Heita kartaflan Bergur Ebbi skrifar 13. október 2017 07:00 Vantraust á stjórnvöld er ekki í rénun. Vantraustið er ekki tískusveifla eða bundið við eftirmála efnahagshruns. Það er stærra og það hefur að gera með aðgengi að upplýsingum, nýjan valdastrúktúr og grynnri en hraðari boðleiðir hugmynda. Í sem mestri einföldun má segja að almenningur sé valdameiri en áður. Jafnvel svo valdamikill að það valdi kvíða. Við lifum í samfélagi þar sem fólk tístir á forsætisráðherra þjóðarinnar um random málefni í 140 stafbilum og lætur í sér heyra ef það fær ekki svar á næstu þremur klukkustundum – og fær jafnvel trylling sinn bergmálaðan í fjölmiðlum næstu daga á eftir – fjölmiðlum sem sumir hafa í eðli sínu enga sérstaka framtíðarsýn eða skilning á stærri undiröldum samfélagsins. En þær öldur eru samt hverjum manni augljósar sem vill kanna þær: við erum öll einum gagnaleka frá tortímingu – eða, svo ég minnki aðeins dramatíkina: ein hugsun slegin inn í vitlaust box á tölvuskjá getur fellt heilu stjórnmálaöflin. Og auðvitað er stjórnmálafólk að sligast undan þessu. Þegar starfandi forsætisráðherra varar við að róttækni sé í kortunum hljómar það eins og hann hati ekki þann lúxus að fá að stíga á hliðarlínuna um stund og máta leiðtogasætið við aðra en sjálfan sig, enda er forsætisráðherrastóllinn vissulega brennheitur staður til að vera á. Það er ekkert gaman að „ver’ann“. Að leiða þann óskapnað sem stjórnmálastéttin er, að smala þessum köttum, að hræra í þessum kekkjótta graut og bera á borð súpu sem er öllum að skapi. Nema reyndar ef maður er sósíópati, þá elskar maður að bera á borð súpu og fylgjast með fólki fá hæga matareitrun. En sé maður sæmilega vandvirkur þá er erfitt að vera leiðtogi. Hvernig leiðtogi er hægt að vera í samfélagi stöðugs paniks og þórðargleði? Hinn fullkomni leiðtogi er manneskja sem er sensitíf og ber sig eftir að hlusta á þá sem minna mega sín og talar þeirra máli. Hinn fullkomni leiðtogi þarf að vera vingjarnlegur í fjölmiðlum, svara Facebook-póstum og Twitter-meldingum, sama hversu smásmugulegt tilefnið er. Hinn fullkomni leiðtogi getur þó ekki aðeins talað fyrir jaðarhópana. Hann þarf einnig að lifa í sama hrærigraut og millistéttin og skutla börnum sínum í frístundir eða plana steggjunar- og gæsaveislur í flóknum Facebook-hópum. Annars skilur hann ekki samborgara sína. Þó þarf hinn fullkomni leiðtogi að vera meira en meðalmenni. Hinn fullkomni leiðtogi er manneskja sem er hörð, helst aggresív og miskunnarlaus gagnvart svívirðilegum hagsmunahópum, innan lands sem utan. En ofan á allt þetta má hinn fullkomni leiðtogi ekki vera of grimmur því það er ekki dyggðugt og hinn fullkomni leiðtogi er siðferðisleg fyrirmynd sem eldar rétt, flokkar rusl, þar með talið allt nýjasta rappið sem hann sorterar samviskusamlega niður í playlista á Spotify-aðgangi sínum og þykist svo fíla. Er þetta eitthvað mál? Eða vill kannski enginn vera leiðtogi? Leiðtogi pírata „mun gegna hlutverki ígildis formanns“ samkvæmt frétt Vísis. Hlutverk ígildis formanns? Er til passívara orðalag? Ef þetta orðalag væri dýr þá væri það snigill, kyrfilega inni í skel sinni, lokaður inni í helli. Og þó að það