Bílar

Jaguar Land Rover í 4 strokka bensínvélar

Finnur Thorlacius skrifar
Í nýju EMC vélaverksmiðju Jaguar Land Rover í Wolverhampton.
Í nýju EMC vélaverksmiðju Jaguar Land Rover í Wolverhampton.
Bílaframleiðendum er nauðugur sá kostur að snúa sér í meira mæli frá dísilvélum til bensínvéla þar sem dísilbílar verða víða bannaðir sökum mengunar þeirrar sem frá þeim stafar. Eins og fram kom hér í grein í síðustu viku eru margir lúxusbílaframleiðendur nú með mjög hátt hlutfall dísilbíla og þar trónir Jaguar Land Rover efst á lista með 90% bíla sinna knúna dísilvélum.

Við þessu hefur Jaguar Land Rover nú brugðist með þróun nýrra og aflmikilla bensínvéla sem framleiddar eru í nýrri EMC (Engine Manufacturing Center) vélaverksmiðju fyrirtæksins. Fyrsta nýja vélin sem þaðan kemur er aðeins 2,0 lítra og fjögurra strokka bensínvél sem mun bæði fara í Jaguar og Land Rover bíla strax í sumar. Þessi nýja vél er af Ingenium gerð og er mjög öflug þrátt fyrir lítið sprengirými, eða 300 hestöfl.

Hjá EMC verða í framhaldinu framleiddar nokkrar aðrar nýjar bensínsvélar með meira sprengirými. Jaguar Land Rover segir að nýju vélarnar séu ákaflega sparsamar og muni leysa af hólmi dísilvélar. Meira en 1.400 nýir starfsmenn voru ráðnir í þessa nýju EMC vélaverksmiðju Jaguar Land Rover sem staðsett er í Wolverhampton og fengu starfsmenn þar meira en 125.000 klukkustunda þjálfun áður en eiginleg framleiðsla hófst.

Fyrsti bíllinn sem fær nýja 2,0 lítra og 4 strokka bensínvélina verður Jaguar F-Type, en komandi Jaguar E-Page jepplingur mun einnig fá þessa vél.






×