Skríðandi fasismi Þorvaldur Gylfason skrifar 26. október 2017 07:00 Félagsvísindi tíðkuðust ekki að neinu ráði í Sovétríkjunum 1917-1991, þekktust varla. Rússar áttu einn þekktan félagsfræðing, Yuri Levada. Fáar skoðanakannanir voru gerðar meðal almennings. Um sumt var ekki óhætt að spyrja svo enginn vissi hvað Rússum og öðrum Sovétum fannst t.d. um yfirvöldin. Í þeim fátæklegu könnunum sem gerðar voru 1980-1990 birtist hinn dæmigerði Sovéti eins og lífvana leirmynd mótuð í Kreml – hnípinn og einangraður með ríka þörf fyrir sterkan foringja. Óttasleginn hugarheimur Eftir hrun kommúnismans 1991 var fyrsta frjálsa skoðanakönnunin gerð. Hún skerpti myndina af óttaslegnum hugarheimi hins dæmigerða Sovéta. Árin næst á eftir virtist óttinn dvína, t.d. fækkaði þeim Rússum sem fannst rétt að ýta samkynhneigðu fólki til hliðar. Og þá sló aftur í bakseglin. Eftir að Pútín forseti komst til valda sneri gamli Rússinn aftur. Áhugi hans á lýðræði, mannréttindum og samvinnu við Vesturlönd minnkaði. Pútín skellir skuldinni á Nató sem tók við nýjum aðildarlöndum, m.a. Eystrasaltslöndunum og Póllandi sem liggja að Rússlandi. Nató-löndin verjast ásökunum Pútíns með þeim rökum að þeim hafi ekki verið stætt á að neita þessum löndum um aðild eftir allan þann yfirgang sem þau höfðu mátt þola af hálfu Rússa. Í fyrra ákvað dómsmálaráðuneytið í Moskvu að fella félagsvísindastofnunina sem er kennd við Yuri Levada undir lög um erlenda útsendara. Frá aldamótum hefur stuðningur Rússa við Pútín aldrei farið niður fyrir 60% og mældist nýlega um 80%. Rússland varð samt ekki að því lýðræðisríki sem margir Rússar og aðrir vonuðust til að sjá þegar Sovétríkin féllu. Mikið fylgi Pútíns dugir ekki til að flokka Rússland með lýðræðisríkjum. Meira þarf til. Kosningaúrslit í Rússlandi eru fölsuð eins og að drekka vatn: Til eru myndir af embættismönnum að troða atkvæðaseðlabúntum í kjörkassa. Stjórnarandstæðingar sæta sumir ofsóknum, þeir eru jafnvel myrtir og einnig blaðamenn. Mannréttindi og frelsi fjölmiðla eru borin fyrir borð. Dómskerfið og Dúman (þingið) í Moskvu eru strengjabrúður í höndum Kremlverja. Þetta kallast skríðandi fasismi. Nágrönnum Rússa er ekki skemmt. Fyrr á þessu ári töldu Svíar nauðsynlegt að endurinnleiða herskyldu sem hafði verið afnumin 2010. Pútín forseti, launþegi, er sagður vera einn ríkasti maður heims, ríkari en Bill Gates. Medvedev forsætisráðherra hefur einnig auðgazt ótæpilega. Slíkir valdsmenn reyna að tryggja að andstæðingar þeirra komist ekki til valda og grípa til æ grófari meðala til að halda völdunum hjá sér og sínum. Það eykur vanda Rússa að olíuverð hefur lækkað um helming frá 2014 og mun trúlega haldast lágt áfram. Efnahagur Rússlands er háður olíuverði þar eð Rússar hafa ekki haft lag á að renna fjölbreyttum stoðum undir efnahagslíf sitt. Þeir framleiða fyrir utan olíu og önnur hráefni fátt sem aðrar þjóðir fýsir að kaupa og eru nú minna en hálfdrættingar á við Íslendinga mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann.Einkamál Rússa? Nei! Vandi Rússlands er ekki einkamál Rússa heldur breiðist hann út. Rússar hafa átt í ýmsum skærum við granna sína, nú í Úkraínu. Bandaríkjamenn eru margir óánægðir með meint afskipti Rússa af forsetakosningunum vestra í fyrra, málið er í rannsókn. Trump forseti mærir Pútín kollega sinn í tíma og ótíma og ber jafnframt blak af nýnasistum sem ganga á lagið. Traust almennra flokksmanna í Repúblikanaflokknum í garð Pútíns hefur tekið stökk upp á við, úr sjöttungi 2015 í þriðjung nú. Til viðmiðunar segjast 13% demókrata treysta Pútín. Bandaríkin gæla nú