Lífið

Gekk inn kirkjuna undir StarWars-laginu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Íris Fjóla fékk nýtt rúm í herbergið sitt í fermingargjöf.
Íris Fjóla fékk nýtt rúm í herbergið sitt í fermingargjöf. Vísir/Ernir
Íris Fjóla Friðriksdóttir kveðst hafa hlakkað til fermingardagsins í tvö ár.

Hvernig leið henni svo þegar að honum kom? Vel, mér fannst fermingarathöfnin notaleg stund og líka skemmtilegt og fyndið að við gengum inn kirkjuna undir StarWars-laginu.

Tókstu undir í sálmunum? Ég fylgdist með þeim á blaðinu, en söng með í „Hallelúja“ eftir Leonard Cohen.

Hvaða ritningarorð valdir þú að fara með? Ég valdi Gullnu regluna, „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“. Mér fannst þau tengjast mér best.

Tókstu eftir einhverju sem presturinn sagði? Já, ég man sérstaklega eftir því að Pálmi sagði: „Ekki hætta að vera börn þó að þið séuð talin vera komin í fullorðinna manna tölu.“

Komu gestir til þín á eftir? Já, það komu góðir gestir og héldu upp á daginn með mér. Það var gaman. Ég bjó til Kahoot-spurningaleik um mig og gestirnir kynntust mér enn betur.

Einhverjar gjafir? Ég fékk rúm, sjónvarp, hægindastól, þrjár ferðatöskur, rúmföt og margt annað fallegt.

Var eitthvað „best“ við daginn? Ég veit ekki hvort það var eitthvað eitt best. Mér leið bara vel allan daginn og var ánægð þegar ég fór að sofa.

Hvert er helsta áhugamálið? Handbolti.

Ertu farin að skipuleggja sumarið? Ég hlakka til sumarsins. Ég fer í keppnisferð til Danmerkur með handboltaliðinu og til Ameríku með frænku minni. Svo ætla ég með fjölskyldunni hringinn í kringum landið. Við förum að veiða, ég elska að veiða á stöng.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.