Lífið samstarf

Heimagerðar jólagjafir með Jólaprjóni

Guðrún nýtur þess að prjóna eins og bækur hennar hafa sýnt. Þær hafa notið mikilla vinsælda.
Guðrún nýtur þess að prjóna eins og bækur hennar hafa sýnt. Þær hafa notið mikilla vinsælda. MYND/ANTON BRINK
KYNNING Guðrún S. Magnúsdóttir er að senda frá sér bókina Jólaprjón sem hefur að geyma sjötíu einfaldar og fallegar uppskriftir handa jólabörnum.

Í bókinni eru prjónaðir jólasokkar, jólavettlingar, jólahúfur og jólaskraut. Þetta er sjötta prjónabók Guðrúnar sem starfaði lengi sem kennari, fyrst í handmennt en síðar í bóklegum fögum með yngstu kynslóðinni, meðal annars í Ísaksskóla. Áður hafa komið út bækurnar Sokkaprjón, Húfuprjón, Vettlingaprjón, Treflaprjón og Teppaprjón. Allar bækurnar hafa notið mikilla vinsælda enda hefur alls kyns prjón aukist mikið hér á landi.

Guðrún segir að það hafi verið barnabörnin sem hafi kveikt áhuga hennar að gera Jólaprjón. „Ég prjónaði jólasokka handa barnabörnunum til að hengja upp sem vöktu mikla lukku. Ég á ellefu barnabörn og sokkarnir voru allir mismunandi. Þegar ég var búin að gera þessa ellefu sokka átti ég margar hugmyndir eftir svo ég hélt bara áfram. Það endaði með því að úr varð bók,“ segir hún.

Guðrún segir að bókin sé að koma í verslanir. Það ætti því að vera nægur tími til að prjóna jólagjafir eftir uppskriftum hennar. „Þetta eru aðgengilegar en miserfiðar uppskriftir,“ segir hún. „Það eru 42 uppskriftir af sokkum í bókinni, einnig eru jólavettlingar, jólahúfur og tólf útfærslur af jólaskrauti, meðal annars jólasveinar, snjókarlar, mörgæsir, englar, bangsi, hreindýr og fleira,“ segir Guðrún en íslenskt jólaprjón hefur aldrei áður komið út í bók. „Allar grunnuppskriftir af jólaskrauti í bókinni eru byggðar upp á þríhyrningsformi.“

Bókin hefur að geyma margvíslegar fallegar uppskriftir.
Sjálf hefur Guðrún prjónað frá því hún var stelpa. „Ég sit alltaf með prjóna eða heklnál og hef mjög gaman af handavinnu. Mér finnst fátt yndislegra en að prjóna nema að vera með barnabörnunum,“ segir höfundurinn. „Ég hef alltaf prjónað mikið á barnabörnin, jafnt peysur sem sokka og vettlinga. Mest nota ég ullargarn eða það sem til fellur. Ég nota þó ekki lopa,“ segir Guðrún og bætir við að það hafi verið mjög skemmtilegt og gefandi að vinna bókina. „Sonur minn, Ýmir Jónsson tók myndirnar og dóttir mín, Hildur Hlín Jónsdóttir, setti bókina upp en þau unnu sömuleiðis fyrri bækur mínar,“ segir Guðrún sem tók sér nokkuð langan tíma að vinna Jólaprjón. „Ég var byrjuð á henni þegar ég tók að mér að gera bókina Teppaprjón ásamt tvíburasystur minni, Þuríði. Síðan byrjaði ég á henni aftur og nú er hún loks tilbúin. Það er bókaútgáfan Forlagið sem gefur út Jólaprjón.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×