Körfubolti

Kári kominn aftur í Haukabúninginn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kári við undirskriftina í dag.
Kári við undirskriftina í dag. vísir/anton
Kári Jónsson skrifaði nú í hádeginu undir samning við uppeldisfélag sitt Hauka.

Samningur Kára við Haukana er til eins árs enda útilokar Kári ekki að reyna aftur fyrir sér utan landsteinana. Kári kom til Íslands síðasta mánudag en hann hætti þá í Drexel-háskólanum í Bandaríkjunum.

Kári sagðist hafa tapað gleðinni fyrir íþróttinni í Bandaríkjunum og eftir að hafa velt málinu lengi fyrir sér þá kom hann heim.

„Ég ætla að einbeita mér að því að finna gleðina aftur hér heima í vetur og ef eitthvað gerist síðan eftir það þá mun ég skoða það. Núna snýst þetta um að spila körfubolta og finna gleðina á ný,“ sagði Kári á mánudag, en af hverju tapaði hann gleðinni í skólanum úti?

„Mér leið ekki vel þarna lengur og var hættur að hafa gaman af boltanum. Það var fátt sem mér fannst skemmtilegt þarna.  Ef maður nýtur sín ekki vel þá er engin ástæða til að vera þar lengur. Ég var mikið einn og lítið að tengja. Þetta var samt auðvitað erfið ákvörðun og líka erfitt að gefa svona tækifæri frá sér. Þetta var samt það besta fyrir mig sjálfan á þessum tímapunkti en þetta hafði sinn aðdraganda. Maður vaknar ekki einn morguninn og fer bara heim. Ég reyndi margt, gekk ekki upp og því kom ég heim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×