Gagnrýni

Fortíðardraugar fastir í meðalmennsku

Tómas Valgeirsson skrifar
Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson eru fínir saman en betri hvor í sínu lagi.
Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson eru fínir saman en betri hvor í sínu lagi.
Rökkur

Leikstjóri: Erlingur Óttar Thoroddsen

Framleiðendur: Baldvin Kári Sveinbjörnsson, Búi Baldvinsson

Handrit: Erlingur Óttar Thoroddsen

Kvikmyndataka: John Wakayama Carey

Klipping: Erlingur Óttar Thoroddsen

Tónlist: Einar Tryggvason

Aðalhlutverk: Björn Stefánsson, Sigurður Þór Óskarsson

Hingað til hefur enginn íslenskur leikstjóri sérhæft sig í hryllingsgeiranum eða markað spor sín í hann með sama hætti og Erlingur Óttar Thoroddsen. Á undarlega skömmum tíma hefur hann spreytt sig með mikilli fjölbreytni á því sviði og sýnt fram á hversu margt má gera við smátt.

Fyrir rúmlega ári frumsýndi Erlingur indí-hrollvekjuna Child Eater. Þar sáust merki um ástríðufull vinnubrögð, þekkingu á hryllingi og áhuga á skuggalegu andrúmslofti með skvettu af súrrealisma. Þó myndin hafi verið klunnaleg, misvel leikin og þunn bætti hún það upp með bröttu rennsli og ágætis skrímsli í forgrunni.

Aftur á móti er ýmislegt sem betur tekst til með í Rökkri, sem bæði er betur skotin og leikurinn er af öllu meiri gæðum, en í þessu tvennu liggja helstu styrkleikar myndarinnar. Afgangurinn er sambland af metnaði fyrir „minimalisma“, kunnuglegum klisjum og einlægum augnablikum sem virka sem sjálfstæðar senur en hrynja innan um götótta heild þar sem myndlíkingar og þemu eru hálfbökuð. Það hefði heldur ekki veitt af því að stytta myndina um korter eða svo.

Myndin segir frá Gunnari sem nótt eina fær símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari, sem er í miklu uppnámi. Gunnar brunar upp í afskekktan bústað þar sem Einar hefur lokað sig af og fljótlega eru drengirnir farnir að gera upp samband sitt og fortíð sína. Á meðan berja vaxandi vandamál úr öðrum áttum bókstaflega að dyrum og veröld þeirra Gunnars og hans fyrrverandi fer á hvolf, en það tekur reyndar söguna talsverðan tíma að komast þangað almennilega.

Rökkur er saga um flótta, fjarlægð og fortíðardrauga með mátulega stemmdum „draugagangi“ sem á það til að vera örlítið píndur og bitlaus. En það sem umfram allt dregur myndina niður eru samtölin sem eru oftar en ekki frekar stirð og óeðlileg.

Frammistaða beggja leikara í burðarhlutverkum er tilþrifarík. Björn Stefánsson og Sigurður Þór eru fínir saman, en betri þó hvor í sínu lagi (sérstaklega þegar þeir detta í einræður sínar), ekki síst vegna þess að ákveðinn neista vantar á milli mannanna til að gera samband þeirra trúverðugt. En ópússuðu samtölin gera það eflaust að verkum að myndin gæti betur höfðað til hópa sem skilja ekki tungumálið og finna þar af leiðandi síður fyrir tilgerðinni.

Rökkur nær sínum hæstu hæðum í kyrrðinni og flott kvikmyndataka skilar sínu einnig þó betur hefði mátt fara með klippingu og hljóðvinnslu til að sigla stemninguna inn almennt. Myndin var gerð fyrir lítið fé og fámennt var í tökuliðinu. Því má að henni dást á ýmsa vegu en innihaldið rís sjaldan upp úr meðalmennskunni hvort sem litið er á myndina sem persónudrifinn drama­trylli eða hrollvekju af gamla skólanum. Þetta breytir því samt ekki að Erlingur er ótvírætt með forvitnilegri og meira spennandi íslenskum kvikmyndagerðarmönnum af sinni kynslóð. Af fyrra verki hans að dæma gæti þó verið ljóst að samræður á ensku séu honum auðveldari en samtal á móðurmálinu.

Niðurstaða: Ágætis tilraun með góðum leikurum en samtölin eru ósannfærandi, sagan ristir ekki djúpt og hefði mátt skafa meira af lengdinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×