Gagnrýni

Hinn kómíski kvíði

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Það er rík ástæða til að gefa SmartíLab tækifæri til að koma á óvart, fræða og skemmta, segir í leikdómi.
Það er rík ástæða til að gefa SmartíLab tækifæri til að koma á óvart, fræða og skemmta, segir í leikdómi. Mynd/Geirix
Árið 1950 söng Judy Garland eitt af sínum frægustu númerum í kvikmyndinni Summer Stock. ‘Get Happy’ átti eftir að verða eitt af hennar lykilnúmerum og dans­atriðið goðsagnakennt. Það sem færri vita er að hún var svo djúpt sokkin í lyfjaneyslu á þessum tíma að atriðið var tekið upp mánuðum eftir að upptökum lauk. Langvarandi kvíði hennar og óánægja með eigin líkama varð henni að lokum að falli, og dó hún fyrir aldur fram.

Kvíðinn getur nefnilega bæði verið lamandi en líka uppspretta fyrir listræna sköpun. Þetta er línan sem SmartíLab hópurinn reynir að dansa á í sýningunni Fyrirlestur um eitthvað fallegt, frumsýndur í Tjarnarbíó síðastliðinn sunnudag. Baldur er listamaður á kafi í vinnu að sínu nýjasta verki en er beðinn um að halda ræðu á versta tíma og í miðjum ræðuhöldunum fær hann óstjórnanlegt kvíðakast.

Hópurinn allur er skrifaður fyrir handritinu þar sem mismunandi kvíðasögur þræðast saman í bland við kómísk innslög. Sara Martí leikstýrir og finnur oft vandaðar lausnir til þess að láta atriðin flæða. Forvitnilegt verður að fylgjast með hennar listrænu þróun á næstu misserum. Vandamálið er að sýningin og handritið á það til að vera heldur bókstafleg og og lopinn er teygður óþarflega.

Sem dæmi má nefna leikmyndina en sýningin á að gerast inni í heilanum á Baldri. Leikmyndahönnuðurinn hæfileikaríki Brynja Björnsdóttir smíðar tilkomumikla grind sem trónir á sviðinu miðju en spyrja má hvort hún hafi verið besta lausnin fyrir sýninguna. Búningarnir eru því miður ekkert sérstaklega spennandi heldur frekar samtíningur af misfallegum rauðum flíkum. Hljóðmyndin og myndbandsvinnan er líka í höndum hópsins og glímir við sama vandamál. Stundum er hún virkilega áhrifarík en í öðrum atriðum, s.s. þegar ein persónan líkir kvíðanum við ljón, alltof einföld. Aftur á móti er lýsing Arnars Ingvarsson einstaklega vel heppnuð þrátt fyrir einfaldleikann og skyggir leikmyndina fallega.

Leikararnir Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Hannes Óli Ágústsson, Kjartan Darri Kristjánsson og Sigrún Huld Skúladóttir vinna vel saman og fá öll tækifæri til þess að skína. Öll leika þau mismunandi útgáfur af Baldri, þar á meðal raddirnar í höfðinu á honum, en einnig persónur sem takast á við kvíða á mismunandi hátt. Sigrún Huld er grátbrosleg sem unga konan að undirbúa sig fyrir stefnumót, Guðmundur bráðfyndinn sem Kvíðamaðurinn og frammistaða Kjartans Darra oft á tíðum virkilega góð. Hann hefur bæði taktinn og einlægnina til að vaxa enn frekar.

Hannes Óli hefur alveg einstaklega traustvekjandi sviðsveru og á auðvelt með að vekja samúð áhorfenda en á sama tíma kitla hláturtaugarnar, oft með fáum orðum. Eitt af áhrifaríkustu atriðunum er undir tónum ‘Get Happy’ sungið af Judy Garland á meðan Agnes klemmir þvottaklemmur á líkama sinn. Ekkert er sagt heldur er áhorfendum gefið tækifæri til þess að upplifa kvíðann á sínum eigin forsendum, nánast á sínu eigin skinni.

Fyrirlestur um eitthvað fallegt rokkar á milli þess að hitta beint í mark og jaðra á öðrum stundum við áhugamannaleikhús. Aftur á móti er rík ástæða til að hvetja fólk til þess að gefa SmartíLab tækifæri til að koma á óvart, fræða og skemmta.

Niðurstaða: Skondin sýning um mikilvægt málefni en listræna dirfsku skortir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×