Ruglið í Rússlandi Þórlindur Kjartansson skrifar 1. desember 2017 07:00 Í dag fylgjast landsliðsmenn, þjálfarar, forsvarsfólk knattspyrnusambanda og aðdáendur grannt með útdrætti í riðla fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar. Hvort sem það er í Argentínu, Brasilíu, Frakklandi eða á Spáni eða Englandi—lýstur líklega svipaðri hugsun niður í huga margra: „Ekki Ísland. Vonandi fáum við ekki Ísland.“ Þegar Ísland tryggði sér þátttökurétt á lokamótinu í Rússlandi þann 9. október var nýjabrumið fyrir löngu farið af sigurgöngu íslenska karlalandsliðsins. Í stað þess að þátttaka á stórmóti í knattspyrnu væri nánast órakennd hugmynd—eins og hún var alveg þangað til Ísland komst í umspil gegn Króatíu um sæti á HM fyrir fjórum árum—þá höfum við á undraskömmum tíma vanist því að vera þjóð meðal knattspyrnuþjóða. Engu að síður er atburðarásin enn þá draumkennd í hugum okkar flestra. Manni finnst að þetta sé of gott til þess að vera satt—eins og við höfum fundið einhverja forritunarvillu í tölvuleik sem gerir okkur ósigrandi; en við þorum ekki að venjast tilhugsuninni af ótta við að forritið verði lagað í næstu uppfærslu og við þurfum aftur að venja okkur við að vera smáþjóð meðal smáþjóða. Að í staðinn fyrir að íslenska landsliðið sé gott, þá verði það aftur gott miðað við stærð, aldur og fyrri störf. Í þessum draumi eiga allir örlítið erfitt með að rata einstigið milli þess að vera kúl og yfirveguð—eins og við séum öllu vön; eða leyfa okkur að vera hamslaus af gleði, tilhlökkun og fögnuði eins og lítil börn sem er sagt að þau séu á leiðinni í Lególand. En líklegast gildir það um tilfinningarnar í garð fótboltans að það er miklu betra að missa sig en missa það; og ef við týnum kúlinu þá sorrý með það. Það er líka orðinn ómissandi hluti af ævintýralegu gengi íslenska landsliðsins að íþróttafréttamenn leyfa sér að taka af öllu hjarta þátt í gleðinni. Kannski finnst einhverjum það vera sveitalegt—en líklega væri enn þá sveitalegra að byrgja inni tilfinningaofsann og þykjast lýsa leikjum eða fjalla um þá af einhvers konar yfirvegun eða hlutleysi. Þess vegna voru viðbrögð fréttamanns RÚV eftir sigurleikinn gegn Kósóvó mjög skiljanleg þegar hún vatt sér upp að brosandi og sigurreifum fyrirliðanum nokkrum mínútum eftir að flautað var til leiksloka og sagði: „Ísland á HM. Hvaða rugl er þetta eiginlega?“ Það kom örlítið fát á fyrirliðann. Fagnaðarbrosið rann hratt af vörum hans, hann hvessti augun í sekúndubrot og hann hreytti út úr sér, eins og hann hafi ekki skilið athugasemdina: „Rugl, hvað meinarðu með rugl?“ Aron Einar var ekki búinn að týna kúlinu, og var hvorki að missa sig né það, þótt hann væri glaður. Hann var ekki beinlínis reiður, ekki móðgaður—en kannski örlítið undrandi. Hugur hans var ekki á sama stað og okkar allra hinna sem dönsuðum eins og hálfvitar. Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur greinilega fyrir löngu brotið af sér alla þá hugarhlekki sem áður fyrr gerðu viðlíka árangur óhugsandi. Fyrirliðinn lýsti vonbrigðunum yfir því að hafa ekki komist á HM 2014 og að árangurinn nú væri einfaldlega beint framhald á þeirri vinnu sem átt hafi sér stað á undanförnum árum. Í tali fyrirliðans kom ekki fram undrun, draumórar eða trú á heppni eða kraftaverk. Ekkert nema bjargföst trú á að það sem liðið hefur ætlað sér, geti það náð að framkvæma. Og ekkert rugl. Eins og algengt er í viðtölum við íþróttamenn í sigurvímu þakkaði fyrirliðinn hinum og þessum. En það var ekki venjulegt heldur. Flest viðtöl við íþróttamenn innihalda einhvers konar þakklæti til liðsfélaganna og kannski þjálfarans—og í Ameríku þakka menn gjarnan Guði, án þess að það fylgi endilega sögunni hvað Almættið