Fastir pennar

Niðurstaðan

Magnús Guðmundsson skrifar

Það er ekki laust við að íslensk stjórnmál hafi löngum einkennst af skotgrafahernaði. Meirihlutar hafa verið myndaðir sem hafa komið sér saman um meginstefnu frá ýmist vinstri eða hægri, oftast frá hægri reyndar, og síðan hefur verið keyrt á fullu stími. Stjórnarandstaða upplifað sig valdalitla og jafnvel hálfraddlausa á vettvangi þingsins þar sem ráðaherravaldið hefur verið fyrirferðarmikið.

Flestir sem fylgjast með eða hafa tekið þátt í stjórnmálum hafa lengi verið þeirrar skoðunar að þetta sé óþroskuð stjórnmálamenning sem er þjóðinni vart til góðs. Að of algengt sé að góðar hugmyndir og jafnvel vel unnin mál eigi sér litla lífsvon ef þau eru runnin undan rifjum stjórnarandstöðunnar. Að breyta þessu til betri vegar er eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem íslensk stjórnmál standa frammi fyrir á komandi misserum. Það er reyndar ekki hægt að líta fram hjá því að flokkarnir þrír sem nú hafa komið sér saman um stjórnarsamstarf hafa í gegnum árin ekki beint verið flokkar róttækra kerfisbreytinga en þetta er engu að síður niðurstaðan.

Þetta er stjórnin sem er búið að mynda og verkefnið er að vinna að bættri stjórnmálamenningu með ráðum og dáð, stjórn og stjórnarandstaða, gamlir refir sem nýir vendir en þeir síðarnefndu sópa víst best. Ef horft er yfir sögu íslenskra stjórnmála má líka vel finna ýmis mál sem þingheimur allur sameinast um og þá ekki síst þegar mikið liggur við.

Og þó svo í hugum margra og hagtölum ríki hér ágætis tímar þarf enginn að efast um að fyrir fjölda Íslendinga og innviði samfélagsins liggur nú mikið við að vel sé unnið, af heilindum og án sérhagsmuna þeirra sem meira eiga og betur mega sín. Innviðir íslensks samfélags hafa verið sýktir af fjársvelti og ráðaleysi um alllangt skeið og afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa fyrir fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur. Bætt lífskjör fyrir aldraða, öryrkja, langveika, fátæka og einfaldlega alla þá sem standa höllum fæti í þeirri samfélagsgerð sem við höfum komið okkur upp er verkefni sem mikið liggur við að leysa.

Þetta verkefni verður hvorki auðvelt né átakalaust. Það er fyrirsjáanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, þá einkum Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, hafa afar ólíka sýn á nálgun og úrlausn verkefnisins. Nýja ríkisstjórnin mun því þurfa á að halda breiðri póli­tískri samstöðu innan þingsins og öllum góðum hugmyndum sem þaðan gætu komið eigi árangur að nást. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisstjórnin eigi að búast við því að starfa í gagnrýnislausu umhverfi heldur þvert á móti.

Verkefni stjórnarandstöðu og reyndar einnig fjölmiðla er ekki síst að veita stjórnvöldum hverju sinni tilhlýðilegt aðhald óháð flokkum og hugmyndafræði. Hvernig gagnrýni er tekið og hvernig verður úr henni unnið sé hún sett fram af skynsemi og sanngirni, óháð því hvaðan hún kemur, mun hins vegar ráða miklu um hvernig nýrri ríkisstjórn tekst til við að endurreisa innviði samfélagsins og ná fram sátt í samfélaginu. Þar til á reynir er ekkert annað í boði en að bíða og vona.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember.






×