Sport

Del Potro sló út Federer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Federer og Del Potro takast í hendur í nótt.
Federer og Del Potro takast í hendur í nótt. Vísir/Getty
Roger Federer er úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis en hann tapaði fyrir Juan Martin del Potro í sannkölluðum trylli í New York í nótt.

Del Potro vann fyrsta settið eftir upphækkun, 7-5, en Federer svaraði með því að vinna það næsta, 6-3.

Del Potro vann næstu tvö og tryggði sér þar með sigurinn. Aftur þurfti upphækkun í þriðja setti en hann vann það, 7-6. Síðasta settið vann Argentínumaðurinn 6-4.

Aðeins tveimur sólarhringum áður hafði Del Potro lent í maraþonviðureign gegn Dominic Thiem, þar sem hann hafði betur í fimm settum.

Hann mætir næst Rafael Nadal, efsta manni heimslistans, en þar með er ljóst að enn verður bið á því að þeir Nadal og Federer mætist á opna bandaríska. Það hefur aldrei gerst þrátt fyrir að þeir hafi báðir verið í fremstu röð í meira en áratug.

Del Potro hefur einu sinni unnið stórmót í tennis en það var á Opna bandaríska árið 2009 eftir sigur á Federer í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×