opinskátt við fasisma í boði Rússa og repúblikana eins og Timothy Snyder, prófessor í Yale-háskóla, lýsir í nýrri bók sinni, Um harðstjórn. Það bætir ekki úr skák að tveir af þrem síðustu forsetum Bandaríkjanna náðu kjöri þótt andstæðingar þeirra hlytu mun fleiri atkvæði á landsvísu. Meinsemdin er galli á stjórnarskrá Bandaríkjanna sem „sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum“ eins og Sveinn Björnsson fyrsti forseti Íslands sagði um stjórnarskrá Íslands.Að stela stjórnarskrá Þegar Bandaríkjamenn bregðast lýðræðinu eykst hættan á að öðrum finnist þeir geta leyft sér svipað. Íslendingar geta samt ekki kennt Kananum um eigin lýðræðisbresti nema að litlu leyti. Fyrirmyndin að misheppnaðri tilraun ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins til að loka Stöð 2 og Fréttablaðinu 2004 var sótt til Rússlands, ekki Bandaríkjanna, en um svipað leyti réðst Pútín forseti gegn einkasjónvarpi í Rússlandi og lagði nær allan sjónvarpsrekstur undir ríkisvaldið. Lögbannið gegn Stundinni fyrir nokkru myndi ekki koma Rússum til að kippast við en það myndi ekki standa stundinni lengur í Bandaríkjunum. Enda fór enginn fram á lögbann gegn fréttaflutningi af leknum tölvupóstum til og frá frambjóðanda demókrata o.fl. fyrir forsetakjörið í fyrra. Eitt enn: Seðlabanki Íslands reyndi að komast hjá neyðaraðstoð frá AGS og Norðurlöndum í hruninu 2008 með því að leita heldur á náðir Rússa, en það tókst ekki sem betur fer. Enn einn angi vandans birtist í forhertu virðingarleysi margra þingmanna o.fl. gagnvart afgerandi úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá sem er ætlað að hamla leynd og spillingu og bæta þannig stjórnmálamenninguna. Fasisminn skríður æ fastar upp að hlið okkar, aðallega samt úr einni átt. Förum varlega. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Félagsvísindi tíðkuðust ekki að neinu ráði í Sovétríkjunum 1917-1991, þekktust varla. Rússar áttu einn þekktan félagsfræðing, Yuri Levada. Fáar skoðanakannanir voru gerðar meðal almennings. Um sumt var ekki óhætt að spyrja svo enginn vissi hvað Rússum og öðrum Sovétum fannst t.d. um yfirvöldin. Í þeim fátæklegu könnunum sem gerðar voru 1980-1990 birtist hinn dæmigerði Sovéti eins og lífvana leirmynd mótuð í Kreml – hnípinn og einangraður með ríka þörf fyrir sterkan foringja. Óttasleginn hugarheimur Eftir hrun kommúnismans 1991 var fyrsta frjálsa skoðanakönnunin gerð. Hún skerpti myndina af óttaslegnum hugarheimi hins dæmigerða Sovéta. Árin næst á eftir virtist óttinn dvína, t.d. fækkaði þeim Rússum sem fannst rétt að ýta samkynhneigðu fólki til hliðar. Og þá sló aftur í bakseglin. Eftir að Pútín forseti komst til valda sneri gamli Rússinn aftur. Áhugi hans á lýðræði, mannréttindum og samvinnu við Vesturlönd minnkaði. Pútín skellir skuldinni á Nató sem tók við nýjum aðildarlöndum, m.a. Eystrasaltslöndunum og Póllandi sem liggja að Rússlandi. Nató-löndin verjast ásökunum Pútíns með þeim rökum að þeim hafi ekki verið stætt á að neita þessum löndum um aðild eftir allan þann yfirgang sem þau höfðu mátt þola af hálfu Rússa. Í fyrra ákvað dómsmálaráðuneytið í Moskvu að fella félagsvísindastofnunina sem er kennd við Yuri Levada undir lög um erlenda útsendara. Frá aldamótum hefur stuðningur Rússa við Pútín aldrei farið niður fyrir 60% og mældist nýlega um 80%. Rússland varð samt ekki að því lýðræðisríki sem margir Rússar og aðrir vonuðust til að sjá þegar Sovétríkin féllu. Mikið fylgi Pútíns dugir ekki til að flokka Rússland með lýðræðisríkjum. Meira þarf til. Kosningaúrslit í Rússlandi eru fölsuð eins og að drekka vatn: Til