hljómi ekki eins og leiðtogahæfni þá er það kannski framúrstefnuleg leið til að sverfa egóið. Að búa til filter, aftengja sig frá því sem áður þótti eftirsótt. Því við lifum á tímum þar sem við getum aldrei komist yfir allt, melt allt, skilið allt, vitað allt – og kannski eru mestu leiðtogarnir þeir sem allavega viðurkenna það. Að stjórna landinu er ekki lengur bara hagstjórn – að ganga á milli Húss verslunarinnar, Stjórnarráðsins og Bændahallarinnar í kaldastríðsfrakka með stresstösku og bjóða góðan daginn. Nú eru alls konar önnur mál komin inn á borð leiðtogans – málefni hinsegin fólks, kynferðisofbeldi, afbakaðar staðreyndir, gagnalekar, breytt viðhorf nýrra kynslóða sem aldar eru upp við skutl og einbeitingarlyf og fleiri og fleiri þættir sem er hreinlega erfitt að skilja í heild sinni hvort sem þú ert jaðarsettur eða millistéttarplebbi eða forréttindapési. Og já. Þetta er sjóðheit kartafla. Svo heit að í þessum októbermánuði eru margir að missa kúlið. Þegar allir eru með tuttugu spjall-glugga opna er ekki skrítið þó það verði hjaðningavíg. Því við erum öll fólk, og flest með taugakerfi sem þolir ekki endalaust álag. Þó það nú væri. Það vill enginn ver’ann í þessum eltingaleik. Það vilja allir standa á hliðarlínunni og segja na-na-na-bú-bú. Og hliðarlínan er stór: Heil þjóð á samfélagsmiðlum, ullandi og frussandi. En það verður engin máltíð nema kartöflurnar fái að hitna, svo endað sé á heimagerðu súdó-intellectual orðatiltæki af þeirri sort sem dugaði stjórnmálamönnum einu sinni. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Kosningar 2017 Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Vantraust á stjórnvöld er ekki í rénun. Vantraustið er ekki tískusveifla eða bundið við eftirmála efnahagshruns. Það er stærra og það hefur að gera með aðgengi að upplýsingum, nýjan valdastrúktúr og grynnri en hraðari boðleiðir hugmynda. Í sem mestri einföldun má segja að almenningur sé valdameiri en áður. Jafnvel svo valdamikill að það valdi kvíða. Við lifum í samfélagi þar sem fólk tístir á forsætisráðherra þjóðarinnar um random málefni í 140 stafbilum og lætur í sér heyra ef það fær ekki svar á næstu þremur klukkustundum – og fær jafnvel trylling sinn bergmálaðan í fjölmiðlum næstu daga á eftir – fjölmiðlum sem sumir hafa í eðli sínu enga sérstaka framtíðarsýn eða skilning á stærri undiröldum samfélagsins. En þær öldur eru samt hverjum manni augljósar sem vill kanna þær: við erum öll einum gagnaleka frá tortímingu – eða, svo ég minnki aðeins dramatíkina: ein hugsun slegin inn í vitlaust box á tölvuskjá getur fellt heilu stjórnmálaöflin. Og auðvitað er stjórnmálafólk að sligast undan þessu. Þegar starfandi forsætisráðherra varar við að róttækni sé í kortunum hljómar það eins og hann hati ekki þann lúxus að fá að stíga á hliðarlínuna um stund og máta leiðtogasætið við aðra en sjálfan sig, enda er forsætisráðherrastóllinn vissulega brennheitur staður til að vera á. Það er ekkert gaman að „ver’ann“. Að leiða þann óskapnað sem stjórnmálastéttin er, að smala þessum köttum, að hræra í þessum kekkjótta graut og bera á borð súpu sem er öllum að skapi. Nema reyndar ef maður er sósíópati, þá