Glamour

Jennifer Berg: Lambakórónur með tómatrisotto og parmesanflögum

Kæru lesendur, kynnist nýja Glamkokkinum okkar, hinni hæfileikaríku Jennifer Berg. Ástríðukokkur frá blautu barnsbeini, fædd og uppalin í bænum Borås í Svíþjóð, pabbi hennar er sænskur en mamma taílensk. Jennifer elti kærastann til Íslands fyrir tveimur árum og eru þau búsett í vesturbæ Reykjavíkur með franska bolabítnum Knúti.

„Ég hef mikla ástríðu fyrir mat og elska að vera í eldhúsinu að prófa nýja rétti og halda matarboð heima fyrir vini eða fjölskyldu. Einnig hef ég mikinn áhuga á því að taka fínar myndir af matnum sem ég bý til. Þess vegna finnst mér það ekki síður mikilvægt að maturinn líti vel út á disknum en að hann sé góður á bragðið,“ segir Jennifer en hún heldur einnig úti bloggi á Trendnet.is þar sem hægt er að fylgjast með lífi hennar, fyrir framan og aftan myndavélina. 

Hér töfrar hún fram unaðslegar lambakórónur með risotto. 

Öll hráefnin má nálgast á Boxið, þar sem hægt er að panta vörur beint heim. 

Hvítlauks- og jurtalambakórónur með tómatrisotto og parmesanflögum



Innihald: (fyrir 4)

900 g lambakórónur

Marinering

1/2 dl ólífuolía

4 pressaðir hvítlauksgeirar

1/2 dl hökkuð, fersk steinselja

2 msk. ferskt timjan

Salt og pipar

Tómatrisotto

4 dl arborio-hrísgrjón

3 msk. ólífuolía

1/2 rauðlaukur, fínhakkaður

1 hvítlauksgeiri, fínhakkaður

2 dl þurrt hvítvín

12 dl kjúklinga- eða grænmetissoð

3 msk. tómatpúrra

2 dl rifinn parmesanostur

2 msk. smjör

2 dl rifinn parmesanostur fyrir parmesanflögurnar

Leiðbeiningar:

  1. Lambakórónur: Blandið saman hráefnunum fyrir marineringuna í litla skál. Leggið lambakórónurnar í stærri skál, hellið marineringunni yfir og nuddið henni vel inn í kjötið. Leggið plastfilmu yfir skálina og leggið inn í ísskáp í 6 til 18 klukkutíma. Áður en lambið er eldað, látið það standa við stofuhita í 30 mínútur.
  2. Hitið stóra pönnu á meðalháum hita. Bætið við smjöri og ólífuolíu og þegar olían er orðin heit leggið þið lambið á pönnuna og steikið í 3-4 mínútur á hverri hlið eða eftir því hversu vel steikt þið viljið hafa kjötið.
  3. Parmesanflögur: Hitið ofninn upp í 200 gráður. Takið fram ofnplötu með bökunarpappír og breiðið úr rifna parmesanostinum, svo úr verði fínt lag. Eldið í ofninum í 5-8 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður, passið að brenna ekki ostinn. Látið ostinn kólna og brjótið hann svo niður með höndunum í mátulega stóra bita.
  4. Tómatrisotto: Hitið soðið upp í potti á meðalháum hita. Þið viljið að soðið sé heitt áður en þið bætið því út í risottoið.
  5. Steikið rauðlaukinn og hvítlaukinn í ólífuolíu í öðrum potti, á meðalháum hita í u.þ.b. 3 mínútur, laukarnir eiga ekki að fá neinn lit.
  6. Bætið hrísgrjónunum út í pottinn með laukunum. Steikið hrísgrjónin í 3-5 mínútur á meðan þið hrærið.
  7. Bætið hvítvíninu út í. Blandið og hrærið og leyfið hvítvíninu að sjóða niður.
  8. Hellið út í 4 dl af soði og hrærið allan tímann þangað til soðið hefur náð að sjóða niður. Endurtakið þetta skref nema með 1 dl af soði þangað til hrísgrjónin eru klár. Þetta ætti að taka u.þ.b. 15 mínútur.
  9. Þið viljið ekki að hrísgrjónin verði of mjúk svo að þau verði ekki að graut.
  10. Þegar hrísgrjónin eru klár, takið pottinn af hellunni og bætið við tómatpúrru, smjöri og parmesanosti og blandið saman. Smakkið til með salti og pipar.

    Berið fram með lambakórónum og parmesanflögum. 






×