eru myndir af embættismönnum að troða atkvæðaseðlabúntum í kjörkassa. Stjórnarandstæðingar sæta sumir ofsóknum, þeir eru jafnvel myrtir og einnig blaðamenn. Mannréttindi og frelsi fjölmiðla eru borin fyrir borð. Dómskerfið og Dúman (þingið) í Moskvu eru strengjabrúður í höndum Kremlverja. Þetta kallast skríðandi fasismi. Nágrönnum Rússa er ekki skemmt. Fyrr á þessu ári töldu Svíar nauðsynlegt að endurinnleiða herskyldu sem hafði verið afnumin 2010. Pútín forseti, launþegi, er sagður vera einn ríkasti maður heims, ríkari en Bill Gates. Medvedev forsætisráðherra hefur einnig auðgazt ótæpilega. Slíkir valdsmenn reyna að tryggja að andstæðingar þeirra komist ekki til valda og grípa til æ grófari meðala til að halda völdunum hjá sér og sínum. Það eykur vanda Rússa að olíuverð hefur lækkað um helming frá 2014 og mun trúlega haldast lágt áfram. Efnahagur Rússlands er háður olíuverði þar eð Rússar hafa ekki haft lag á að renna fjölbreyttum stoðum undir efnahagslíf sitt. Þeir framleiða fyrir utan olíu og önnur hráefni fátt sem aðrar þjóðir fýsir að kaupa og eru nú minna en hálfdrættingar á við Íslendinga mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann.Einkamál Rússa? Nei! Vandi Rússlands er ekki einkamál Rússa heldur breiðist hann út. Rússar hafa átt í ýmsum skærum við granna sína, nú í Úkraínu. Bandaríkjamenn eru margir óánægðir með meint afskipti Rússa af forsetakosningunum vestra í fyrra, málið er í rannsókn. Trump forseti mærir Pútín kollega sinn í tíma og ótíma og ber jafnframt blak af nýnasistum sem ganga á lagið. Traust almennra flokksmanna í Repúblikanaflokknum í garð Pútíns hefur tekið stökk upp á við, úr sjöttungi 2015 í þriðjung nú. Til viðmiðunar segjast 13% demókrata treysta Pútín. Bandaríkin gæla nú opinskátt við fasisma í boði Rússa og repúblikana eins og Timothy Snyder, prófessor í Yale-háskóla, lýsir í nýrri bók sinni, Um harðstjórn. Það bætir ekki úr skák að tveir af þrem síðustu forsetum Bandaríkjanna náðu kjöri þótt andstæðingar þeirra hlytu mun fleiri atkvæði á landsvísu. Meinsemdin er galli á stjórnarskrá Bandaríkjanna sem „sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum“ eins og Sveinn Björnsson fyrsti forseti Íslands sagði um stjórnarskrá Íslands.Að stela stjórnarskrá Þegar Bandaríkjamenn bregðast lýðræðinu eykst hættan á að öðrum finnist þeir geta leyft sér svipað. Íslendingar geta samt ekki kennt Kananum um eigin lýðræðisbresti nema að litlu leyti. Fyrirmyndin að misheppnaðri tilraun ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins til að loka Stöð 2 og Fréttablaðinu 2004 var sótt til Rússlands, ekki Bandaríkjanna, en um svipað leyti réðst Pútín forseti gegn einkasjónvarpi í Rússlandi og lagði nær allan sjónvarpsrekstur undir ríkisvaldið. Lögbannið gegn Stundinni fyrir nokkru myndi ekki koma Rússum til að kippast við en það myndi ekki standa stundinni lengur í Bandaríkjunum. Enda fór enginn fram á lögbann gegn fréttaflutningi af leknum tölvupóstum til og frá frambjóðanda demókrata o.fl. fyrir forsetakjörið í fyrra. Eitt enn: Seðlabanki Íslands reyndi að komast hjá neyðaraðstoð frá AGS og Norðurlöndum í hruninu 2008 með því að leita heldur á náðir Rússa, en það tókst ekki sem betur fer. Enn einn angi vandans birtist í forhertu virðingarleysi margra þingmanna o.fl. gagnvart afgerandi úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá sem er ætlað að hamla leynd og spillingu og bæta þannig stjórnmálamenninguna. Fasisminn skríður æ fastar upp að hlið okkar, aðallega samt úr einni átt. Förum varlega. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.