Sport

Flott tilþrif á Íslandsmeistaramóti ÍSS

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Júlía Grét­ars­dótt­ir, Ísöld Fönn Vil­hjálms­dótt­ir og Marta María Jó­hanns­dótt­ir.
Júlía Grét­ars­dótt­ir, Ísöld Fönn Vil­hjálms­dótt­ir og Marta María Jó­hanns­dótt­ir. mynd/skautasamband íslands
Íslandsmeistaramót ÍSS 2017 var haldið í Skautahöllinni á Akureyri nú um helgina. Samhliða því var Íslandsmót barna og unglinga haldið.

Keppni byrjaði seint á laugardegi, sökum veðurs. Það virtist ekki hafa haft áhrif á keppendur sem sýndi flott tilþrif og settu bæði stigamet sem og náðu lágmarksviðmiðum í Afrekshóp.

Á Íslandsmóti barna og unlinga var keppt í flokkum; Chicks - 8 ára og yngri, Cubs - 10 ára og yngri, Basic Novice A og Basic Novice B.

Keppni fór fram í öllum flokkum á sunnudegi, 26.nóv. En það var gert vegna breytinga á dagskrá vegna veðurs.

Byrjað var á Chicks, 8 ára og yngri, þar sem 6 keppendur mættu til leiks. Þar var Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, efst með 19.28 stig. Emilíana Ósk Smáradóttir, SB, var önnur með 18.81 stig og sú þriðja var Indíana Rós Ómarsdóttir, SA, með 17.31 stig.

Á eftir þeim komu Cubs, 10 ára og yngri. Freydís Heiða Jing Bergsveinsdóttir, SA, sigraði með 25.58 stig, önnur var Katrín Sól Þórhallsdóttir, SA, með 21.68 stig og sú þriðja var Sara Kristín Pedersen, SB, með 19.24 stig. 6 keppendur voru í flokknum.

Júlía Grétarsdóttir sýndi góð tilþrif.mynd/Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir
Næst var komið að Basic Novice A, en þar kepptu 15 stelpur. Í fyrsta sæti var Herdís Heiða Jing Guðjohnsen, SR, með 31.93. Í öðru sæti var Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, með 27.75 stig og í þriðja sæti var Eydís Gunnarsdóttir, SR, með 24.97 stig. Það var ansi mjótt á munum í þessum flokki og var Kristín Jökulsdóttir, SR, í fjórða sæti með 24.53 stig, einungis 0.44 stigum á eftir.

Basic Novice B var síðasti flokkurinn á Íslandsmóti barna og unglinga. Þar mættu 5 keppendur, en margir þurftu frá að hverfa vegna veðurs. Edda Steinþórsdóttir, SR, sigraði með 31.23 stig. Önnur var Eva Björg Halldórsdóttir, SA, með 25.66 stig og í þriðja sæti var Hildur Bjarkadóttir, SB, með 24.49 stig.

Á Íslandsmeistaramóti ÍSS er keppt í þremur flokkum; Advanced Novice (stúlknaflokkur), Junior (unglingaflokkur) og Senior (kvennaflokkur)

Keppt er með tvö prógröm, stutt og frjálst, og er það gert sitt hvorn daginn.

Skautarar fá Technical Element Score (tæknieinkunn) fyrir æfingarnar sem framkvæmdar eru og Program Component Score (framkvæmdarstig) fyrir framkvæmd heildar prógramsins.

Endanleg stig:

Heildarstig hvers skautahluta (Total Segment score – SP eða FS) er fengið með því að leggja saman Tæknistig og Framkvæmdarstig og frádrátt ýmissa mistaka s.s. falla o.þ.h. Síðan eru heildarstig beggja skautahlutanna, stutt prógrams SP og frjáls prógrams FS lagt saman og mynduð endanleg stig. Sá sem fær hæstu stigin hefur sigrað.

Á laugardagskvöld hófst keppni með stutt prógram. Í stuttu prógrammi eru ákveðnar skylduæfingar sem verður að framkvæma. Skautarar gera þessar æfingar, í hvaða röð sem er, við tónlist af sínu vali.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir setti stigamet.mynd/Skautasamband Íslands
Í Advanced Novice eru níu keppendur. Eftir stutta prógramið var Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA, efst og setti hún stigamet í stuttu prógrami með 36.40 stig. Í öðru sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir. SR, með 29.67 stig og í þriðja sæti var Aldís Kara Bergsdóttir, SA, með 25.31 stig.

