Gagnrýni

Upprisa skallapopparans

Jónas Sen skrifar
 "Anna Guðný Guðmundsdóttir lék á píanóið og gerði það afburðavel. Leikur hennar var nákvæmur og tær, líflegur og grípandi,“ segir í dómnum.
"Anna Guðný Guðmundsdóttir lék á píanóið og gerði það afburðavel. Leikur hennar var nákvæmur og tær, líflegur og grípandi,“ segir í dómnum. Vísir/Anton Brink
Tónlist

Kammersveit Reykjavíkur

Verk eftir Hummel og Beethoven.

Norðurljós í Hörpu

Sunnudaginn 10. september



Tónsmiður getur verið dáður og elskaður á meðan hann lifir, en samt fallið í gleymskunnar dá eftir dauðann. Sumir verða þó vinsælir aftur löngu síðar, eins og gerðist með Bach. Tónlist hans þótti lengi andlaus og leiðinleg, en þegar tónskáldið Felix Mend­elssohn stjórnaði flutningi á stóru verki eftir Bach um sjötíu árum eftir dauða hans, komst hann aftur í tísku.

Kannski er eitthvað sambærilegt að gerast með tónlist Hummels sem var á dagskránni á tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Hörpu á sunnudaginn. Hann hét fullu nafni Johann Nepomuk Hummel og var samtíðarmaður Beethovens. Og ekki bara það, þeir voru góðir vinir.

Beethoven hafði miklar mætur á Hummel, enda var hann ekki aðeins frábær píanóleikari, heldur líka innblásið tónskáld. Tónlist hans er klassísk í formi, en það er samt í henni rómantísk ljóðræna. Greinilegt er að Chopin var undir sterkum áhrifum frá Hummel.



Ástæðan fyrir því að hann gleymdist eftir dauðann var að tónskáld sem á eftir komu, eins og t.d. Chopin, fóru miklu lengra í rómantíkinni og dramanu. Fyrir bragðið virkaði tónlist Hummels gamaldags. Hann varð að eins konar skallapoppara í augum almennings, teknópabba sem var ekki lengur hip og kúl. En á síðari árum hefur áhuginn aukist og á YouTube er að finna töluvert af upptökum með tónlist Hummels. Ég mæli sérstaklega með píanókonsert nr. 2 í flutningi Stephen Hough, sem hefur komið hingað til tónleikahalds oftar en einu sinni.



Eins og áður segir var Hummel magnaður píanóleikari. Kröfurnar sem gerðar eru til píanóleikarans í septett í d-moll op. 74 á tónleikum Kammersveitarinnar eru því nánast ofurmannlegar. Verkið er hálfgerður píanókonsert, píanóröddin er ávallt í forgrunni og alls konar hlaup upp og niður hljómborðið eru afar snúin.

Anna Guðný Guðmundsdóttir lék á píanóið og gerði það afburðavel. Leikur hennar var nákvæmur og tær, líflegur og grípandi. Flóknar tóna­runur léku í höndum hennar, tónahendingarnar voru áleitnar og markvissar, hvergi var dauður punktur. Hinir hljóðfæraleikararnir spiluðu líka fallega, heildarhljómurinn var hlýr og í fínu jafnvægi.

Svipaða sögu er að segja um septett í Es-dúr op. 20 eftir Beethoven. Sept­ettinn er í stíl klassískrar heiðríkju, þar er ekki að finna hina ofsafengnu rómantísku ólgu sem einkennir síðari verk tónskáldsins. Engu að síður er hann skemmtilegur áheyrnar, laglínurnar eru fallegar og stemningin ljúf og þægileg.

Septettinn er ekki auðveldur í flutningi. Töluvert mæddi á fiðluleikaranum Unu Sveinbjarnardóttur, en hún leysti hlutverk sitt prýðilega af hendi. Tónarnir hennar voru fágaðir og einbeittir. Sama má segja um leik hinna hljóðfæraleikaranna, þ. á m. Gríms Helgasonar klarínettuleikara sem var í veigamiklu hlutverki.

Spilamennskan var í heild fagmannleg, túlkunin fjörleg og kröftug, fyllilega í anda Beethovens. Útkoman var ánægjuleg upplifun.

Niðurstaða: Hrífandi tónlist, glæsilegur flutningur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×