Sport

Fékk líflátshótanir vegna skoðana sinna á þjóðsöngsmótmælunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Walker í leik með Titans.
Walker í leik með Titans. vísir/getty
Dramað í kringum þjóðsöngsmótmæli leikmanna í NFL-deildinni halda áfram að tröllríða öllu vestra og málið er dauðans alvara.

Þannig hefur Delanie Walker, leikmaður Tennessee Titans, fengið líflátshótanir vegna sinna orða um mótmælin. Hann, ásamt félögum sínum í Titans, biðu inn í klefa er þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður fyrir leik þeirra um síðustu helgi.

„Við erum ekki að vanvirða herinn með þessum mótmælum. Þetta snýst um jöfn réttindi allra í Bandaríkjunum og við erum að reyna að sýna að okkur þyki vænt um hvort annað,“ sagði Walker en fjöldi fólks neitar að mæta á völlinn út af þessum mótmælum.

„Þá bara bless. Ef einhverjum finnst þessi hegðun vera vanvirðing við sig þá skaltu bara sleppa því að koma. Það þarf enginn að koma á völlinn. Það er frjálst val einstaklings hvort hann fer á völlinn eður ei.“

Þessi orð fóru svo fyrir brjóstið á fólki að Walker mátti þola mikinn skít og hótanir.

„Líflátshótanirnar sem ég og fjölskylda mín höfum fengið eru ömurlegar. Kynþáttaníð sem ég og sonur minn höfum þess utan fengið sýnir að landið er enn klofið og fullt af hatri. Þessi orð munu aðeins gera mig ákveðnari í því að berjast fyrir jöfnum réttindum allra,“ skrifaði Walker á Instagram.

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×