Lífið

Get alltaf leitað í hlaupin

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jón Sverrir ætlar að safna fé fyrir félagið Einstök börn í Reykjavíkurmaraþoninu.
Jón Sverrir ætlar að safna fé fyrir félagið Einstök börn í Reykjavíkurmaraþoninu. Vísir/Eyþór
Jón Sverrir Árnason er að reima á sig hlaupaskóna og í þann veginn að taka á sprett. Hann æfir fyrir Reykjavíkurmaraþonið og ætlar að leggja þar 10 kílómetra að baki. Hann er nýorðinn 13 ára, á afmæli 28. júní.

En af hverju ætlar hann að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu?

Af því að mér finnst gaman að hlaupa og langaði að þakka félaginu Einstökum börnum fyrir allt sem það hefur gert fyrir mig, bróður minn og mömmu og pabba.

Hefur þú tekið þátt áður?

Já, nokkrum sinnum og það hefur alltaf verið jafn gaman. Ég safnaði 363.000 í fyrra fyrir félagið Einstök börn og núna langar mig að ná 750.000.

Af hverju styrkir þú Einstök börn?

Ég og bróðir minn erum með mjög sjaldgæfan, genatengdan og meðfæddan ónæmisgalla sem heitir CVID og ég er líka með mjög sjaldgæfan húðsjúkdóm sem heitir EAC.

En ert hlaupagikkur samt!

Já, mér finnst svakalega gaman að hlaupa og get alltaf leitað í hlaupin þó ég sé búinn að vera lasinn?

Setur þú þér ákveðin markmið í maraþoninu?

Ég vil komast í mark á innan við klukkustund.

Ætlar þú að hlusta á tónlist á leiðinni?

Já, mér finnst það hjálpa mér að halda einbeitingu.



Hvernig tónlist er í uppáhaldi hjá þér?

Bara alls konar, ég hlusta á flest.



Hvað gerir þú helst í frístundum, annað en hlaupa?

Spila körfubolta eða hjóla með vinum mínum, svo æfi ég badminton.



Ætlar þú að flakka eitthvað í sumar?

Ég verð nánast hverja helgi á Flúðum í sumar í útilegu. Pabbi minn og konan hans, Gerður, eru með hjólhýsi þar og amma mín og afi líka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×