Stærsta málið Hörður Ægisson skrifar 1. september 2017 07:00 Gamalkunnugt stef er hafið. Fram undan er umfangsmikil samningalota á vinnumarkaði, ekki hvað síst hjá opinberum starfsmönnum, þar sem 37 kjarasamningar eru lausir í haust. Útlit er fyrir að þar ætli hið opinbera – í enn eitt skiptið – að leiða launaþróun í landinu. Þetta fyrirkomulag er einsdæmi á Norðurlöndum. Afleiðingarnar eru fyrirsjáanlegar. Verkalýðsfélög á almenna markaðinum munu taka mið af þeim samningum sem opinberir kjarahópar munu ná og fara fram á sömu launahækkanir í ársbyrjun 2018. Niðurstaða komandi kjaralotu mun því hafa afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála og hvort það takist að festa í sessi þann stöðugleika – og kaupmátt – sem náðst hefur. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi hefur verðbólga mælst undir markmiði Seðlabankans í 42 mánuði. Það hefur gefið bankanum færi á að lækka vexti þótt bankinn hafi ekki gengið jafn langt og tilefni er til. Efnahagsaðstæður nú um stundir, sem grundvallast einkum á miklum viðskiptaafgangi og þjóðhagslegum sparnaði, eru á flesta mælikvarða einstakar í hagsögunni. Það þýðir samt ekki að það séu engar blikur á lofti. Nánast linnulaus gengisstyrking síðustu misseri og ár og þær miklu launahækkanir sem um var samið 2015 eru farnar að ógna samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Þannig hefur launakostnaður fyrirtækja hækkað um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjum Íslands, mælt í sömu mynt, á undanförnum tveimur árum. Í fyrra var hlutfall launa á Íslandi af landsframleiðslu það hæsta á Norðurlöndum, eða 62,4 prósent. Seðlabankinn hefur sagt að geta innlendra fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti verið „komin að endamörkum“. Frekari hækkun á raungenginu getur því ekki staðist til lengdar líkt og Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði, útskýrði í samtali við Markaðinn í vikunni. „Við getum auðvitað ekki hækkað laun meira og hraðar en aðrar þjóðir. Við getum ekki upp á eigið sjálfdæmi ákvarðað laun á þessari eyju. Þau ráðast af samkeppnisstöðunni. Það er undarlegt að í umræðum um kjaramál hér á landi er eiginlega aldrei minnst á framleiðni eða samkeppnisstöðu okkar. Það mætti halda að launin væru ótengd verðmætasköpun,“ sagði Ásgeir. Öllum mega vera ljós þessi sannindi. Það veit einnig Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, enda þótt hann kjósi nú að segja það vera stefnu sambandsins að taka ekki mið af stöðu hagkerfisins í komandi kröfugerð heldur að krefjast sömu launahækkana og kjararáð ákvarðaði fyrr á árinu. Vonandi verður ekkert af þeim hótunum ASÍ. Að ætla að endurtaka þá aðferðafræði að hækka laun langt umfram framleiðniaukningu er fullreynt. Kaupmáttur launa hefur aukist yfir 15 prósent frá 2015. Launafólk hefur því tekið út kaupmáttaraukningu heils áratugar, sé tekið mið af sögulegu meðaltali, á tveimur árum. Þær miklu launahækkanir sem um var í samið í síðustu kjarasamningum hleyptu ekki verðbólgunni af stað eins og margir óttuðust. Óvenjulegar aðstæður í efnahagslífinu réðu þar hvað mestu um, einkum mikil gengisstyrking og lágt hrávöruverð á alþjóðamörkuðum. Sá leikur verður ekki endurtekinn. Fjármálaráðherra hefur sagt að það sé stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar að varðveita þann mikla kaupmátt sem hefur áunnist á undanförnum árum. Hann hefur auðvitað rétt fyrir sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Hörður Ægisson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Gamalkunnugt stef er hafið. Fram undan er umfangsmikil samningalota á vinnumarkaði, ekki hvað síst hjá opinberum starfsmönnum, þar sem 37 kjarasamningar eru lausir í haust. Útlit er fyrir að þar ætli hið opinbera – í enn eitt skiptið – að leiða launaþróun í landinu. Þetta fyrirkomulag er einsdæmi á Norðurlöndum. Afleiðingarnar eru fyrirsjáanlegar. Verkalýðsfélög á almenna markaðinum munu taka mið af þeim samningum sem opinberir kjarahópar munu ná og fara fram á sömu launahækkanir í ársbyrjun 2018. Niðurstaða komandi kjaralotu mun því hafa afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála og hvort það takist að festa í sessi þann stöðugleika – og kaupmátt – sem náðst hefur. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi hefur verðbólga mælst undir markmiði Seðlabankans í 42 mánuði. Það hefur gefið bankanum færi á að lækka vexti þótt bankinn hafi ekki gengið jafn langt og tilefni er til. Efnahagsaðstæður nú um stundir, sem grundvallast einkum á miklum viðskiptaafgangi og þjóðhagslegum sparnaði, eru á flesta mælikvarða einstakar í hagsögunni. Það þýðir samt ekki að það séu engar blikur á lofti. Nánast linnulaus gengisstyrking síðustu misseri og ár og þær miklu launahækkanir sem um var samið 2015 eru farnar að ógna samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Þannig hefur launakostnaður fyrirtækja hækkað um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjum Íslands, mælt í sömu mynt, á undanförnum tveimur árum. Í fyrra var hlutfall launa á Íslandi af landsframleiðslu það hæsta á Norðurlöndum, eða 62,4 prósent. Seðlabankinn hefur sagt að geta innlendra fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti verið „komin að endamörkum“. Frekari hækkun á raungenginu getur því ekki staðist til lengdar líkt og Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði, útskýrði í samtali við Markaðinn í vikunni. „Við getum auðvitað ekki hækkað laun meira og hraðar en aðrar þjóðir. Við getum ekki upp á eigið sjálfdæmi ákvarðað laun á þessari eyju. Þau ráðast af samkeppnisstöðunni. Það er undarlegt að í umræðum um kjaramál hér á landi er eiginlega aldrei minnst á framleiðni eða samkeppnisstöðu okkar. Það mætti halda að launin væru ótengd verðmætasköpun,“ sagði Ásgeir. Öllum mega vera ljós þessi sannindi. Það veit einnig Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, enda þótt hann kjósi nú að segja það vera stefnu sambandsins að taka ekki mið af stöðu hagkerfisins í komandi kröfugerð heldur að krefjast sömu launahækkana og kjararáð ákvarðaði fyrr á árinu. Vonandi verður ekkert af þeim hótunum ASÍ. Að ætla að endurtaka þá aðferðafræði að hækka laun langt umfram framleiðniaukningu er fullreynt. Kaupmáttur launa hefur aukist yfir 15 prósent frá 2015. Launafólk hefur því tekið út kaupmáttaraukningu heils áratugar, sé tekið mið af sögulegu meðaltali, á tveimur árum. Þær miklu launahækkanir sem um var í samið í síðustu kjarasamningum hleyptu ekki verðbólgunni af stað eins og margir óttuðust. Óvenjulegar aðstæður í efnahagslífinu réðu þar hvað mestu um, einkum mikil gengisstyrking og lágt hrávöruverð á alþjóðamörkuðum. Sá leikur verður ekki endurtekinn. Fjármálaráðherra hefur sagt að það sé stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar að varðveita þann mikla kaupmátt sem hefur áunnist á undanförnum árum. Hann hefur auðvitað rétt fyrir sér.