Bílar

Costco og netverslun skekja hjólbarðamarkaðinn

Finnur Thorlacius skrifar
Mikil verðlækkun hefur orðið á dekkjum frá síðasta ári og tilkoma Costco vegur þar þyngst.
Mikil verðlækkun hefur orðið á dekkjum frá síðasta ári og tilkoma Costco vegur þar þyngst.
Árlega vetrardekkjakönnun FÍB leiðir ekki bara í ljós að neytendur standa frammi fyrir meira úrvali en oft áður heldur er verð á vetrardekkjum mun hagstæðara nú en í fyrra. Hvað hefur breyst sem veldur þessari jákvæðu þróun neytendum til hagsbóta? Verð á dekkjum hafa lækkað með aukinni samkeppni og neytendur njóta ábatans af þessari jákvæðu þróun. Samkeppnin er einnig að skila auknu öryggi til vegfarenda því góð dekk skipta miklu máli upp á öryggi, eyðslu og mengun. 

Innflytjendur hafa ef til vill náð betri samningum í innkaupum. Vörugjöld og tollar féllu niður 1. Janúar 2016. Gengisvísitala íslensku krónunnar styrktist um 17% frá seinni hluta sumars 2016 fram á sumarið í ár en sú styrking hefur gengið nokkuð til baka. Viðskipti á netinu hafa færst í aukana á síðustu árum og töluverður kippur kom á liðnum vetri í þau viðskipti. Fréttir bárust m.a. um innflutning á dekkjum frá Bretlandi og víðar og FÍB vakti athygli neytenda á gríðarlegum mun á verði vetrarhjólbarða á Norðurlöndunum og Íslandi, íslenskum neytendum í óhag.

Costco hefur hrist upp í markaðnum

Bandaríski smásölurisinn Costco hefur hrist verulega upp í markaðnum. Costco selur Michelin dekk og býður upp á hjólbarðaþjónustu (umfelgun) fyrir þá sem kaupa af þeim dekk. Costco dekk og þjónusta bjóðast á mun sanngjarnara verði en áður hefur sést hér á landi. Í töflunni hér undir má sjá dæmi um 47% verðlækkun á þekktum Michelin dekkjum hjá Costco samanborið við verðið á sömu dekkjum hjá N1 fyrir ári síðan. Hjá Costco er umfelgunin að auki innifalin.  Til að njóta þessa verðs þarf viðskiptavinurinn að kaupa meðlimaaðild að Costco og einstaklingsaðildin kostar 4.800 krónur.

Skoðum verð á nokkrum tegundum vetrarhjólbarða í vetrardekkjakönnun FÍB af stærðinni 205/ R16. Pirelli Ice Zero nagladekk kostuðu 135.960 krónur hjá Nesdekk í fyrra en kosta núna 79.960 krónur.  Pirelli dekkjagangurinn var því um 70% dýrari fyrir ári samanborið við haustverðið nú. Fjögur Hankook Winter I*Pike RS+ dekk kostuðu tæplega 50% meira í fyrra en í ár. Umræddur gangur negldra hjólbarða kostaði hjá Sólningu í fyrra 93.920 krónur en í vetrardekkjakönnunni, sem birtist á dögunum, var verðið komið niður í 63.462 krónur. Fjögur Michelin C-Ice North 3 nagladekk kostuðu 131.490 krónur í fyrra en í könnunni núna kosta sömu dekk 87.960 krónur hjá N1 en 71.596 krónur með umfelgun hjá Costco í Kauptúni.

Ef rýnt er í ónegldu dekkin og þau borin saman þá kostuðu fjögur Michelin X-Ice x13, 131.960 krónur hjá N1 en sami dekkjagangur kostar núna hjá N1 87.960 krónur. Þessi Michelin dekk kosta hjá Costco 70.396 krónur með umfelgun. Sava Eskimo Ice dekkin kostuðu í fyrra 68.400 krónur gangurinn hjá Kletti en í ár 51.600 krónur. FÍB hafði samband við tvo aðila sem veita þjónustu og selja hjólbarða og innti þá eftir þeirra skýringum á þessari lækkun á milli ára.

Höfum lækkað okkar álagningu

Jón Hauksson í innkaupadeild Sólningar segir ástæðuna fyrir lægra verði á hjólbörðum í raun margþætta. Lækkunina má að einhverja leyti rekja til erlendra samkeppni, afnám vörugjalda og tolla sem nam 10% á mjög mörgum tegundum. Gengi krónunnar hefur styrkst og við í Sólningu höfum ennfremur lækkað okkar álagningu. ,,Þá má einnig nefna samkeppni við erlendar netsíður sérstaklega eftir Brexit og hrun enska pundsins í kjölfarið. Þá fór fólk sjálft að flytja dekkin frá Bretlandi í miklu mæli. Ekki má heldur gleyma innkomu stóra risans, Costco, en það getur stundum verið erfitt fyrir lítil fyrirtæki að keppa við jafn stóran aðila eins og Costco er. Við lifum á breyttum tímum, samkeppnin hefur aldrei verið meiri og neytandinn nýtur góðs að því sem er besta mál. Við höfum alltaf lagt okkur fram í því að vera með gott verð og ætlum að halda því áfram,“ Jón Hauksson hjá Sólningu.

Ánægjuleg þróun fyrir neytendur

,,Styrking krónunnar er að stærstum hluta ástæða lækkunarinnar á hjólbörðum á milli ára. Það er bara virkilega gleðilegt að sjá þessa þróun sem neytendur njóta góðs af. Ennfremur höfum við einnig sótt betra verð til okkar byrgja sem hefur skilað sér beint til lækkunar á hjólbörðum ,“ segir Dagur Benónýsson rekstrarstjóri bílaþjónustu N1.

Samanburðartöflur

Hér undir eru tvær töflur yfir þá hjólbarða sem voru í álegri vetrardekkjaprófun FÍB nú í haust sem framkvæmd var á tilraunasvæði Test World í Ivalo nyrst í Finnlandi. Til samanburðar eru birtar upplýsingar um þau dekk sem einnig voru í prófuninni fyrir ári síðan. Af negldum dekkjum fundu starfsmenn FÍB verð á 11 dekkjum hér á landi af sömu stærð og í könnuninni eða 205/55 R16. Fyrirliggjandi voru ársgömul verð á 8 þessara dekkja sem voru í vetrardekkjakönnun FÍB 2016. Verð á 8 ónegldum vetrarhjólbörðum í könnuninni fundust hér á landi og til samanburðar eru ársgömul verð á 7 ónegldum dekkjum sem einnig voru í prófuninni 2016.

Þessi samanburður er mjög athyglisverður og sýnir verulega lækkun á milli ára. Í átta tilvikum er yfir 30% verðlækkun á milli ára og í tveim tilvikum er verðlækkunin yfir 40%, það er af negldu dekkjunum Pirelli Ice Zero hjá Nesdekki og Kumho Wintercraft Ice Wi3I hjá N1. Mest er lækkunin á Michelin dekkjunum, bæði negldum og ónegldum. Þessi dekk eru í dag 46 og 47% ódýrari en fyrir ári síðan og að auki er umfelgun innifalin í verðinu hjá Costco. Umfelgun á dekkjagangi af þessari stærð kostar frá 5.000 krónum upp í 9.490 krónum samkvæmt verðkönnun FÍB á dekkjaþjónustu frá því í haust.

Athygliverður samanburður á milli ára og afar hagstætt fyrir neytendur.
Sama á við hvað óneglda hjólbarða varðar.





×