Íslenski boltinn

Pepsi-spáin: Stjarnan hafnar í 4. sæti

Íþróttadeild 365 skrifar
Vísir/Ernir
Íþróttadeild 365 telur niður í Pepsi-deild karla með árlegri spá sinni. Íslandsmótið hefst 30. apríl en þar á FH titil að verja eftir að hafa orðið meistari í áttunda sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild 365 spáir Stjörnunni 4. Pepsi-deildarinnar í ár sem er tveimur sætum neðar en liðið endaði í fyrra. Stjarnan byrjaði vel og endaði enn betur með því að vinna síðustu fjóra leikina og þannig næla sér í silfrið og Evrópusæti. Þess á milli var lítið að frétta hjá Stjörnumönnum sem virtist vera á öðru ári í þynnku eftir að verða meistarar án þess að tapa leik árið 2014.

Þjálfari Stjörnunnar er Rúnar Páll Sigmundsson en hann tók við liðinu fyrir sumarið 2014 og gerði það að Íslandsmeistara í fyrsta sinn á sínu fyrsta ári sem þjálfari þess. Rúnar hefur ekki náð að fylgja árangrinum eftir með stöðugri frammistöðu Stjörnuliðsins en endaspretturinn í fyrra var þó góður og Garðbæingar verða í Evrópu þriðja árið í röð í sumar.

Mögulegt byrjunarlið
Garðbæingar fá þrjá útileiki og tvo heimaleiki í fyrstu fimm umferðunum og dagskráin lítur bara nokkuð vel út. Þeir bláu ættu að geta halað inn slatta af stigum sem er mikilvægt til að lenda ekki strax í eltingaleik eins og í fyrra.

Stjarnan mætir báðum nýliðunum í fyrstu fimm umferðunum og fær svo álitlega leiki á móti ÍBV og Fjölni sem báðum er spáð verra gengi en Garðabæjarliðinu. Erfiðasti leikurinn á pappírunum er útileikur á móti Breiðabliki í þriðju umferð en í heildina ætti Stjarnan að safna mikið af stigum í maí.

01. maí: Grindavík – Stjarnan, Grindavíkurvöllur

07. maí: Stjarnan – ÍBV, Samsung-völlurinn

14. maí: Breiðablik – Stjarnan, Kópavogsvöllur

21. maí: Stjarnan – KA, Samsung-völlurinn

28. maí: Fjölnir – Stjarnan, Extra-völlurinn

Þrír sem Stjarnan treystir á
Daníel Laxdal: Miðvörðurinn uppaldi fór með Stjörnunni úr 2. deildinni og alla leið að Íslandsmeistaratitlinum en hann er algjör leiðtogi í liðinu og gríðarlega vinsæll fyrir utan að vera góður varnarmaður. Varnarleikur Stjörnunnar hefur farið niður á við síðustu tvö tímabil en liðið fékk á sig 31 mark í fyrra sem er alltof mikið. Daníel þarf að binda nýja vörn saman því í hana eru komnir tveir nýir menn.

Hilmar Árni Halldórsson: Breiðhyltingurinn fór á kostum með fallliði Leiknis fyrir tveimur árum og tók sinn leik upp á næsta þrep í fyrra þar sem hann var nánast allt mótið eini maðurinn með lífsmarki hjá Stjörnunni. Það gerðist nánast ekkert hjá Garðbæingum ef hann kom ekki að því og á undirbúningstímabilinu í vetur hefur hann sýnt sömu gæði og sama mikilvægi fyrir liðið. Auðvelt er að fullyrða að Hilmar Árni sé besti leikmaður deildarinnar í föstum leikatriðum en hornspyrnur hans eru til dæmis stórhættulegar.

Baldur Sigurðsson: Smalinn úr Mývatnssveitinni er einn allra besti leikmaður deildarinnar og mikill leiðtogi á velli. Hann var svolítið mikið meiddur á síðustu leiktíð og sást það alveg á Stjörnuliðinu þegar hann vantaði. Baldur er óþreytandi og sterkur í vítateig mótherjanna en þetta er leikmaðurinn sem Garðbæingar þurfa að hafa inn á vellinum helst allt mótið ef þeir ætla að eiga mögulega á Íslandsmeistaratitlinum.

Nýstirnin

Dagur og Máni Austmann Hilmarssynir eru tvíburar sem eru uppaldir í Stjörnunni en þeir fluttu fyrir fjórum árum til Danmerkur með foreldrum sínum.

Í Danmörku spilaði Dagur Austmann með AB en Máni Austmann var í unglingaliði FCK. Þetta eru gríðarlega efnilegir 18 ára gamlir sóknarmenn sem báðir eiga 21 leik að baki fyrir yngri landslið Íslands.

Báðir fengu sínar mínútur á undirbúningstímabilinu og nýttu þær ágætlega. Rúnar Páll mun henda þeim inn á reglulega og er þessara ungu manna að grípa gæsina þegar hún gefst.

Markaðurinn
Haraldur BjörnssonMynd/Stjarnan
Komnir:

Dagur Austmann Hilmarsson frá Danmörku

Máni Austmann Hilmarsson frá Danmörku

Haraldur Björnsson frá Lilleström

Jósef Kristinn Jósefsson frá Grindavík

Óttar Bjarni Guðmundsson frá Leikni R.

