Börsungar skoruðu þrjú í þögninni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Skrýtin stemning á Nývangi í dag
Skrýtin stemning á Nývangi í dag vísir/getty
Barcelona er með fullt hús stiga eftir sjö umferðir í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir öruggan 3-0 sigur á Las Palmas á Nou Camp í dag.

Óvíst var hvort leikurinn yrði spilaður vegna átakanna í Katalóníu og óskaði Barcelona eftir því að leiknum yrði frestað. Þeirri beiðni var synjað af spænska knattspyrnusambandinu. Í kjölfarið tók Barcelona í samráði við lögregluyfirvöld að engum áhorfendum yrði hleypt inn á leikvanginn sem er alla jafna þétt setinn af tæplega 100 þúsund áhorfendum.

Eitthvað virtist kyrrðin hafa áhrif á leikmenn í fyrri hálfleik því ekkert mark var skorað.

Börsungar voru hins vegar fljótir að venjast þögninni og skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleik. Sergio Busquets opnaði markareikninginn áður en Lionel Messi gerði út um leikinn með tveim mörkum á sjö mínútna kafla.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira