Lífið

Viðskiptablaðið lét Moggann gabba sig

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ikea í Garðabæ.
Ikea í Garðabæ. Vísir/VIlhelm
Sum aprílgöbb heppnast einfaldlega betur en önnur - svo vel að jafnvel hinir skynsömustu viðskiptablaðamenn láta plata sig. Eitt þeirra verður að teljast aprílgabb Morgunblaðsins þar sem segir frá meintum viðbrögðum IKEA við komu Costco til landsins.

Í fréttinni er rætt við Þórarinn Ævarsson, forstjóra IKEA á Íslandi, sem segir að nauðsynlegt sé fyrir fyrirtækið að mæta harðnandi samkeppni og því hafi IKEA ákveðið að byrja sjálft að bjóða upp á einstaklings- og fyrirtækjaaðild eins og þekkist hjá Costco.

Neðar í fréttinni gefst fólki svo kostur á að fara inn á skráningarsíðu, sem einhverra hluta vegna er skráð hjá mbl.is en ekki IKEA, þar sem það getur sótt um aðild að IKEA-klúbbnum svokallaða.

Fréttin hefur vakið mikla athygli í morgun og hafa rúmlega 800 áhugasamir skráð sig í hinn nýja klúbb - sem þó, sem fyrr segir, er ekki til og ekki stendur til að stofna.

Hvort blaðamaður Viðskiptablaðsins, sem skrifaði frétt upp úr aprílgabbi Morgunblaðsins, hafi skráð sig líka skal ósagt látið en eitt er víst; hann féll fyrir gabbinu og „hljóp apríl“ eins og fjöldamargir aðrir.

Hér að neðan má sjá frétt Viðskiptablaðsins sem skrifuð var upp úr gabbi Moggans. Fréttin á vef VB hefur nú verið fjarlægð.

 

Fréttin sem birtist á vef Viðskiptablaðsins en hefur nú verið fjarlægð.Skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.