Sport

Kostaði hann meira en milljón að sýna báða miðfingurna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marshawn Lynch.
Marshawn Lynch. Vísir/Getty
Kraftahlauparinn Marshawn Lynch snéri aftur í NFL-deildina um síðustu helgi þegar hann lék með Oakland Raiders í sigurleik á móti Tennessee Titans.

Fyrsti leikurinn endaði með sigri og ágætis tölum hjá kappanum en honum tókst samt að koma sér í vandræði. Myndavélar CBS-sjónvarpsstöðvarinnar náðu því þegar Marshawn Lynch sýndi báða miðfingurna í fjórða leikhlutanum.

Það var tekið hart á því í höfuðstöðvum NFL-deildarinnar og hann var sektaður um 12 þúsund dollara eða um 1,2 milljónir íslenskra króna. ESPN segir frá.

Þetta var fyrsti leikur Marshawn Lynch í meira en ár eftir að kappinn ákvað að taka sér frí frá boltanum. Hann sagðist reyndar vera hættur þegar hann gekk út hjá Seattle Seahawks en ákvað að taka skóna aftur af hillunni eftir að Seattle Seahawks skipti honum til Oakland Raiders.

Lynch ólst upp í Oakland og var alltaf mikill stuðningsmaður Oakland Raiders. Hann stökk því á tækifærið að fá að spila með sínu uppáhaldsfélagi úr æsku,

Marshawn Lynch er einn mesti sérvitringurinn í ameríska fótboltanum en einnig í hópi besti hlaupara deildarinnar enda mjög erfitt að ná honum niður.  Hann er einnig þekktur fyrir ást sína á Skittles-namminu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×