Bílar

Peugeot 208, 2008 og DS3 verða rafmagnsbílar

Finnur Thorlacius skrifar
Peugeot 2008.
Peugeot 2008.
PSA Peugeot-Citroën ætlar ekki að vera neinn eftirbátur annarra bílaframleiðenda við framleiðslu á rafmagnsbílum og mun kynna þrjá nýja slíka bíla á allra næstu árum. Í stað þess að þróa glænýja bíla ætlar Peugeot að bjóða Peugeot 208 og lúxusbílgerðina DS3 sem hreinræktaða rafmagnsbíla árið 2019 og kemur DS3 á undan 208. Árið þar á eftir kemur svo að rafmagnsútgáfu 2008 bílsins.

Enn fleiri útgáfur af tengiltvinnbílum eru í bígerð hjá PSA og fá bílgerðirnar DS7 Crossback, Peugeot 5008 og Citroën C5 Aircross fyrstir þá meðferð. PSA ætlar reyndar að kynna 7 bílgerðir sem tengiltvinnbíla uns árið 2023 rennur sitt skeið.

PSA framleiðir nú þegar einar 5 bílgerðir sem fá má eingöngu með rafmagnsdrifrás, þ.e. Citroën C Zero, Peugeot iOn, Citroën e-Mehari og sendibílana Peugeot Partner og Citroën Berlingo. Meiningin er að meira en þriðjungur lúxusbílalínunnar DS verði rafmagnsbílar eða tengiltvinnbílar árið 2025.






×