Lífið

 Pelé er bestur og ég er með six-pack

Magnús Guðmundsson skrifar
Arngrímur Stefánsson sýnir ljósmyndara hvernig hann og Pelé gera þetta.
Arngrímur Stefánsson sýnir ljósmyndara hvernig hann og Pelé gera þetta. Visir/Laufey
Arngrímur Stefánsson er einn af fjölmörgum krökkum sem hefja sína grunnskólagöngu í haust en í sumar hefur hann haft í ýmsu að snúast enda fádæma kraftmikill og hress strákur. Arngrímur segist vera fimm ára gamall en að hann verði sex ára þann 18. september og að hann sé farinn að hlakka mikið til.

En hvað er Arngrímur búinn að vera að gera í sumar?

Ég fór í sumarbústað rétt hjá Egilsstöðum og líka til Akureyrar þar sem við fórum í sund.

Arngrímur á tvo eldri bræður, þá Eirík og Bjart, svo það er oft mikið fjör. En eru þeir ekki búnir að skemmta sér vel í sumar?



Jú, það er búið að vera mjög gaman. Það var samt skemmtilegast að fara til Egilsstaða og í sund á Akureyri. En svo horfði ég líka svona milljón sinnum á Svampur Sveinsson númer tvö sem er uppáhaldsmyndin mín af því að hún er svo rosalega skemmtileg.

Arngrímur æfir stundum fótbolta með Þrótti og hann ætlar að vera duglegur að æfa næsta vetur.

Ég er mjög góður í fótbolta og uppáhalds fótboltamaðurinn minn er Pelé af því að hann er svo rosalega góður í fótbolta. Þess vegna reyni ég líka að gera eins og Pelé. Hann er bestur.

En ertu mikið fyrir að hreyfa þig og æfa fótbolta úti í garði?

Já, ég er oft að æfa mig. Ég er líka kominn með six-pack vegna þess að ég er að æfa fótbolta og ég æfi mig mjög mikið.

En ertu ekki að fara að byrja í skólanum í haust?

Jú, og ég er búinn að fá mjög flotta skólatösku. Í skólanum ætla ég að læra stærðfræði, læra að lesa og skrifa og vera úti í frímínútunum. Ég hlakka mikið til, alveg sérstaklega að leika mér í frímínútunum. 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.