Tónlist

Hefðu líklega aldrei getað rambað á fullkomnara samstarf

Guðný Hrönn skrifar
Jakob Frí­mann og Printz Board munu halda uppi stuðinu ásamt fleirum á Secret Solstice í kvöld.
Jakob Frí­mann og Printz Board munu halda uppi stuðinu ásamt fleirum á Secret Solstice í kvöld. VÍSIR/ANTON BRINK
Upptökustjórinn og tónlistarmaðurinn Printz Board, sem unnið hefur með The Black Eyed Peas, John Legend, Fergie og fleirum, verður Stuðmönnum til halds og trausts í atriði þeirra á Secret Solstice-hátíðinni í dag. Þar verður áhorfendum gefin innsýn í nýjan tónlistarheim sem Printz og Stuðmenn hafa unnið með undanfarið undir yfirskriftinni Polar Beat.

„Polar Beat er ný íslensk tónlistarstefna sem kynnt verður til leiks í fyrsta sinn annað kvöld,“ segir Jakob Frímann Magnússon, einn meðlimur Stuðmanna.

Polar Beat byggir á aðferð sem bændur notuðu til að halda á sér hita forðum daga að sögn Jakobs. „Þetta hefst nú sennilega með því að bændur á miðöldum og sennilega fyrr, allt frá landnámi, byrjuðu að berja sér til hita með tilheyrandi hljóðum og þeir taktföstustu börðu þannig að úr varð tónlist.“

Hann segir mannslíkamann gegna lykilhlutverki í Polar Beat-stefnunni en í henni er líkaminn notaður sem slagverkshljóðfæri.

„Mannslíkaminn getur framkallað eiginlega allt litróf hljóðanna og það er grunnurinn í þessari stefnu. Að nota dýrðlegasta og fullkomnasta hljóðfæri sem skapað hefur verið á þessari jörðu sem þýðingarmikinn tóngjafa.“

Á tónleikunum verða svo takt­kjaftar eða „beatboxarar“ sveitinni til halds og trausts, ásamt öðrum. „Þeir munu beita sinni tungulipurð og tanngörðum við hljóðmyndun af ýmsum toga.“

Eins og áður sagði verður Printz Board á svæðinu en Jakob segir samstarfið á milli Printz og Stuðmanna hafa gengið eins og í sögu. „Hann hefur verið með okkur í að þróa þetta og taka þetta fastari tökum. Við hefðum að líkindum aldrei getað rambað á fullkomnara samstarf fyrir þetta teymi. Það er bara eins og hjörtun hafi slegið sem eitt, sitthvorum megin á hnattkúlunni,” útskýrir Jakob sem segir Printz vera mikinn meistara þegar kemur að taktsköpun.

Þess má geta að tónleikarnir hefjast klukkan 21.10 á morgun á Valhallarsviðinu. „Þetta er ákveðið áhættuatriði, því sumt af því sem þarna verður flutt er skrifað, útfært og flutt en annað verður samið á staðnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×