Lífið samstarf

Átak gegn ofbeldi meðal ungs fólks

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum. mynd/Eyþór
Stígamót standa fyrir átaki gegn ofbeldi meðal ungs fólks í kringum Valentínusardaginn. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum segir veruleika ungs fólks í dag flókinn.



Margt ungt fólk verður fyrir ofbeldi í samböndum sem byrjar langoftast með andlegu ofbeldi. Við hjá Stígamótum stöndum fyrir átaki gegn ofbeldi meðal ungs fólks í kringum Valentínusardaginn en sá dagur snýst um ástina og kærustupör,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum. Hún segir veruleika ungs fólks flókinn. Erfitt geti reynst að fóta sig í stafrænum samskiptum og átta sig á hvar mörk liggja.



„Dægurmenning ýtir undir alls konar hugmyndir, að afbrýðisemi sé merki um ást, að strákar eigi að ganga á eftir stelpum og helst ekki láta þær í friði fyrr en þær gefa eftir. Stafrænn veruleiki ungs fólks er einnig flókinn og ungir krakkar í kærustuparasamböndum geta fylgst afar náið hvort með öðru. Læra þarf hvernig á að haga samskiptum gegnum síma og tölvur,“ segir Steinunn.

„Við viljum einnig tala um það að læra að þekkja sín eigin mörk og virða mörk annarra. Margt ungt fólk, sérstaklega strákar, fær ýmsar hugmyndir um kynlíf úr klámi. Ein afleiðing þess er að stelpur koma til okkar á Stígamót þar sem ítrekað hefur verið farið yfir þeirra mörk og þrýst á þær að taka þátt í kynlífsathöfnum sem þær vildu ekki. Ungmenni þurfa að fá tækifæri til að velta þessum hlutum fyrir sér og læra að þekkja einkenni heilbrigðra sambanda, óheilbrigðra samband og ofbeldissambanda,“ segir Steinunn.

„Við munum opna fræðsluvef og birta myndbandaherferð á samfélagsmiðlum. Okkur langar einnig til að virkja ungt fólk í framhaldsskólum og grunnskólum til að standa fyrir uppákomum í kringum Valentínusardaginn, t.d. í félagsmiðstöðvum og í skólunum sínum, og tala um hvað þarf til að vera í heilbrigðu sambandi.“



Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um Stígamót sem fylgdi Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×