Gott Evrópukvöld hjá Liverpool í Þýskalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold fagnar marki sínu.
Trent Alexander-Arnold fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Liverpool steig í kvöld stórt skref í átt að riðlakeppni Meistaradeildarinnar með 2-1 útisigri á Hoffenheim í fyrri leik liðanna í umspilinu um laust sæti í Meistaradeildinni.

Hinn átján ára gamli Trent Alexander-Arnold skoraði fyrra markið og það seinna var sjálfsmark eftir að skot reynsluboltans James Milner fór af varnarmanni og datt í markið.

Það stefndi í frábæran tveggja marka sigur Liverpool en Hoffenheim á von eftir að liðið skoraði dýrmætt mark undir lokin.

Hoffenheim minnkaði muninn í lokin og setti pressu á Liverpool undir lokin. Enska liðið slapp með skrekkinn og fer með sigur aftur til Englands.

Seinni leikurinn fer fram á Anfield í næstu viku en Liverpool hefur ekki bara eins marks forskot heldur skoraði liðið líka tvö mikilvæg útivallarmörk.

Þetta hefði getað farið mun verr en belgíski markvörðurinn Simon Mignolet varði víti frá Andrej Kramaric strax á 12. mínútu.

Trent Alexander-Arnold kom Liverpool í 1-0 á 35. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið og kom það í hans fyrsta Evrópuleik.

James Milner kom inná sem varamaður fyrir Jordan Henderson á 63. mínútu og tók um leið við fyrirliðabandinu.

Milner var maðurinn á bak við það að koma Liverpool í 2-0 ellefu mínútum síðar þegar fyrirgjöf hans fór af varnarmanni og datt niður í fjærhornið. Roberto Firmino hafði spilað Milner í góða stöðu með sniðugri sendingu.

Markið skráist sem sjálfsmark hjá Norðmanninum Håvard Nordtveit enda hefði fyrirgjöf Milner ekki farið í markið án hjálpar hans.

Liverpool virtist vera að landa tveggja marka sigri þegar varamaðurinn Mark Uth skoraði með frábærri afgreiðslu. Håvard Nordtveit bætti fyrir sjálfsmarkið með flottri stoðsendingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira