Einhvers staðar í Hvítá Guðmundur Andri Thorsson skrifar 24. júlí 2017 07:00 Einhvers staðar í Hvítá eru jarðneskar leifar ungs manns frá Georgíu. Hann hét Nika Begades og hann féll í Gullfoss sama daginn og Útlendingastofnun tilkynnti að Georgía væri „öruggur staður“.Öxlum ypptVið þekkjum ekki sögu hans. Hann var 22 ára, hælisleitandi eins og við köllum fólk sem hingað kemur í leit að öryggi og betri tilveru. Þegar þetta er skrifað á sunnudagsmorgni finn ég ekkert um þennan mann á internetinu. Við vitum ekki hvað olli því að hann fór í fossinn. Skrikaði honum fótur? Stökk hann? Vildi hann farga sér? Vildi hann nýtt líf? Hvernig var honum innanbrjósts? Hvað hugsaði hann? Hver var bakgrunnur hans? Langar engan að vita neitt meira um Nika Bedades sem fékk ekki að verða samlandi okkar? Sennilega ekki. Forvitni íslenskra fjölmiðla virðist ekki hafa vaknað út af afdrifum hans, og þeir láta nægja að birta stuttaralegar umsagnir lögreglu um að „ekkert bendi til að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða“ og að „leit sé hætt“. Viðbrögð fjölmiðla líkjast því að öxlum sé yppt. Við höfum séð myndir af Nika Begades úr öryggismyndavél við Gullfoss. Hann er grannur, svartklæddur, snyrtilegur ungur maður og gengur alvarlegur og einbeittur á svip á vit örlaga sinna. Við vitum ekkert um hann, líf hans, hugsanir, afdrif. Við vitum bara hitt: það er illa komið fram við þá sem sækjast eftir landvist hér, og eru ekki starfsmenn hjá vinnumiðlunum eða koma frá evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk yfirvöld virðast leggja sig í líma við að gera hælisleitendum lífið sem óbærilegast meðan þeir bíða eftir úrslitum í málum sínum. Nánast er eins og sé verið að reyna að rækta með þeim andfélagsleg viðhorf og andúð á Íslendingum. Þetta kemur fram í aðbúnaði sem þeir búa við þar sem þeir kúldrast í endalausu hangsi yfir engu. Þetta er uppskrift að ósköpum: Safnaðu saman mörgum fullfrískum karlmönnum á einn stað, hafðu hann sem óvistlegastan, sjáðu til þess að þeir hafi ekkert við að vera, fylltu daga þeirra af leiðindum, vonleysi og endalausri bið…HælisneitendurVið Íslendingar erum hælisneitendur. Við höfum tekið okkur upphafsstöðu í neituninni. Við stöndum í nei-inu og spyrjum: Af hverju ætti ég að segja já? – í stað þess að standa í já-inu og spyrja: Af hverju ætti ég að segja nei? Á ég að gæta bróður míns? Nei, ekki ef hann er útlendingur. Þá getur hann átt sig. Við förum í manngreinarálit eftir því hvaðan fólk kemur, dæmum það eftir upprunalandi en ekki persónulegum eiginleikum. Við beitum þannig markvissum fordómum og fólk sem hér vill búa þarf að afsanna þá fyrirframgefnu forsendu að það sé hroðalegar manneskjur sem hafi illt í hyggju. Það þarf að sanna með óyggjandi hætti að sér sé hvergi vært annars staðar í víðri veröld og að það sé framúrskarandi gott fólk, gott ef ekki heilagar manneskjur. Takist fólki að sýna fram á þetta tvennt getur það átt von á þeirri umbun – yfirleitt á elleftu stundu og eftir ærinn þrýsting frá almenningi – að eiga þess kost að búa hér á þessu kalda og dimma landi. Hér er slíkri landvist deilt út eins og náðun hjá dyntóttum harðstjóra. En yfirleitt er svarið nei. Við látum eins og það sé saknæmt í sjálfu sér að sækjast eftir búsetu hér. Það er ekki talin góð og gild ástæða