átti sökótt við andstæðinginn. Flestar íþróttahetjur virðast þó fullkomlega sáttar við að þeim sé persónulega þakkaður sem stærstur hluti sigursins. En fyrirliði íslenska landsliðsins, og félagar hans, láta ekki staðar numið við liðsfélagana og þjálfarann heldur opnar hann varla munninn án þess að þylja upp langan lista af alls konar fólki sem á beinan eða óbeinan þátt í árangri liðsins. Nuddarar, skrifstofufólk, skipuleggjendur, fjölmiðlafulltrúar, vallarstarfsmenn og nánast hver sem er annar getur átt von á þakklætisvotti úr munni þeirra bláklæddu eftir sigurleiki. Mér segir svo hugur að þeir sem skúra búningsklefana eftir æfingar hjá ítalska, portúgalska og brasilíska landsliðsins geti tæpast átt von á slíku. Íslenska landsliðið er nefnilega mjög ólíkt flestum öðrum landsliðum—og í raun flestum atvinnumannaliðum í íþróttum. Landslið Íslands er raunverulegt lið, en ekki samansafn einstaklinga. Það væri þess vegna ólíklegt að íslenska landsliðið yrði betra lið þótt Cristiano Ronaldo eða Arjen Robben bættust í hópinn. Það er nefnilega fleira en bara sigurhefðin og járnviljinn sem ríkja í þeirri menningu sem skapast hefur innan íslenska landsliðsins. Þar ríkir líka þakklætismenning þar sem bersýnilega er lögð áhersla á að allir í liðinu hafa mikilvægu hlutverki að gegna; og ein af helstu skyldum hetjanna sem setja á sig búninginn er einmitt að sjá til þess að dýrðin og sigurljóminn sogist ekki inn í svarthol sjálfsdýrkunar, heldur endurspeglist sem víðast á alla þá sem fært hafa fórnir fyrir liðið. Þessar litlu fórnir eru það sem breytir samansafni einstaklinga í raunverulegt lið—og þetta kann að skýra að einhverju leyti þá ótrúlegu staðreynd að í dag munu forsvarsmenn stórþjóðar í knattspyrnu andvarpa þungt þegar nafn Íslands kemur upp úr pottinum og segja „Æ, nei, ekki Ísland.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Í dag fylgjast landsliðsmenn, þjálfarar, forsvarsfólk knattspyrnusambanda og aðdáendur grannt með útdrætti í riðla fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar. Hvort sem það er í Argentínu, Brasilíu, Frakklandi eða á Spáni eða Englandi—lýstur líklega svipaðri hugsun niður í huga margra: „Ekki Ísland. Vonandi fáum við ekki Ísland.“ Þegar Ísland tryggði sér þátttökurétt á lokamótinu í Rússlandi þann 9. október var nýjabrumið fyrir löngu farið af sigurgöngu íslenska karlalandsliðsins. Í stað þess að þátttaka á stórmóti í knattspyrnu væri nánast órakennd hugmynd—eins og hún var alveg þangað til Ísland komst í umspil gegn Króatíu um sæti á HM fyrir fjórum árum—þá höfum við á undraskömmum tíma vanist því að vera þjóð meðal knattspyrnuþjóða. Engu að síður er atburðarásin enn þá draumkennd í hugum okkar flestra. Manni finnst að þetta sé of gott til þess að vera satt—eins og við höfum fundið einhverja forritunarvillu í tölvuleik sem gerir okkur ósigrandi; en við þorum ekki að venjast tilhugsuninni af ótta við að forritið verði lagað í næstu uppfærslu og við þurfum aftur að venja okkur við að vera smáþjóð meðal smáþjóða. Að í staðinn fyrir að íslenska landsliðið sé gott, þá verði það aftur gott miðað við stærð, aldur og fyrri störf. Í þessum draumi eiga allir örlítið erfitt með að rata einstigið milli þess að vera kúl og yfirveguð—eins og við séum öllu vön; eða leyfa okkur að vera hamslaus af gleði, tilhlökkun og fögnuði eins og lítil börn sem er sagt að þau séu á leiðinni í Lególand. En líklegast gildir það um tilfinningarnar í garð fótboltans að það er miklu betra að missa sig en missa það; og ef við týnum kúlinu þá sorrý með það. Það er líka orðinn ómissandi hluti af ævintýralegu gengi íslenska landsliðsins að íþróttafréttamenn leyfa sér að taka af öllu hjarta þátt í gleðinni. Kannski finnst einhverjum það vera sveitalegt—en líklega væri enn þá sveitalegra að byrgja inni tilfinningaofsann og þykjast lýsa leikjum eða fjalla um þá af einhvers konar yfirvegun eða hlutleysi. Þess vegna voru viðbrögð fréttamanns RÚV eftir sigurleikinn gegn Kósóvó mjög skiljanleg þegar hún vatt sér upp að brosandi og sigurreifum fyrirliðanum nokkrum mínútum eftir að flautað var til leiksloka og sagði: „Ísland á HM. Hvaða rugl er þetta eiginlega?“ Það kom örlítið fát á fyrirliðann. Fagnaðarbrosið rann hratt af vörum hans, hann hvessti augun í sekúndubrot og hann hreytti út úr sér, eins og hann hafi ekki skilið athugasemdina: „Rugl, hvað meinarðu með rugl?“ Aron Einar var ekki búinn að týna kúlinu, og var hvorki að missa sig né það, þótt hann væri glaður. Hann var ekki beinlínis reiður, ekki móðgaður—en kannski örlítið undrandi. Hugur hans var ekki á sama stað og okkar allra hinna sem dönsuðum eins og hálfvitar. Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur greinilega fyrir löngu brotið af sér alla þá hugarhlekki sem áður fyrr gerðu viðlíka árangur óhugsandi. Fyrirliðinn lýsti vonbrigðunum yfir því að hafa ekki komist á HM 2014 og að árangurinn nú væri einfaldlega beint framhald á þeirri vinnu sem átt hafi sér stað á undanförnum árum. Í tali fyrirliðans kom ekki fram undrun, draumórar eða trú á heppni eða kraftaverk. Ekkert nema bjargföst trú á að það sem liðið hefur ætlað sér, geti það náð að framkvæma. Og ekkert rugl. Eins og algengt er í viðtölum við íþróttamenn í sigurvímu þakkaði fyrirliðinn hinum og þessum. En það var ekki venjulegt heldur. Flest viðtöl við íþróttamenn innihalda einhvers konar þakklæti til liðsfélaganna og kannski þjálfarans—og í Ameríku þakka menn gjarnan Guði, án þess að það fylgi endilega sögunni hvað Almættið átti sökótt við andstæðinginn. Flestar íþróttahetjur virðast þó fullkomlega sáttar við að þeim sé persónulega þakkaður sem stærstur hluti sigursins. En fyrirliði íslenska landsliðsins, og félagar hans, láta ekki staðar numið við liðsfélagana og þjálfarann heldur opnar hann varla munninn án þess að þylja upp langan lista af alls konar fólki sem á beinan eða óbeinan þátt í árangri liðsins. Nuddarar, skrifstofufólk, skipuleggjendur, fjölmiðlafulltrúar, vallarstarfsmenn og nánast hver sem er annar getur átt von á þakklætisvotti úr munni þeirra bláklæddu eftir sigurleiki. Mér segir svo hugur að þeir sem skúra búningsklefana eftir æfingar hjá ítalska, portúgalska og brasilíska landsliðsins geti tæpast átt von á slíku. Íslenska landsliðið er nefnilega mjög ólíkt flestum öðrum landsliðum—og í raun flestum atvinnumannaliðum í íþróttum. Landslið Íslands er raunverulegt lið, en ekki samansafn einstaklinga. Það væri þess vegna ólíklegt að íslenska landsliðið yrði betra lið þótt Cristiano Ronaldo eða Arjen Robben bættust í hópinn. Það er nefnilega fleira en bara sigurhefðin og járnviljinn sem ríkja í þeirri menningu sem skapast hefur innan íslenska landsliðsins. Þar ríkir líka þakklætismenning þar sem bersýnilega er lögð áhersla á að allir í liðinu hafa mikilvægu hlutverki að gegna; og ein af helstu skyldum hetjanna sem setja á sig búninginn er einmitt að sjá til þess að dýrðin og sigurljóminn sogist ekki inn í svarthol sjálfsdýrkunar, heldur endurspeglist sem víðast á alla þá sem fært hafa fórnir fyrir liðið. Þessar litlu fórnir eru það sem breytir samansafni einstaklinga í raunverulegt lið—og þetta kann að skýra að einhverju leyti þá ótrúlegu staðreynd að í dag munu forsvarsmenn stórþjóðar í knattspyrnu andvarpa þungt þegar nafn Íslands kemur upp úr pottinum og segja „Æ, nei, ekki Ísland.“
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun