Heilsa

Hvernig kemst ég hjá því að borða of mikið á aðventunni?

Jóhanna E. Torfadóttir skrifar
Jóhanna E. Torfadóttir næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum
Jóhanna E. Torfadóttir næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum
Lesendum Vísis og Fréttablaðsins gefst kostur á því að senda sérfræðingum spurningar tengdar heilsu og lífsstíl á netfangið heilsanokkar@frettabladid.is. Í hverri viku birtast svör við völdum spurningum í Fréttablaðinu og hér á Vísi.





Spurning: Hvernig kemst ég hjá því að borða of mikið á aðventunni?

Svar:
 Of mikil fjölbreytni og framboð á mat, eins og bíður okkar á jólahlaðborði, eykur líkur á að við borðum allt of mikið – við eigum einfaldlega erfiðara með að hafa stjórn á okkur þegar úrvalið er mikið. Áfengisneysla fyrir máltíð eykur líka matarlystina og gefur auka hitaeiningar.

Það getur verið lúmskt hvað hollar fæðutegundir eins og þurrkaðir ávextir og hnetur eru orkuríkar og mætti því borða þær í hóflegu magni (lófafylli). Þetta gildir sérstaklega fyrir einstaklinga í kyrrsetuvinnu.

Trefjarík matvæli auka á seddutilfinninguna og því tilvalið að notfæra sér það fyrir uppskriftir (kökur og pítsubotn).

Dæmi um breytingar á uppskriftum til að gera þær hollari og trefjaríkari: Nota heilhveiti eða grófmalað spelt á móti hveiti í uppskriftinni. Fínt er að miða við 50:50 hlutföll.Nota eplamauk eða stappaðan banana á móti sykri í uppskriftinni. Þannig er hægt að minnka sykurmagnið um a.m.k. helming. Einnig má minnka sykurinn í uppskriftinni án þess að bæta nokkru á móti. Nota jurtaolíu í staðinn fyrir smjör eða smjörlíki (1 dl fyrir 100 g) – mjúk fita er ávallt betri valkostur en hörð fita.

Best er að sneiða sem oftast hjá sykurríkum matvælum eins og sælgæti, konfekti og sykruðum gosdrykkjum (t.d. jólaöli). Í staðinn mætti fá sér mandarínur, vínber, tómata og fleira í þeim dúr. Svo er mikilvægt að borða hóflega af söltu og/eða reyktu kjöti eða sleppa því alveg og gefa í staðinn ávöxtum, grænmeti og baunum gott pláss á disknum.

Niðurstaða: Þrátt fyrir annasama aðventu er mikilvægt að huga að reglulegum máltíðum og hreyfingu og minnka þannig líkur á ofáti. Einnig er gott að borða ríkulega af ávöxtum og grænmeti. Svo er bara að njóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.