Lífið

Vilhjálmur Bretaprins: „Við Harry höfum ekki talað nóg um móður okkar í gegnum árin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur, Katrín og Harry taka núna þátt í herferð til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum í Bretlandi.
Vilhjálmur, Katrín og Harry taka núna þátt í herferð til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum í Bretlandi. vísir/getty
Þeir Vilhjálmur Bretaprins og bróðir hans Harry eru á einlægu nótunum í myndbandi sem birt var á Twitter-síðu Kensington-hallar í dag en þar ræða þeir geðheilbrigðismál ásamt Katrínu hertogaynju, eiginkonu Vilhjálms.

Myndbandið er hluti af herferð og vitundarvakningu um geðheilbrigðismál sem þau þrjú taka þátt í þessi misserin en í myndbandinu ræða þau meðal annars móðurmissi þeirra Vilhjálms og Harry. Díana prinsessa lést í bílslysi í ágúst 1997 þegar prinsarnir voru 13 ára og 15 ára.

„Ef maður hugsar um allt sem þið strákarnir hafið gengið í gegnum og áfallið sem þið urðuð fyrir [...] þá finnst mér ótrúlegt hversu sterkir þið eruð og hvernig þið hafið getað tekist á við þetta. Fyrir mér þá er það út af barnæsku ykkar en líka út af því hversu nánir þið eruð,“ segir Katrín við bræðurna í myndbandinu.

Vilhjálmur svarar þá að þeir séu nánir einmitt vegna þess sem þeir hafa gengið í gegnum.

„Við bindumst einstökum böndum út af því sem við höfum gengið í gegnum en við Harry höfum ekki talað nóg um móður okkar í gegnum árin,“ segir Vilhjálmur og Harry tekur undir það.

Katrín spyr þá síðan hvort að þátttakan í herferðinni hafi opnað augu þeirra fyrir því að þeir hafi ekki talað nægilega mikið um mömmu sína. Harry svarar því játandi:

„Ég hugsaði alltaf með mér hver væri tilgangurinn að rifja upp fortíðina, að rifja upp eitthvað sem gerir þig aðeins leiðan, breytir engu og lætur mömmu ekki koma til baka.“

Myndbandið má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.