elskar maður að bera á borð súpu og fylgjast með fólki fá hæga matareitrun. En sé maður sæmilega vandvirkur þá er erfitt að vera leiðtogi. Hvernig leiðtogi er hægt að vera í samfélagi stöðugs paniks og þórðargleði? Hinn fullkomni leiðtogi er manneskja sem er sensitíf og ber sig eftir að hlusta á þá sem minna mega sín og talar þeirra máli. Hinn fullkomni leiðtogi þarf að vera vingjarnlegur í fjölmiðlum, svara Facebook-póstum og Twitter-meldingum, sama hversu smásmugulegt tilefnið er. Hinn fullkomni leiðtogi getur þó ekki aðeins talað fyrir jaðarhópana. Hann þarf einnig að lifa í sama hrærigraut og millistéttin og skutla börnum sínum í frístundir eða plana steggjunar- og gæsaveislur í flóknum Facebook-hópum. Annars skilur hann ekki samborgara sína. Þó þarf hinn fullkomni leiðtogi að vera meira en meðalmenni. Hinn fullkomni leiðtogi er manneskja sem er hörð, helst aggresív og miskunnarlaus gagnvart svívirðilegum hagsmunahópum, innan lands sem utan. En ofan á allt þetta má hinn fullkomni leiðtogi ekki vera of grimmur því það er ekki dyggðugt og hinn fullkomni leiðtogi er siðferðisleg fyrirmynd sem eldar rétt, flokkar rusl, þar með talið allt nýjasta rappið sem hann sorterar samviskusamlega niður í playlista á Spotify-aðgangi sínum og þykist svo fíla. Er þetta eitthvað mál? Eða vill kannski enginn vera leiðtogi? Leiðtogi pírata „mun gegna hlutverki ígildis formanns“ samkvæmt frétt Vísis. Hlutverk ígildis formanns? Er til passívara orðalag? Ef þetta orðalag væri dýr þá væri það snigill, kyrfilega inni í skel sinni, lokaður inni í helli. Og þó að það hljómi ekki eins og leiðtogahæfni þá er það kannski framúrstefnuleg leið til að sverfa egóið. Að búa til filter, aftengja sig frá því sem áður þótti eftirsótt. Því við lifum á tímum þar sem við getum aldrei komist yfir allt, melt allt, skilið allt, vitað allt – og kannski eru mestu leiðtogarnir þeir sem allavega viðurkenna það. Að stjórna landinu er ekki lengur bara hagstjórn – að ganga á milli Húss verslunarinnar, Stjórnarráðsins og Bændahallarinnar í kaldastríðsfrakka með stresstösku og bjóða góðan daginn. Nú eru alls konar önnur mál komin inn á borð leiðtogans – málefni hinsegin fólks, kynferðisofbeldi, afbakaðar staðreyndir, gagnalekar, breytt viðhorf nýrra kynslóða sem aldar eru upp við skutl og einbeitingarlyf og fleiri og fleiri þættir sem er hreinlega erfitt að skilja í heild sinni hvort sem þú ert jaðarsettur eða millistéttarplebbi eða forréttindapési. Og já. Þetta er sjóðheit kartafla. Svo heit að í þessum októbermánuði eru margir að missa kúlið. Þegar allir eru með tuttugu spjall-glugga opna er ekki skrítið þó það verði hjaðningavíg. Því við erum öll fólk, og flest með taugakerfi sem þolir ekki endalaust álag. Þó það nú væri. Það vill enginn ver’ann í þessum eltingaleik. Það vilja allir standa á hliðarlínunni og segja na-na-na-bú-bú. Og hliðarlínan er stór: Heil þjóð á samfélagsmiðlum, ullandi og frussandi. En það verður engin máltíð nema kartöflurnar fái að hitna, svo endað sé á heimagerðu súdó-intellectual orðatiltæki af þeirri sort sem dugaði stjórnmálamönnum einu sinni. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun