Sport

Geng mjög sátt frá þessu móti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanney með silfurmedalíuna.
Fanney með silfurmedalíuna.
Fanney Hauksdóttir vann til silfurverðlauna í 63 kg flokki kvenna á Evrópumótinu í klassískri bekkpressu um helgina. Mótið fór fram í Ylitornio í Finnlandi.

Fanney byrjaði á því að lyfta 110 kg næsta auðveldlega. Í annarri tilraun lyfti hún 112,5 kg og bætti í leiðinni eigið Íslandsmet.

Hin ungverska Zsanett Palagy lyfti einnig 112,5 kg á lægri líkamsþyngd. Fanney ákvað því að reyna að lyfta 115 kg til að næla sér í gullverðlaunin. Það gekk því miður ekki og Seltirningurinn varð því að sætta sig við silfurmedalíu.

„Ég er mjög ánægð. Maður getur ekki verið annað en sáttur með 2,5 kg bætingu,“ sagði Fanney í samtali við Fréttablaðið í gær. Hún neitar því þó ekki að hún hefði viljað ná gullinu.

„Ég viðurkenni að það er svolítið svekkjandi að lyfta sömu þyngd og sú sem tók gullið en ég var 400 grömmum þyngri og fékk því silfrið,“ sagði Fanney sem varð heimsmeistari í klassískri bekkpressu í fyrra.

„Svona eru bara íþróttir. Ég geng samt mjög sátt frá þessu móti og er spennt að halda áfram undirbúningi fyrir það næsta,“ sagði Fanney að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×