Farnir:

Grétar Sigfinnur Sigurðarson í Þrótt

Guðjón Orri Sigurjónsson í Selfoss

Halldór Orri Björnsson í FH

Hörður Fannar Björgvinsson í Njarðvík

Veigar Páll Gunnarsson í FH

Stjarnan lét tvo af dáðustu sonum félagsins fara í vetur en bæði Veigar Páll Gunnarsson og Halldór Orri Björnsson gengu í raðir FH. Sitt sýnist hverjum um þetta í Garðabænum en ljóst er að þessir öflugu leikmenn eru farnir.

Tveir varamarkverðir eru einnig horfnir á brot sem og Grétar Sigfinnur Sigurðarson en Rúnar Páll missti í raun engan sem honum fannst ekki ómissandi. Stjarnan bauð Halldóri Orra til dæmis samning sem hann gat ekki sætt sig við.

Stjarnan þurfti að finna sér aðalmarkvörð þriðja árið í röð og nú er mættur Haraldur Björnsson heim úr atvinnumennsku. Haraldur var aðalmarkvörður gullkynslóðarinnar í U21 árs landsliðinu og spilaði áður með Val hér heima en miklar væntingar eru bundnar við hann í Garðabænum.

Stjarnan fékk svo til sín tvo leikmenn úr Inkasso-deildinni; Jósef Kristinn Jósefsson frá Grindavík og Óttar Bjarna Guðmundsson frá Leikni. Jósef hefur áður spilað í Pepsi-deildinni og hefur, þrátt fyrir að vera vinstri bakvörður, verið einn albesti leikmaður 1. deildarinnar undanfarin ár.

Óttar Bjarni spilaði ágætlega fyrir Leikni þegar liðið var uppi í efstu deild sumarið 2015. Hann hefur spilað mikið á undirbúningstímabilinu en nú er það hans að standa sig með betra liði á sama sviði.

Hvað segir Hjörvar?
vísir/pjetur
„Stjarnan var með næstbesta liðið á leiktíðinni í fyrra. Nú er búið að laga það sem var að í fyrra, sem var markvarðastaðan. Það var mikið bras á þeirri stöðu í fyrra en nú er Haraldur kominn inn og er það hörkumarkvörður,“ segir Hjörvar.

„Liðið hefur virkað sæmilega sannfærandi í vor. Stjarnan byrjaði á að spila með þriggja manna vörn en eru nú komnir aftur í það sem þeir þekkja.“

Hjörvar segir að Stjarnan þurfi að fá mikið framlag frá sóknarmönnunum Hólmberti Aroni Friðjónssyni og Guðjóni Baldvinssyni.

„Þeir þurfa að vera góðir til að Stjörnunni vegni vel í sumar. Ég á líka von á því að Eyjólfur Héðinsson verði betri en í fyrra. Baldur [Sigurðsson] er líka gríðarlega mikilvægur fyrir þá og verður að haldast heill.“

„Ég er alveg bjartsýnn fyrir hönd Stjörnunnar og Stjörnumenn geta verð eitt af þeim liðum sem berjast um titilinn.“

Að lokum
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Ernir
Það sem við vitum um Stjörnuna er ... að þrátt fyrir að framherjar liðsins, Guðjón Baldvinsson og Hólmbert Aron Friðjónsson, komust aldrei í gang í fyrra og skoruðu aðeins sjö mörk skoraði Stjarnan mest allra liða eða 43 mörk. Sóknarleikurinn í heild sinni er því ekkert vandamál og getur gott í raun bara batnað ef Guðjón og Hólmbert fara að skora. Liðið er alíslenskt og með mikið af uppöldum leikmönnum sem stækkar hjartað í liðinu og þá er stemningin hvergi betri en í Garðabænum þegar vel gengur.

Spurningamerkin eru ... hvort að framherjarnir komist í gang því erfitt er að treysta á annað 43 marka tímabil með tvo fyrrverandi atvinnumenn frammi sem skora lítið. Varnarleikurinn hefur versnað undanfarin tvö ár og nú eru tveir nýir menn í varnarlínunni og nýr markvörður þriðja árið í röð. Standið á Baldri Sigurðssyni skiptir miklu máli og er spurning hvort hann geti beitt sér allt mótið.

Vísir/Ernir
Í besta falli: Dettur Stjarnan í 2014-gírinn og stuðningsmennirnir frábæru í Silfurskeiðinni fylgja með. Silfurskeiðin á sína traustu menn en þegar margir leikir vinnast ekki í röð kvarnast aðeins úr hópnum eins og kannski eðlilegt er. Ef markaskorunin heldur áfram eins og í fyrra og Guðjón og Hólmbert reima á sig markaskóna getur liðið raðað inn og þá þarf Stjarnan líka að verjast eins og hún gerði 2014 og 2015. Gangi allt upp í Garðabænum getur Stjörnulestin farið af stað og jafnvel endað sem Íslandsmeistari.

Í versta falli: Stendur Haraldur ekki undir væntingum í markinu og vörnin, með nýjum mönnum, heldur áfram að leka inn mörkum, jafnvel fleirum en í fyrra. Markaskorun dettur niður og stemningsleysið verður jafnslappt inn á vellinum sem og upp í stúku eins og í fyrra þegar sem verst gekk. Stjörnuliðið er vel mannað en það sýndi í fyrra að það getur alveg auðveldlega misst af Evrópusæti. Það er erfitt að treysta á þriðja frábæra endasprettinn í röð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×