að langa til að búa við betri lífskjör en maður gerir þegar, meiri friðsæld kringum sig – betra líf. Við látum eins og þetta séu annarlegar ástæður, og önsum ekki öðru en ofsóknum í heimalandinu. Þarf þetta að vera svona? Væri hugsanlega hægt að slaka ögn á þessum stífu aðgangshömlum og láta duga að sjá hvort og hvernig fólk spjarar sig þegar hingað er komið; hvort það fær vinnu og hvernig það stendur sig í henni – og það sem er kannski aðalatriðið: hvernig því líður hér, hvort það getur fest hér yndi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að hér sé auðvelt að búa, hvað sem líður efnahagslegum forsendum: veðrið, myrkrið, íslenskir samskiptahættir… Stórfelldir fólksflutningar til Íslands eru ekki einu sinni vandamál; hér vantar vinnufúsar hendur. Óneitanlega hvarflar að manni að ósagðar og óræddar forsendur fyrir þessum ósýnilega múr við landamæri landsins kunni að liggja í einhvers konar hugmynd um hreinleika íslensku þjóðarinnar sem þurfi að varðveita. Vissulega ber okkur að standa vörð um eitt og annað í íslenskum menningararfi en hitt er í sjálfu sér endaleysa að Íslendingar hafi einhvern tímann verið „hreinir“ eða séu endanlegt samsafn eiginleika, eigi sér skýrt upphaf. Við erum samsafn af allra þjóða kvikindum, blanda af landnámsfólki, og höfum alltaf verið, og nýir og nýir aðkomumenn blönduðust – eða blönduðust ekki – því að þjóðin hefst í sjálfu sér hvergi eða endar, er ekki til í endanlegri mynd. Þjóðir eru eiginlega eins og vatnið, eins og sístreymandi fljótið, já eins og Hvítá sem rennur um flúðir sínar og geymir einhvers staðar Nika Begades, ungan mann sem hélt hann væri kominn á „öruggan stað“. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Einhvers staðar í Hvítá eru jarðneskar leifar ungs manns frá Georgíu. Hann hét Nika Begades og hann féll í Gullfoss sama daginn og Útlendingastofnun tilkynnti að Georgía væri „öruggur staður“.Öxlum ypptVið þekkjum ekki sögu hans. Hann var 22 ára, hælisleitandi eins og við köllum fólk sem hingað kemur í leit að öryggi og betri tilveru. Þegar þetta er skrifað á sunnudagsmorgni finn ég ekkert um þennan mann á internetinu. Við vitum ekki hvað olli því að hann fór í fossinn. Skrikaði honum fótur? Stökk hann? Vildi hann farga sér? Vildi hann nýtt líf? Hvernig var honum innanbrjósts? Hvað hugsaði hann? Hver var bakgrunnur hans? Langar engan að vita neitt meira um Nika Bedades sem fékk ekki að verða samlandi okkar? Sennilega ekki. Forvitni íslenskra fjölmiðla virðist ekki hafa vaknað út af afdrifum hans, og þeir láta nægja að birta stuttaralegar umsagnir lögreglu um að „ekkert bendi til að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða“ og að „leit sé hætt“. Viðbrögð fjölmiðla líkjast því að öxlum sé yppt. Við höfum séð myndir af Nika Begades úr öryggismyndavél við Gullfoss. Hann er grannur, svartklæddur, snyrtilegur ungur maður og gengur alvarlegur og einbeittur á svip á vit örlaga sinna. Við vitum ekkert um hann, líf hans, hugsanir, afdrif. Við vitum bara hitt: það er illa komið fram við þá sem sækjast eftir landvist hér, og eru ekki starfsmenn hjá vinnumiðlunum eða koma frá evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk yfirvöld virðast leggja sig í líma við að gera hælisleitendum lífið sem óbærilegast meðan þeir bíða eftir úrslitum