt yfir persónunum og sögusviðinu. Ása velur þann kost að draga sjónarhornið niður á jörðina en handritið er samt í viðjum texta Guðbergs sem gerir framvinduna á stundum áberandi kaflaskipta. Dálítið eins og tekinn sé fyrir einn kafli og síðan flett yfir í annan. Frásögnin höktir þó ekki en þetta truflar stundum flæðið sem þess á milli er svo undurljúft og seiðandi.

Níu ára stúlka er send í sveit þar sem hún fær að kynnast því hversu miskunnarlaust lífið er í raun og hversu margbrotin mannssálin er þar sem gott og illt takast á í hverju hjarta. Lífið kviknar og dafnar í fallegri náttúrinni en dauðinn er aldrei langt undan og yfir fegurðinni hvílir angurvær feigð.

Myndin líður áfram með hægð. Á yfirborðinu virðist stundum lítið um að vera en á meðan gerjast sagan og persónurnar í þungri undiröldu þar sem tilfinningarnar ólga. Myndin er þannig firnasterk í látleysi sínu, smýgur inn í vitund áhorfandans og leikur þar mjúklega á strengi í hjarta hans. Svanurinn er ein af þessum sjaldgæfu myndum sem situr í manni og heldur áfram að vinna á eftir að henni lýkur.

Kvikmyndatakan er undurfögur og fangar á einhvern seiðandi hátt sjónarhorn barnsins sem horfir á fólk og atburði án þess að skilja almennilega hvað er að gerast og hvað fólkinu gengur til. Íslensk náttúra og fagurt og háskalegt landslagið njóta sín einnig feikivel í tökunum. Náttúran og landið voru sprelllifandi í myndrænum texta Guðbergs og sama gildir um kvikmyndina. Náttúruöflin eru fljótandi umgjörð sögunnar.

Sagan og frásagnarmátinn reyna verulega á leikarana sem standa sig upp til hópa með stakri prýði. Að öðrum ólöstuðum er þó Gríma Valsdóttir stjarna myndarinnar. Alveg frábær í túlkun sinni á stúlkunni. Hún skilar flóknum tilfinningum með látbragði, svipbrigðum og orðum af mögnuðu næmi. Leikstjóri sem nær að laða slíkt fram hjá barni hlýtur, eins og leikarinn, að búa yfir einhvers konar náðargáfu.

Svanurinn er undurfögur kvikmynd, hugvekjandi og mannbætandi upplifun sem æskilegt er að njóta til fullnustu í bíósal. Eftir að hafa skrifað um kvikmyndir, með hléum, í sautján ár hefur mér ekki enn tekist að skilja hvað ræður vinsældum íslenskra kvikmynda. Eitt er víst að ekki eru það gæðin ein og sér.

Stundum hafa frábærar myndir fengið undarlega litla aðsókn á meðan fólk hópast á aðrar mun síðri. Ég veit ekkert hvernig Svanurinn hefur farið af stað en fannst salurinn full gisinn á sýningunni sem ég fór á. Þannig að ég ætla að leyfa mér að benda þeim sem eru eitthvað að hika á að drífa sig á þessa fínu mynd. Svanurinn mun ekki svíkja nokkra einustu manneskju sem enn er með vit í kollinum á vorum hraðklipptu Netflix-tímum.

Niðurstaða: Djörf tilraun sem gengur upp og skilar sér í eftirminnilegri mynd sem engin hugsandi manneskja má missa af.


Tengdar fréttir

Mikil gleði á hátíðarsýningu í Háskólabíói

Það var fjölmennt á hátíðarsýningu í Háskólabíói þegar kvikmyndin Svanurinn var sýnd. Með hlutverk í myndinni fara m.a. Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ingvar E. Sigurðsson og Gríma Valsdóttir. Kvikmyndin er byggð á samnefndri ská samnefndri bók Guðbergs Bergssonar og Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir.

Tilfinningar eru handan við öll landamæri

Kvikmyndin Svanurinn, eftir samnefndri bók Guðbergs Bergssonar, verður frumsýnd í Smárabíói annað kvöld, 5. janúar. Hún fjallar um níu ára stúlku sem dregst inn í óvænta atburðarás. Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×