Ekki sjálfgefið Hörður Ægisson skrifar 28. október 2017 07:00 Það fylgir því ábyrgð að sækjast eftir völdum. Hluti af því er að boða ekki bólgin kosningaloforð nema fyrir liggi skýr og trúverðug áætlun um hvernig eigi að efna þau. Á þetta hefur nokkuð skort í þeirri furðulegu kosningabaráttu sem landsmenn hafa orðið vitni að undanfarnar vikur. Ein alvarlegasta afleiðing þessa endurspeglast án efa í viðvarandi vantrausti almennings í garð stjórnmálastéttarinnar. Sumir flokkar boða kúvendingu á þeirri stefnu sem hefur átt sinn þátt í því að tryggja efnahagsstöðugleika og um leið fordæmalausa kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna á allra síðustu árum. Hafa þeir talað skýrt fyrir tugmilljarða árlegri aukningu ríkisútgjalda sem myndi örva hagkerfið á toppi hagsveiflunnar og að lokum framkalla harða lendingu innan fáeinna ára. Óljósara hefur hins vegar verið hvernig eigi að fjármagna þau glórulausu kosningaloforð nema þá aðeins að ekki standi til að hækka skatta á almenning. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Það mun hrökkva skammt að ætla að sækja slíka fjármuni með hærri veiðigjöldum og sérstakri skattlagningu á ríkasta hóp samfélagsins. Við blasir, meini flokkarnir eitthvað með því sem þeir segja, að þeir verða aðeins sóttir með umtalsverðum skattahækkunum á millistéttina en skattheimta á Íslandi er nú þegar ein sú mesta meðal þróaðri ríkja. Því miður er sú skoðun ríkjandi hjá flestum stjórnmálaflokkum að eina svarið við kröfum ýmissa hópa í samfélaginu sé að hækka skatta og auka ríkisútgjöld. Reynslan sýnir hins vegar að slíkar leiðir hafa ekki reynst farsælar til að auka verðmætasköpun og þar með bæta lífskjör almennings. Það hafa orðið umskipti á íslenska hagkerfinu á aðeins örfáum árum og hefur staða þjóðarbúsins aldrei verið sterkari en um þessar mundir. Freistnivandi stjórnmálamanna, eins og kosningabaráttan hefur leitt í ljós, er iðulega mikill við slíkar efnahagsaðstæður. Þróun efnahagsmála frá því að haftaáætlun stjórnvalda var opinberuð fyrir tveimur árum hefur verið með ólíkindum. Lánshæfismat Íslands er komið í A-flokk, erlenda staðan hefur ekki verið betri frá því að mælingar hófust, vextir hafa lækkað og þá höfum við orðið vitni að áður óþekktum áhuga erlendra fjárfestingasjóða og fyrirtækja á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Þegar litið er á helstu efnahagslegu mælikvarða þá er Ísland á pari við mörg stöndugustu ríki Evrópu. Núverandi hagvaxtarskeið verður líklega hið lengsta í lýðveldissögunni. Framhaldið er þó ekki sjálfgefið. Með skynsamlegri stefnumótun og hagstjórn hins opinbera er útlit fyrir mjúka lendingu. Stærsta áskorun þeirrar ríkisstjórnar sem mun taka við eftir kosningar verður því að festa í sessi efnahagsstöðugleika síðustu ára og þannig skapa forsendur fyrr enn frekari lækkun vaxta. Eigi það að takast þarf að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði og reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi. Verði hins vegar lagt upp í þá vegferð að stórauka ríkisútgjöld á komandi árum er hætt við því að það tækifæri renni okkur úr greipum og þess í stað taki við kunnuglegt stef úr íslenskri hagsögu. Verðbólga eykst með tilheyrandi hækkun verðtryggðra lána, gengi krónunnar fellur og vextir hækka. Hver svo sem úrslit kosninganna verða er það á ábyrgð þeirra sem taka við að glutra ekki niður þeirri einstöku stöðu sem Ísland stendur frammi fyrir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Hörður Ægisson Kosningar 2017 Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Vill íslenska þjóðin halda í einmenninguna? Matthildur Björnsdóttir Skoðun Ólögleg meðvirkni lækna Teitur Ari Theodórsson Skoðun Hvert er „útlendingavandamálið“? Karen Kjartansdóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Það fylgir því ábyrgð að sækjast eftir völdum. Hluti af því er að boða ekki bólgin kosningaloforð nema fyrir liggi skýr og trúverðug áætlun um hvernig eigi að efna þau. Á þetta hefur nokkuð skort í þeirri furðulegu kosningabaráttu sem landsmenn hafa orðið vitni að undanfarnar vikur. Ein alvarlegasta afleiðing þessa endurspeglast án efa í viðvarandi vantrausti almennings í garð stjórnmálastéttarinnar. Sumir flokkar boða kúvendingu á þeirri stefnu sem hefur átt sinn þátt í því að tryggja efnahagsstöðugleika og um leið fordæmalausa kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna á allra síðustu árum. Hafa þeir talað skýrt fyrir tugmilljarða árlegri aukningu ríkisútgjalda sem myndi örva hagkerfið á toppi hagsveiflunnar og að lokum framkalla harða lendingu innan fáeinna ára. Óljósara hefur hins vegar verið hvernig eigi að fjármagna þau glórulausu kosningaloforð nema þá aðeins að ekki standi til að hækka skatta á almenning. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Það mun hrökkva skammt að ætla að sækja slíka fjármuni með hærri veiðigjöldum og sérstakri skattlagningu á ríkasta hóp samfélagsins. Við blasir, meini flokkarnir eitthvað með því sem þeir segja, að þeir verða aðeins sóttir með umtalsverðum skattahækkunum á millistéttina en skattheimta á Íslandi er nú þegar ein sú mesta meðal þróaðri ríkja. Því miður er sú skoðun ríkjandi hjá flestum stjórnmálaflokkum að eina svarið við kröfum ýmissa hópa í samfélaginu sé að hækka skatta og auka ríkisútgjöld. Reynslan sýnir hins vegar að slíkar leiðir hafa ekki reynst farsælar til að auka verðmætasköpun og þar með bæta lífskjör almennings. Það hafa orðið umskipti á íslenska hagkerfinu á aðeins örfáum árum og hefur staða þjóðarbúsins aldrei verið sterkari en um þessar mundir. Freistnivandi stjórnmálamanna, eins og kosningabaráttan hefur leitt í ljós, er iðulega mikill við slíkar efnahagsaðstæður. Þróun efnahagsmála frá því að haftaáætlun stjórnvalda var opinberuð fyrir tveimur árum hefur verið með ólíkindum. Lánshæfismat Íslands er komið í A-flokk, erlenda staðan hefur ekki verið betri frá því að mælingar hófust, vextir hafa lækkað og þá höfum við orðið vitni að áður óþekktum áhuga erlendra fjárfestingasjóða og fyrirtækja á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Þegar litið er á helstu efnahagslegu mælikvarða þá er Ísland á pari við mörg stöndugustu ríki Evrópu. Núverandi hagvaxtarskeið verður líklega hið lengsta í lýðveldissögunni. Framhaldið er þó ekki sjálfgefið. Með skynsamlegri stefnumótun og hagstjórn hins opinbera er útlit fyrir mjúka lendingu. Stærsta áskorun þeirrar ríkisstjórnar sem mun taka við eftir kosningar verður því að festa í sessi efnahagsstöðugleika síðustu ára og þannig skapa forsendur fyrr enn frekari lækkun vaxta. Eigi það að takast þarf að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði og reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi. Verði hins vegar lagt upp í þá vegferð að stórauka ríkisútgjöld á komandi árum er hætt við því að það tækifæri renni okkur úr greipum og þess í stað taki við kunnuglegt stef úr íslenskri hagsögu. Verðbólga eykst með tilheyrandi hækkun verðtryggðra lána, gengi krónunnar fellur og vextir hækka. Hver svo sem úrslit kosninganna verða er það á ábyrgð þeirra sem taka við að glutra ekki niður þeirri einstöku stöðu sem Ísland stendur frammi fyrir.