Bílar

BMW stækkar jepplingaflóruna með X2

Finnur Thorlacius skrifar
BMW X2 er allur sportlegri en X1 jepplingurinn.
BMW X2 er allur sportlegri en X1 jepplingurinn.
Nýr jepplingur er fæddur inní þéttskipaða jepplinga- og jeppaflóru bæverska lúxusbílaframleiðandans. Hann ber stafina X2 og liggur á milli X1 og X3 jepplinganna, að sögn BMW. Hann er engu að síður einum 8 sentimetrum styttri en X1 þó hann virðist það ekki við fyrstu sýn. Jafn langt er á milli öxla hans og á X1 bílnum og hann er um 8 sentimetrum lægri til þaksins og því sportlegri á að líta.

Það er líkt og þarna sé kominn annar X1 með kort í líkamsræktina. BMW X2 er með LED ljós bæði að framan og aftan og hann er með stóran vindkljúf að aftan og fremur stórar hlífðarplötur í öðrum lit en aðallitur bílsins og það eykur á kraftalegt útlit hans. Í fyrstu er X2 kynntur með 228 hestafla 2,0 lítra og fjögurra strokka bensínvél sem tengd er við 8 gíra sjálfskiptingu.

Það dugar þessum bíl að komast í hundraðið á 6,3 sekúndum, svo hér er um ári sprækan jeppling að ræða. Hann er með þrjár akstursstillingar, Comfort, Eco Pro og Sport og Dynamic Damper Control stillingum á fjöðruninni. BMW hefur ekki enn birt verð bílsins, en hann á að fara í sölu næsta vor.






×