Lífið

Anderson .Paak kemur fram inni í Langjökli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Undanfarin tvö ár hefur Secret Solstice-tónlistarhátíðin haldið eina partí heimsins inn í jökli í samstarfi við Into the Glacier. Gestir eru þá leiddir undir yfirborð Langjökuls í gegnum íshelli þar sem þeir fá að hlusta á heimsklassa tónlistarmenn ásamt því að verða vitni að hinum „bláa ís“ sem er falinn djúpt undir yfirborðinu.

Síðustu ár hafa tónlistarmenn á borð við Totally Enormous Extinct Dinosaurs, Artwork, Högni og fleiri spilað í jöklinum en í ár verður það bandaríski rapparinn Anderson .Paak sem kemur til með að leiða partíið.

Anderson .Paak er rísandi stjarna í hip hop heiminum en eftir að hafa gefið út plötuna The Compton árið 2015 skrifaði hann undir plötusamning við útgáfufyrirtæki Dr. Dre, Aftermath Entertainment.

Seinasta plata hans, Malibu, kom út árið 2016 og var tilnefnd sem besta „urban contemporary” plata og hann sjálfur tilnefndur sem besti nýji listamaðurinn á seinustu Grammy-hátíð. Tónlistinni hans hefur verið lýst sem hlýrri blöndi af hip hopi, R&B og fönki með mikið af sál en hann hefur verið borinn saman við ýmsar goðsagnir úr tónlistarbransanum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×