í málum sínum. Nánast er eins og sé verið að reyna að rækta með þeim andfélagsleg viðhorf og andúð á Íslendingum. Þetta kemur fram í aðbúnaði sem þeir búa við þar sem þeir kúldrast í endalausu hangsi yfir engu. Þetta er uppskrift að ósköpum: Safnaðu saman mörgum fullfrískum karlmönnum á einn stað, hafðu hann sem óvistlegastan, sjáðu til þess að þeir hafi ekkert við að vera, fylltu daga þeirra af leiðindum, vonleysi og endalausri bið…HælisneitendurVið Íslendingar erum hælisneitendur. Við höfum tekið okkur upphafsstöðu í neituninni. Við stöndum í nei-inu og spyrjum: Af hverju ætti ég að segja já? – í stað þess að standa í já-inu og spyrja: Af hverju ætti ég að segja nei? Á ég að gæta bróður míns? Nei, ekki ef hann er útlendingur. Þá getur hann átt sig. Við förum í manngreinarálit eftir því hvaðan fólk kemur, dæmum það eftir upprunalandi en ekki persónulegum eiginleikum. Við beitum þannig markvissum fordómum og fólk sem hér vill búa þarf að afsanna þá fyrirframgefnu forsendu að það sé hroðalegar manneskjur sem hafi illt í hyggju. Það þarf að sanna með óyggjandi hætti að sér sé hvergi vært annars staðar í víðri veröld og að það sé framúrskarandi gott fólk, gott ef ekki heilagar manneskjur. Takist fólki að sýna fram á þetta tvennt getur það átt von á þeirri umbun – yfirleitt á elleftu stundu og eftir ærinn þrýsting frá almenningi – að eiga þess kost að búa hér á þessu kalda og dimma landi. Hér er slíkri landvist deilt út eins og náðun hjá dyntóttum harðstjóra. En yfirleitt er svarið nei. Við látum eins og það sé saknæmt í sjálfu sér að sækjast eftir búsetu hér. Það er ekki talin góð og gild ástæða að langa til að búa við betri lífskjör en maður gerir þegar, meiri friðsæld kringum sig – betra líf. Við látum eins og þetta séu annarlegar ástæður, og önsum ekki öðru en ofsóknum í heimalandinu. Þarf þetta að vera svona? Væri hugsanlega hægt að slaka ögn á þessum stífu aðgangshömlum og láta duga að sjá hvort og hvernig fólk spjarar sig þegar hingað er komið; hvort það fær vinnu og hvernig það stendur sig í henni – og það sem er kannski aðalatriðið: hvernig því líður hér, hvort það getur fest hér yndi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að hér sé auðvelt að búa, hvað sem líður efnahagslegum forsendum: veðrið, myrkrið, íslenskir samskiptahættir… Stórfelldir fólksflutningar til Íslands eru ekki einu sinni vandamál; hér vantar vinnufúsar hendur. Óneitanlega hvarflar að manni að ósagðar og óræddar forsendur fyrir þessum ósýnilega múr við landamæri landsins kunni að liggja í einhvers konar hugmynd um hreinleika íslensku þjóðarinnar sem þurfi að varðveita. Vissulega ber okkur að standa vörð um eitt og annað í íslenskum menningararfi en hitt er í sjálfu sér endaleysa að Íslendingar hafi einhvern tímann verið „hreinir“ eða séu endanlegt samsafn eiginleika, eigi sér skýrt upphaf. Við erum samsafn af allra þjóða kvikindum, blanda af landnámsfólki, og höfum alltaf verið, og nýir og nýir aðkomumenn blönduðust – eða blönduðust ekki – því að þjóðin hefst í sjálfu sér hvergi eða endar, er ekki til í endanlegri mynd. Þjóðir eru eiginlega eins og vatnið, eins og sístreymandi fljótið, já eins og Hvítá sem rennur um flúðir sínar og geymir einhvers staðar Nika Begades, ungan mann sem hélt hann væri kominn á „öruggan stað“.