Í Junior eru sex keppendur, Þar var  Marta María Jóhannsdóttir, SA, í efsta sæti eftir stutta prógramið með 35.77 stig. Marta María var á laugardag fyrst íslenskra skautara til þess að ná viðmiðum í stuttu prógrami í Afrekshóp ÍSS. Þar miðast viðmiðin við tæknistig (e.Technical Element Score, TES) og er lágmarkið 20.00 tæknistig, Marta var með 20.37 tæknistig.

Í öðru sæti var Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, með 31.26 stig og í þriðja sæti var Helga Karen Pedersen, SB, með 25.40 stig. Strax á eftir í fjórða sæti með 25.39 stig var Herdís Birna Hjaltalín. Svo að það er greinilegt að keppni í frjálsi prógrami verður spennandi á morgun.

Í Senior eru tveir keppendur. Júlía Grétarsdóttir, SB, var efst eftir stutta með 31.19 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir, SB, með 26.13 stig.

Á sunnudeginum var svo keppt í frjálsu prógrami. Þar er farið fram á vel samsett prógram með ýmsum æfingum eins og til dæmis stökk, snúningar og spor. Æfingarnar þurfa að vera í tengingu við tónlist sem valin er af skautaranum.

Þó eru í hverjum flokki reglur um hámarksfjölda stökka, stökksamsetninga, snúninga, sporasamsetninga og „choreographic sequence“.

Fyrsti keppnisflokkurinn var Senior. Júlía Grétarsdóttir og Eva Dögg Sæmundsdóttir keppa báðar fyrir Skautafélagið Björninn. Eftir stutt prógram var Júlía efst með 31.19 stig en Eva Dögg með 26.13 stig. Í frjálsa prógramminu var Eva Dögg hærri með 56.67 stig en Júlía með 54.41 stig.

Íslandsmeistari í Seinor er Júlía Grétarsdóttir með 85.60 í heildarstig og Eva Dögg Sæmundsdóttir önnur með 82.80 í heildarstig.

Marta María Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í Junior.mynd/Skautasamband Íslands
Næsti keppnisflokkur var Junior og fór fram mjög spennandi keppni. Eftir stutta prógramið var Marta María Jóhannsdóttir, SA, efst, Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, önnur og Helga Karen Pedersen, SB, var þriðja. Í frjálsa prógraminu var Kristín Valdís efst, Marta María önnur og Herdís Birna Hjaltalín, SB, sú þriðja.

Íslandsmeistari í Junior er Marta María Jóhannsdóttir, SA, með 96.62 í heildarstig. Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, var önnur með 92.17 í heildarstig og Herdís Birna Hjaltalín, SB, vann sig upp í þriðja sætið með 75.78 í heildarstig.

Síðast, en alls ekki síst, var komið að Advanced Novice. Þar kepptu 9 stelpur í mjög spennandi keppni. Eftir stutta prógramið var Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA, efst með 36.40 stig. Viktoría Lind Björnsdóttir, SR, var önnur með 29.67 stig og sú þriðja var Aldís Kara Bergsdóttir, SA, með 25.31 stig. Í frjálsa prógraminu var Ísold Fönn efst, Aldís Kara önnur og sú þriðja var Rebekka Rós Ómarsdóttir, SA.

Íslandsmeistari í Advanced Novice er Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA, með 101.70 stig. Hún gerði sér lítið fyrir og bætti sitt eigið stigamet, síðan fyrr í nóvember á þessu ári, um 14.82 stig. Í öðru sæti varð Viktoría Lind Björnsdóttir, SR, með 72.81 í heildarstig og í þriðja sæti varð Aldís Kara Bergsdóttir, SA, með 71.97 í heildarstig. Það verður gaman að fylgjast með þessum glæsilegu keppendum áfram í vetur.

Eftir jólafrí tekur við Reykjavík International Games, sem haldið verður í Skautahöllinni í Laugardal hegina 26.-28.janúar. Það er alþjóðlegt mót sem skráð er á keppnisdagatal Alþjóðaskautasambandsins og er von á fjölmörgum erlendum keppendum.

Strax helgina eftir það, eða 1.-4.febrúar, fer fram Norðurlandamót í listhlaupi á skautum. Það fer fram í Rovaniemi í Finnlandi í þetta sinn og sendir Skautasamband Íslands 11 skautara til þáttöku þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×