Bílar

Tesla seldi 30.000 bíla á síðasta ársfjórðungi

Finnur Thorlacius skrifar
Aðeins 1.550 nýir kaupendur Tesla Model 3 fengu bíla sína afhenta á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.
Aðeins 1.550 nýir kaupendur Tesla Model 3 fengu bíla sína afhenta á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.
Erfiðlega hefur gengið hjá rafbílaframleiðandanum Tesla að ná upp almennilegri fjöldaframleiðslu á bílum sínum þrátt fyrir bjartar áætlanir um aukna framleiðslugetu. Því er avallt beðið með eftirvæntingu er Tesla birtir tölur um sölu sína við lok hvers ársfjórðungs. Þær tölur birtust í gær fyrir lokaársfjórðung síðasta árs og reyndust vera 29.870 bílar, sem skiptist í 15.200 Model S bíla, 13.120 Model X bíla og 1.550 Model 3 bíla.

Er þetta 26% meiri sala en á sama ársfjórðungi árið 2016 og 9% meiri sala en á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Framleiðslan er því á hægri uppleið en engu að síður ljóst að erfiðlega gengur enn að ná upp mikilli framleiðslu á Model 3 bílnum. Hún á fyrir löngu á að vera komin í 5.000 bíla framleiðslu á viku en á greinileg langt í land með það. Tesla segir að fyrirtækið muni ná því markmiði í júní í sumar og ekki veitir af því yfir 400.000 kaupendur bíða eftir bílum sínum.

Tesla seldi alls 101.312 bíla á síðasta ári, sem er 33% meira en árið 2016. Í seldum bílum er Tesla því enn um hundrað sinnum minni bílaframleiðandi en Volkswagen Group sem seldi kringum 10 milljón bíla í fyrra.






×