Lengi lifir í gömlum glæðum Þorvaldur Gylfason skrifar 21. september 2017 06:00 Við lifum viðsjárverða tíma. Forsætisráðherra Katalóníu hefur lýst þeirri skoðun að Spánn sé ekki lengur óskorað lýðræðisríki, lýðræðið þar sé sjúkt. Ásakanir um vanvirðingu við lýðræði ganga raunar á báða bóga. Katalónar eiga í höggi við ríkisstjórn Spánar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem þingið í Barselónu ákvað að halda 1. október nk. um stofnun sjálfstæðs ríkis í Katalóníu. Stjórnin í Madríd hefur bannað atkvæðagreiðsluna og segist munu draga katalónska stjórnmálamenn fyrir dóm fari hún fram. Margir Katalónar segjast kunna skýringu á þessu háttalagi spænsku stjórnarinnar. Þeir segja m.a. að enn lifi í gömlum glæðum herforingjastjórnar Francos 1936-1975, náins bandamanns Hitlers og Mussolinis. Þarna er trúlega einnig að finna skýringuna á því að þekktasti lögfræðingur Spánar, Baltasar Garzon, var sviptur lögmannsréttindum þar í 11 ár. Hvað hafði hann til saka unnið? Hann átti manna mestan þátt í að lögum var loksins komið yfir Augusto Pinchet, síleska einræðisherrann. Garzon hóf síðar málsókn heima fyrir vegna mannréttindabrota Franco-stjórnarinnar og einnig gegn argentínskum herforingjum. Argentína glímir einmitt við áþekkan vanda. Ég þekkti hörkusvipinn á borðalögðum hershöfðingjum sem urðu á vegi mínum í óperunni í Buenos Aires, Teatro Colón, fyrir nokkrum árum. Þeir hafa ekki lagt upp laupana þrátt fyrir glæpina sem á þá sönnuðust og sumir þeirra fengu dóma fyrir. Barnlausir hershöfðingjar urðu sumir uppvísir að því að hafa rænt ungabörnum sumra fórnarlamba sinna og ættleitt þau; sérstök leyniskrifstofa sá um málið fyrir þá. Og nú breiða sumir þessara manna og afkomendur þeirra úr sér einnig í okkar heimshluta. Hvert sækja þeir kjarkinn?Trump, Koch, Bush, … Byrjum í Bandaríkjunum. Ýmis ummæli Trumps forseta, t.d. um að nýnasistar og andstæðingar þeirra hafi góðu fólki á að skipa á báða bóga, er vert að skoða í ljósi þess að faðir hans var handtekinn á fundi Ku Klux Klan, alræmdra hryðjuverkasamtaka sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins og taka sér nasismann m.a. að því leyti til fyrirmyndar. Mikil fjárframlög Koch-bræðra til stuðnings frambjóðendum repúblikana undangengin ár með fulltingi Hæstaréttar er með líku lagi vert að skoða í ljósi þess að Fred Koch faðir þeirra bræðra starfaði um hríð í Sovétríkjum Stalíns og síðan í Þýzkalandi Hitlers þar sem hann hjálpaði til við að smyrja stríðsmaskínu nasista og hafði stjórnmálaöfgar fyrir sonum sínum æ síðan. Ekki nóg með þetta: Bandarísk skjalasöfn staðfesta að faðir Bush eldri forseta og afi Bush yngri, Prescott Bush, var í nánum viðskiptatengslum við nasista og átti aðild að valdaránstilraun í Washington 1934. Siðaveiklun bandarískra repúblikana undangengna áratugi hefur ágerzt síðustu ár. Meðfylgjandi stríðsástand á þinginu í Washington og verðskuldað vantraust kjósenda á þinginu er vert að skoða í þessu ljósi. Í þessu þráa andrúmslofti gengur Ku Klux Klan nú í endurnýjun lífdaganna. Öfgahundarnir þykjast nú eiga bandamann í Hvíta húsinu, bandamann sem hikar ekki við að lýsa samstöðu með þeim, en það gerðu hvorki Bush eldri né Bush yngri nokkurn tímann hvað sem annars má segja um feril þeirra.Um harðstjórn Timothy Snyder, prófessor í sagnfræði í Yale-háskóla í Bandaríkjunum, fjallar um þennan vanda í nýrri metsölubók, On Tyranny (Um harðstjórn) sem hann kynnti á Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir skömmu. Snyder er sérfræðingur í sögu Evrópu á 20. öld og lýsir umhugsunarverðum og beinlínis ógnvekjandi hliðstæðum áranna milli heimsstyrjaldanna við atburði síðustu ára báðum megin Atlantshafs. Hann rekur m.a. hversu auðræði ógnar nú lýðræði í Bandaríkjunum með fulltingi Hæstaréttar líkt og auðræði og þjófræði stendur rússnesku lýðræði fyrir þrifum. Snyder veltir því fyrir sér hvort Kaninn sé á sömu leið og Rússar. Pútín forseti hefur að sönnu ýmsa hæfa menn í kringum sig, t.d. Elviru Nabiullinu seðlabankastjóra. Sama verður ekki sagt um Trump forseta eins og John Nichols blaðamaður lýsir í nýrri bók um fólkið – hann segir illþýðið – sem Trump hefur raðað í kingum sig, hættulegt fólk sem sættir sig ekki við félagslegar framfarir síðustu áratuga, þ.m.t. borgararéttindi blökkumanna, og kennir innflytjendum, jafnvel börnum, um ófarir sínar og reynir að snúa klukkunni við. Í þessu ljósi er vert að skoða framferði Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins gagnvart varnarlausum erlendum börnum hér heima. Sæmdarmissir Alþingis og meðfylgjandi vantraust fólksins í landinu eru angar á sama meiði. Meira næst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Við lifum viðsjárverða tíma. Forsætisráðherra Katalóníu hefur lýst þeirri skoðun að Spánn sé ekki lengur óskorað lýðræðisríki, lýðræðið þar sé sjúkt. Ásakanir um vanvirðingu við lýðræði ganga raunar á báða bóga. Katalónar eiga í höggi við ríkisstjórn Spánar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem þingið í Barselónu ákvað að halda 1. október nk. um stofnun sjálfstæðs ríkis í Katalóníu. Stjórnin í Madríd hefur bannað atkvæðagreiðsluna og segist munu draga katalónska stjórnmálamenn fyrir dóm fari hún fram. Margir Katalónar segjast kunna skýringu á þessu háttalagi spænsku stjórnarinnar. Þeir segja m.a. að enn lifi í gömlum glæðum herforingjastjórnar Francos 1936-1975, náins bandamanns Hitlers og Mussolinis. Þarna er trúlega einnig að finna skýringuna á því að þekktasti lögfræðingur Spánar, Baltasar Garzon, var sviptur lögmannsréttindum þar í 11 ár. Hvað hafði hann til saka unnið? Hann átti manna mestan þátt í að lögum var loksins komið yfir Augusto Pinchet, síleska einræðisherrann. Garzon hóf síðar málsókn heima fyrir vegna mannréttindabrota Franco-stjórnarinnar og einnig gegn argentínskum herforingjum. Argentína glímir einmitt við áþekkan vanda. Ég þekkti hörkusvipinn á borðalögðum hershöfðingjum sem urðu á vegi mínum í óperunni í Buenos Aires, Teatro Colón, fyrir nokkrum árum. Þeir hafa ekki lagt upp laupana þrátt fyrir glæpina sem á þá sönnuðust og sumir þeirra fengu dóma fyrir. Barnlausir hershöfðingjar urðu sumir uppvísir að því að hafa rænt ungabörnum sumra fórnarlamba sinna og ættleitt þau; sérstök leyniskrifstofa sá um málið fyrir þá. Og nú breiða sumir þessara manna og afkomendur þeirra úr sér einnig í okkar heimshluta. Hvert sækja þeir kjarkinn?Trump, Koch, Bush, … Byrjum í Bandaríkjunum. Ýmis ummæli Trumps forseta, t.d. um að nýnasistar og andstæðingar þeirra hafi góðu fólki á að skipa á báða bóga, er vert að skoða í ljósi þess að faðir hans var handtekinn á fundi Ku Klux Klan, alræmdra hryðjuverkasamtaka sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins og taka sér nasismann m.a. að því leyti til fyrirmyndar. Mikil fjárframlög Koch-bræðra til stuðnings frambjóðendum repúblikana undangengin ár með fulltingi Hæstaréttar er með líku lagi vert að skoða í ljósi þess að Fred Koch faðir þeirra bræðra starfaði um hríð í Sovétríkjum Stalíns og síðan í Þýzkalandi Hitlers þar sem hann hjálpaði til við að smyrja stríðsmaskínu nasista og hafði stjórnmálaöfgar fyrir sonum sínum æ síðan. Ekki nóg með þetta: Bandarísk skjalasöfn staðfesta að faðir Bush eldri forseta og afi Bush yngri, Prescott Bush, var í nánum viðskiptatengslum við nasista og átti aðild að valdaránstilraun í Washington 1934. Siðaveiklun bandarískra repúblikana undangengna áratugi hefur ágerzt síðustu ár. Meðfylgjandi stríðsástand á þinginu í Washington og verðskuldað vantraust kjósenda á þinginu er vert að skoða í þessu ljósi. Í þessu þráa andrúmslofti gengur Ku Klux Klan nú í endurnýjun lífdaganna. Öfgahundarnir þykjast nú eiga bandamann í Hvíta húsinu, bandamann sem hikar ekki við að lýsa samstöðu með þeim, en það gerðu hvorki Bush eldri né Bush yngri nokkurn tímann hvað sem annars má segja um feril þeirra.Um harðstjórn Timothy Snyder, prófessor í sagnfræði í Yale-háskóla í Bandaríkjunum, fjallar um þennan vanda í nýrri metsölubók, On Tyranny (Um harðstjórn) sem hann kynnti á Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir skömmu. Snyder er sérfræðingur í sögu Evrópu á 20. öld og lýsir umhugsunarverðum og beinlínis ógnvekjandi hliðstæðum áranna milli heimsstyrjaldanna við atburði síðustu ára báðum megin Atlantshafs. Hann rekur m.a. hversu auðræði ógnar nú lýðræði í Bandaríkjunum með fulltingi Hæstaréttar líkt og auðræði og þjófræði stendur rússnesku lýðræði fyrir þrifum. Snyder veltir því fyrir sér hvort Kaninn sé á sömu leið og Rússar. Pútín forseti hefur að sönnu ýmsa hæfa menn í kringum sig, t.d. Elviru Nabiullinu seðlabankastjóra. Sama verður ekki sagt um Trump forseta eins og John Nichols blaðamaður lýsir í nýrri bók um fólkið – hann segir illþýðið – sem Trump hefur raðað í kingum sig, hættulegt fólk sem sættir sig ekki við félagslegar framfarir síðustu áratuga, þ.m.t. borgararéttindi blökkumanna, og kennir innflytjendum, jafnvel börnum, um ófarir sínar og reynir að snúa klukkunni við. Í þessu ljósi er vert að skoða framferði Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins gagnvart varnarlausum erlendum börnum hér heima. Sæmdarmissir Alþingis og meðfylgjandi vantraust fólksins í landinu eru angar á sama meiði. Meira næst.